Saga Svalvogavegar

Svalvogavegur 50 ára

Svalvogavegur er vegur á milli Keldudals í Dýrafirði og Stapadals í Arnarfirði. Vegurinn er um 49 km langur. Hann er torfær og eingöngu hægt að fara hann á fjórhjóladrifnum bíl.  

Saga Svalvogavegar hófst árið 1954 þegar Hermann Guðmundsson byrjaði að ryðja veginn frá Sveinseyri út í Keldudal. Hermann byrjaði verkið fyrst á TD 9 ýtu. Þorvaldur Zófoníasson hélt áfram með verkið á International TD 14 ýtu frá ræktunarsambandi Vestur-Ísafjarðarsýslu. Þá kom Guðni Albert Guðnason að verkinu á Caterpillar D6 vél frá Flateyjarhrepp. Á þessum tíma var enn búið í Keldudal. Haldið var áfram út Keldudalsbakkana og út á Hraunshlíðina að hryggnum innan við Hrafnholur. Ætlunin hafði verið að fara þar með veginn í fjöru en eftir að hleypa varð ýtu niður í fjöru þegar skriða fór af stað undan ýtunni, var hætt við þessa framkvæmd. Þarna komu nokkrir að verki á International TD 18 vél: Björn Finnbogason, Gunnar Pétursson, Ásvaldur Guðmundsson og fleiri.

Elís Kjaran Friðfinnsson

Árið 1973 hélt Elís Kjaran Friðfinnsson (1928-2008) bóndi á Kjaransstöðum í Dýrafirði áfram með verkið. Elís Kjaran starfaði meðfram búskapnum við ýmsa jarðvinnu á eigin ýtum. Hann kom bæði að vegagerð og einnig við lagningu háspennulína. Hann ruddi þar margan slóðann við erfiðar aðstæður.

Svalvogavegurinn var lagður á grunni kindagötu eða einstigis

Í dagbók sína skrifaði Elís þann 5. júní 1973 að hann væri kominn út á enda. Þá hafði hann lokið við hreinsun vegarins frá Sveinseyri út í Keldudal og út Hraunsbakkana að Hrafnholum. Þar var einstigi um surtarbrands hillu í Hrafnholum. Einstigið var fært gangandi vegfarendum yfir sumarið og heitir Ytri – Ófæra.

Teskeiðin

Surtarbrandslagið í Hrafnholum varð til í löngu goshléi í upphleðslu Vestfjarðakjálkans fyrir um 12 til 13 milljónum ára við tilflutning gosbelta. Það er í svokölluðu Breiðhillulagi sem er þekkt allt frá Breiðafirði norður um til Hornstranda. Taldi Elís það einu leiðina til að komast út á Hafnarnesið að fara eftir þessum fornu setlögum og þann 6. júní 1973 er skrifað í dagbókina: 6 tímar á vél. Nýbygging! Telst þá vegalagning Elísar byrja um hrygginn innan Hrafnhola. Haldið var vel áfram, með dyggri aðstoð Ragnars Kjarans Elíssonar, sonar Elís og út úr Hrafnholum undir Helgafelli komust þeir feðgar þann 16. júní 1973. Þá voru komnir 80  tímar á vélina, sem var af gerðinni International TD 8, oft kölluð teskeiðin.

Komið að Svalvogum

Þarna var ísinn brotinn en það hvorki fyrirhafnarlaust né athugasemdalaust!  Þetta háskaverk þeirra feðga varð til þess að áfram var hægt að halda og fara auðveldari leiðir með vegagerðina til bæjanna á útnesinu Hafnar, Svalvoga og allt til Lokinhamradals. Þar voru Aðalból og Hrafnabjörg í byggð.

Þann 10. júlí var komið að Svalvogum. Var þar slegið upp veislu hjá Svalvogabúum í tilefni þess að vegasamband var komið á. 

Þessi vísa varð til af munni Elísar er komið var að Svalvogum:

Það er erfitt að hnuðla á eintómu grjóti
en ágætt að stuðla á ný
þá beiti ég tönninni og brosi á móti
Og byggi mér vegi úr því

Mikill áhugi var meðal Dýrfirðinga og íbúa útnessins fyrir þessari vegalagningu, sem sumir trúðu vart að yrði nokkurn tímann að veruleika en aðrir hvöttu menn einatt til dáða.

