Fréttir
  • Úr Hvalfjarðargöngum

Vel gekk að slökkva í fólksbíl í Hvalfjarðargöngum

Göngin lokuð í óvenju langan tíma

11.10.2023

Vel gekk að slökkva í fólksbíl sem kviknaði í í Hvalfjarðargöngunum kl. 15:49 í dag. Þrír voru í bílnum og komust allir greiðlega út, engan sakaði.  Bíllinn var á suðurleið kominn nokkuð á veg upp frá botni ganganna þegar kviknaði skyndilega í honum. Göngunum var umsvifalaust lokað og slökkvilið kallað til og var það komið á staðinn kl. 16:06.

Bíllinn varð strax alelda. Farþegar bílsins gripu til slökkvitækja í göngunum en eldurinn var of mikill til að það dygði til að ráða niðurlögum hans. Slökkvilið kom inn í göngin að norðanverðu þar sem reyk lagði suður göngin. Vel gekk að slökkva í bílnum.

Umferð var og er beint um Hvalfjörð. Lögregla kom fljótt á vettvang til að stýra umferð en þótt búið sé að fjarlægja bílinn og blásarar ganganna hafi lokið að reykræsta er nauðsynlegt að yfirfara búnað ganganna, hreinsa myndavélar og annað til að tryggja að öll öryggistæki virki rétt. Tryggja þarf með óyggjandi hætti að göngin séu örugg og að enginn öryggis- eða vöktunarbúnaður hafi skemmst.

Tilkynnt verður á umferdin.is þegar göngin verða opnuð. Miðað við stöðum kl. 18:00 má reikna með að göngin verði opnuð jafnvel kl. 19:00, en þá verða að minnsta kosti gefnar upp nýjar upplýsingar.

Áður en þetta atvik kom upp hafði verið unnið að því að tímasetja slökkviliðsæfingu viðbragðsaðila samkvæmt viðbragðsáætlun ganganna. Sú æfing mun fara fram fljótlega á næstu vikum.

Uppfært kl. 18:33: Búið er að opna göngin fyrir umferð!