Fréttir
  • Í fyrsta Vegvarpinu ræddi G. Pétur við þá Birki Hrafn Jóakimsson og Jón Helgason um malbik og klæðingu.
  • Bryndís Friðriksdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson sátu fyrir svörum um Borgarlínu í öðrum þætti Vegvarpsins

Vegvarpið – vefþættir Vegagerðarinnar

Fjallað um fjölbreytt og áhugaverð málefni.

10.12.2021

Vegvarpið, hlaðvarpsþættir í sjónvarpsþáttaformi, er nýjung í upplýsingaflóru Vegagerðarinnar. Þáttunum er streymt á netinu og fjalla þeir um fjölbreytt málefni sem varða Vegagerðina.

Hlaðvörp njóta mikilla vinsælda, en það eru útvarps- eða sjónvarpsþáttaraðir sem gefnar eru út á netinu. Formið þykir skemmtilegt enda er lengd hvers þáttar ekki meitluð í stein og því hægt að kafa eins djúpt í málin og þurfa þykir.

Nú hefur Vegagerðin hafið gerð hlaðvarpsþátta í myndbandsformi sem bera heitið Vegvarpið. Fyrsti þáttur fór í loftið 4. nóvember. Þar ræddi G. Pétur Matthíasson forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar við Birki Hrafn Jóakimsson forstöðumann stoðdeildar og  Jón Magnússon deildarstjóra á framkvæmdadeild um malbik og klæðingu, hver munurinn sé og hvernig viðhald vega er ákveðið.

Viðtökurnar við þættinum voru góðar en um 1000 manns hafa horft á myndbandið.

Þáttur tvö fór í loftið 25. nóvember. Þar ræddi G. Pétur um Borgarlínuna við Bryndísi Friðriksdóttur svæðisstjóra Höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar og Þorstein R. Hermannsson forstöðumann samgangna hjá Betri samgöngum ohf. Þau svöruðu því meðal annars hvað Borgarlínuverkefnið gengur út á, hver munurinn sé á borgarlínuvagni og strætisvagni, hvernig Vegagerðin og Betri samgöngur komi að verkefninu og út á hvað þessi samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins gengur.

Í næstu þáttum er ætlunin að koma víða við. Til að mynda á að fjalla um vetrarþjónustu sem nú er víðast hvar hafin og almenningssamgöngur en ekki allir vita að Vegagerðin heldur utan um rekstur almenningssamgangna á landsbyggðinni, almenningsvagna, flug og ferjur.

Hægt er að nálgast upptökur af Vegvarpinu á Youtuberás Vegagerðarinnar.

Vegvarpið - Malbik og klæðingar

Vegvarpið - Hvers vegna borgarlína og hvað er Borgarlínan?