Jafnréttisáætlun

Leiðarljós 

Að Vegagerðin sé eftirsóttur vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði kynja er virt og öll kyn hafa jöfn tækifæri á öllum sviðum.

Jafnréttisáætlun Vegagerðarinnar 

Jafnréttisáætlun þessi gildir fyrir Vegagerðina sem sameiginlegan vinnustað, óháð starfsstöð, samanber 5. grein laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynja (jafnréttislög). Hún kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Vegagerðarinnar þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum. Stjórnendur eru ábyrgir fyrir því að ákvæðum jafnréttisáætlunarinnar sé framfylgt.

Það er stefna Vegagerðarinnar að stuðla að því að jafna stöðu kynja hjá Vegagerðinni. Allt starfsfólk skuli njóta sömu tækifæra og sambærilegra réttinda og er kynbundin mismunun óheimil í hvaða formi sem hún birtist. Hjá stofnuninni á að ríkja launajafnrétti og skal jafnréttis gætt við ráðningar og tilfærslur í starfi. Þegar ráðið er í störf hjá Vegagerðinni skulu jafnréttissjónarmið metin til jafns við önnur sjónarmið.

Litið er á endur- og símenntun sem mikilvægan þátt í að efla og viðhalda mannauði Vegagerðarinnar og þar skal gæta jafnréttis. Vegagerðin ber virðingu fyrir skyldum starfsfólks gagnvart fjölskyldu og er mikilvægt að starfsfólki séu skapaðar aðstæður til að samræma vinnu og einkalíf.

Koma skal fram við allt starfsfólk af virðingu og kurteisi í öllum samskiptum. Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni verður ekki undir neinum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum. Vegagerðin lítur meðvirkni starfsfólks í einelti og kynbundnu ofbeldi og áreitni alvarlegum augum og mótar starfsumhverfi vinnustaðarins með það að markmiði að fyrirbyggja að starfsfólk komist í þá aðstöðu.

Launajafnrétti

Markmið

Það er markmið Vegagerðarinnar að laun og önnur starfskjör eða hlunnindi séu jöfn fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir öll kyn. Ákvarðanir sem hafa áhrif á launakjör skulu byggjast á málefnalegum forsendum og jafnréttis gætt. Viðmið sem sett eru til grundvallar launaákvörðunum skulu ekki fela í sér kynjamismunun.

Aðgerðir

  • Viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi og skjalfesta.
  • Fylgja viðeigandi lögum og reglum sem í gildi eru á hverjum tíma.
  • Framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman sömu eða jafnverðmæt störf til að ganga úr skugga um hvort kynbundinn launamunur sé til staðar.
  • Kynna starfsfólki niðurstöður launagreiningar hvað varðar kynbundinn launamun. 
  • Bregðast við frábrigðum með stöðugum umbótum og eftirliti.
  • Gera innri úttekt á öllum skjölum sem tilheyra jafnlaunakerfi eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
  • Halda rýni stjórnenda árlega.
  • Ef starfsmaður telur að launamismunun sé til staðar á grundvelli kynferðis, skal hann leitast við að rökstyðja það með því að bera saman þau tilvik sem hann telur að sér sé mismunað gagnvart. Yfirstjórn og mannauðsstjóra, ber að taka erindi starfsmanns til skoðunar. Fallist yfirstjórn og mannauðsstjóri á rök starfsmanns þess efnis að launamunur sé til staðar og verði ekki skýrður með hliðsjón af öðru en kynferði starfsmanns ber að breyta launaákvörðun. Fallist yfirstjórn og mannauðsstjóri ekki á rök starfsmanns þess efnis ber þeim að sýna fram á að svo sé ekki og rökstyðja á hvaða málefnalegu sjónarmiðum umræddur launamunur er byggður.

Laus störf

Markmið

Stefnt er að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynja í hinum ýmsu störfum innan Vegagerðarinnar og skal jafnréttissjónarmið vera metið til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ákvarða ráðningu í starf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna stöðu kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstörfum. Laust starf hjá Vegagerðinni skal standa opið öllum kynjum. Við úthlutun verkefna og skipan í nefndir og stjórnir á vegum Vegagerðarinnar skal eftir því sem við verður komið, leitast við að hlutfall kynja sé sem jafnast.

