Fréttir
  • Fundurinn í Hofi á Akureyri var vel sóttur og góðar umræður sköpuðust.
  • Frá fundi í Hofi á Akureyri.
  • Frá fundi á Egilsstöðum. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, ræðir við hópinn.

Vel heppnaðir samráðsfundir um vinnureglur vetrarþjónustu

Fundað með hagaðilum um allt land

24.10.2023

Vegagerðin stóð á haustdögum fyrir sex samráðsfundum um allt land. Tilgangur þeirra var að fara yfir endurskoðun á vinnureglum vetrarþjónustu, en þátttakendur voru fulltrúar sveitarfélaga, atvinnulífs og fleiri hagaðila.

Vegagerðin hefur undanfarna mánuði unnið að því að yfirfara forsendur, forgangsröðun og meta tilefni til breytinga á gildandi reglum um vetrarþjónustu á þjóðvegum frá árinu 2018. Yfirferð á gildandi reglum felst í að uppfæra mat á þjónustuþörf og forgangsröðun auk þess að gera tillögur að breytingum og áhrif þeirra á þörf fyrir fjárveitingar.

Verkefnið er unnið að ósk innviðaráðuneytis og lögð hefur verið áhersla á aðkomu hagaðila. Því var ákveðið að efna til samráðsfunda um allt land með fulltrúum sveitarfélaga, atvinnulífs og fleiri. Haldnir voru sex fundir:

 

  • Fyrir Höfuðborgarsvæði og Suðurnes í Keflavík.
  • Fyrir Suðurland á Hellu.
  • Fyrir Vesturland í Stykkishólmi.
  • Fyrir Vestfirði á Ísafirði.
  • Fyrir Norðurland á Akureyri.
  • Fyrir Austurland á Egilsstöðum.


Góð mæting var á fundina en alls tóku um 115 manns þátt í umræðum sem voru bæði líflegar og afar gagnlegar. Þátttakendur tóku allir þátt af fullum hug og voru virkir enda kom mikið af góðum og gagnlegum ábendingum fram sem verður hægt að nota í áframhaldandi vinnu við endurskoðun vinnureglna vetrarþjónustu. Einnig komu fram  ábendingar og hugmyndir sem Vegagerðin mun skoða hvort hægt sé að framkvæma strax. Nokkur samhljómur var meðal fundarmanna en þó voru vissulega misjafnar áherslur eftir landsvæðum.

Samráð við hagaðila er mikilvægur þáttur í allri starfsemi Vegagerðarinnar og mikilvægt að geta átt gott samtal um málefni sem brenna á fólki.