Elís hélt svo áfram um Svalvogabrekkur milli Svalvogahamars og Sléttaness og inn fyrir Sléttanes allt að Hvammsgili undir Tóarfjalli. Árið eftir var haldið áfram með vegarlagninguna til Lokinhamradals. Þá var komin að verkinu stærri ýta, International TD15 sem Brautin S/F átti. Ýtustjórar á þeirri vél voru Gunnar Gísli Sigurðsson og Angantýr Valur Jónasson. Vorið 1974 fara þeir á TD 15 vélinni sem gárungar kölluðu „aleiguna“ og endurbættu og breikkuðu slóðina sem Elís markaði haustinu áður frá Svalvogum og luku vegalagningunni til Lokinhamradals í ágústbyrjun 1974.

Elís tók, fyrir áeggjan Sigríðar Ragnarsdóttur á Hrafnabjörgum, til við að fara inn Bjargahlíðina frá Lokinhamradal árið 1983 og komst með vegslóða inn að Stapadal. Þar háttar svo til að fara þarf niður í fjöru við Ytra-Gil og undir Sléttubjörg og Skútabjörg um Stapasund inn að Stapadal. Þar innan til er Innra-Gil og stendur þessi slóði sem er einungis fær að sumri eftir árvissa endurbyggingu í fjörunni. Þarna þarf á stundum að sæta sjávarföllum um fjöruleiðina. Elís taldi ófært að fara um gilin sjálf og Söðul milli þeirra.

Vegur var áður kominn að Álftamýri árin 1955-6 og í Stapadal árið 1958, frá Auðkúlu. Var það sýsluvegur, lagður með sömu vélum og voru notaðar við lagningu vegar til Keldudals.  Ýtustjórar voru Þorvaldur Zófoníasson, Guðni Albert Guðnason, Guðmundur Steinarr Gunnarsson, Ebeneser Þórarinsson og fleiri komu að þeirri vegarlagningu.

Viðhald og lagfæringar á veginum

Í all nokkur ár sá Elís Kjaran ásamt frænda sínum Gunnari Gísla Sigurðssyni um árlega hreinsun vegarins og Gunnar Gísli eftir það, frá árinu 1991 til ársins 2020 og alltaf var verið að gera einhverjar lagfæringar samhliða árlegri hreinsun vegarins að vori.

Hluti Svalvogavegar (622) frá Haukadal í Dýrafirði til Lokinhamradals er landsvegur á vegaskrá og fær hann fjárveitingu til viðhalds og hreinsunar á ári hverju. Þjónustustöð Vegagerðarinnar á Ísafirði sér um þann hluta vegarins.

Vegurinn í Arnarfirði frá Auðkúlu, rétt utan Hrafnseyrar allt til Stapadals og Lokinhamradals er ekki á vegaskrá. Leiðin frá Auðkúlu til Stapadals er að jafnaði nokkuð góð, en nokkur smærri vöð eru á þeirri leið yfir ár og læki. Um fjöruna undir björgunum þarf að endurgera slóðann á hverju sumri og stendur það yfirleitt sæmilega vel um sumarmánuðina, en Ísafjarðarbær sækir um fé til styrkvegasjóðs til að halda veginum sumarfærum.

Heimilda hefur víða verið leitað, einkum í bók Vestfirska forlagsins, Brautryðjendur fyrir Vestan. Surtarbrandur á Vestfjörðum 1984. Sem og á tímarit.is, þar sem finna má fjölmargar frásagnir og viðtöl við Elís Kjaran og fleiri um Svalvogaveginn.  Guðmundur Steinarr Guðmundsson fyrrverandi rekstrarstjóri  Vegagerðarinnar í Vestur-Ísafjarðarsýslu og Gunnar Gísli Sigurðsson á Þingeyri og fleiri hafa lagt þessari samantekt lið en hana tók saman Guðmundur R. Björgvinsson hjá Vegagerðinni á Ísafirði.