Aðgerðir

  • Í auglýsingum um laus störf skal hvetja fólk óháð kyni að sækja um viðkomandi starf. Ef tveir jafnhæfir einstaklingar sækja um auglýst starf, skal sá af því kyni sem er í minnihluta í slíkum störfum hjá Vegagerðinni að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningu.
  • Í ráðningarviðtölum skal þess gætt að sambærilegar spurningar séu lagðar fyrir einstaklinga af öllum kynjum. Stjórnendur skulu halda saman þeim upplýsingum sem lagðar eru til grundvallar ráðningum.
  • Við úthlutun verkefna og tilfærslur í störfum svo og við ákvarðanir á starfsaðstæðum skal þess gætt að starfsfólki sé ekki mismunað, á grundvelli kynferðis.
  • Greining á hlutfalli kynja í nefndum og ráðum á vegum Vegagerðarinnar.

Endur- og símenntun

Markmið

Það er markmið Vegagerðarinnar að allt starfsfólk eigi kost á að sækja sér endur- og símenntun og ákvarðanir um úthlutun námsleyfa skulu byggjast á málefnalegum forsendum og jafnréttis gætt.

Aðgerðir

  • Árleg kynjagreining á þátttöku í endur– og símenntun og í starfsþjálfun.
  • Árleg greining á því hverjir eru að sækja sér endur- og símenntun.
  • Ef misræmi kemur í ljós skal skoða orsakir þess og leiðrétta t.d. með tilfærslu verkefna milli starfsmanna eða annarra aðgerða sem að gagni koma.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Markmið

Starfsfólki af öllum kynjum, skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið. Óheimilt er að láta fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi, endurmenntun, uppsögn, vinnuaðstæður eða annað sambærilegt. Þá ber að leitast við að halda yfirvinnu starfsfólks í lágmarki.

Aðgerðir

  • Skoða hvaða möguleikar eru til að auka sveigjanleika og auka jafnræði starfsfólks varðandi sveigjanleika óháð kynferði.
  • Gætt skal þess að möguleikar á hlutastörfum séu jafnir á milli kynja.
  • Meginreglan sé sú að starfsfólk komi aftur í starf sitt að afloknu fæðingar- og foreldraorlofi.

Einelti og kynferðisleg ofbeldi

Markmið

Starfsfólk Vegagerðarinnar skulu geta notið sín sem einstaklingar. Stefna Vegagerðarinnar er að allt starfsfólk komi fram hvert við annað af kurteisi og alúð. Einelti og kynferðislegt ofbeldi verður undir engum kringumstæðum liðin.

Aðgerðir

  • Við upphaf starfs skal kynna starfsfólki áætlun Vegagerðarinnar um aðgerðir gagnvart einelti og kynferðislegu ofbeldi samanber verklagsreglu í gæðakerfi Vegagerðarinnar þar um.
  • Ef upp koma mál um einelti eða kynferðislegt ofbeldi eða áreitni skal tekið á því strax samanber verklagsreglu.
  • Eftir þörfum skal halda námskeið um einelti og kynferðislega ofbeldi og varnir gegn því.

Framkvæmd og ábyrgð

Ábyrgð á framgangi jafnréttismála eru hjá mannauðsstjóra og jafnréttisfulltrúa. Forstjóri ákveður hver er jafnréttisfulltrúi hverju sinni. Yfirmenn sviða og svæða bera ábyrgð á að einstökum ákvæðum jafnréttisáætlunarinnar sé framfylgt innan hvers sviðs eða svæðis.

Hlutverk jafnréttisfulltrúa er að fylgja markmiðum Vegagerðarinnar í jafnréttismálum og skal hann gefa út ársskýrslu sem sýnir árangur jafnréttisstefnu og ástand jafnréttismála hjá Vegagerðinni. Jafnréttisfulltrúi sendir ársskýrslu sína til Jafnréttisstofu sbr. 27. gr. laga nr. 150/2020, að aflokinni umfjöllun yfirstjórnar Vegagerðarinnar. Jafnréttisfulltrúi skal jafnframt vinna að því að jafnréttisáætlun sé framfylgt og viðhaldið og leggja mat á hvort markmiðum hennar sé náð. Jafnréttisfulltrúi er einnig ásamt mannauðsstjóra ráðgjafi starfsmanna og yfirstjórnar í jafnréttismálum.

Kynning og endurskoðun jafnréttisáætlunar

Jafnréttisáætlun skal kynnt fyrir öllu starfsfólki Vegagerðarinnar og gerð grein fyrir hvert hægt er að leita með athugasemdir. Jafnréttisáætlun skal endurskoða þriðja hvert ár og tekur endurskoðun meðal annars mið af könnun á árangri áætlunarinnar. Jafnréttisáætlun skal vera aðgengileg starfsfólki á innra neti stofnunarinnar og jafnframt aðgengileg á heimasíðu Vegagerðarinnar.



Jafnréttisáætlunin var endurskoðuð og samþykkt af  yfirstjórn Vegagerðarinnar 27.02.2023