Fréttir
  • Hér má sjá áhrifasvæði Sundabrautar.

Sundabraut – kynningarfundir um framkvæmdina haldnir í október

19.9.2023

Verklýsing vegna fyrirhugaðra breytinga á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur í síðustu viku. Með verklýsingunni eru boðaðar breytingar sem varða legu og útfærslu áformaðrar Sundabrautar. Jafnhliða því var lögð fram áætlun um hvernig standa skuli að umhverfismati breytinganna. Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg, vinnur nú að undirbúningi Sundabrautar, frá Sæbraut að Kjalarnesi.

Kynningarfundir í október

Í framhaldinu er fyrirhugað að halda þrjá kynningarfundi um framkvæmdina í hverfum Reykjavíkurborgar, þ.e. í Laugardal, Grafarvogi og Kjalarnesi, í byrjun október. Fundirnir verða teknir upp og verða aðgengilegir á vef borgarinnar og Vegagerðarinnar. Einnig verður haldinn morgunverðarfundur í húsnæði Vegagerðarinnar í Suðurhrauni 3 í Garðabæ í byrjun október. Sá fundur verður einnig í streymi.

Á kynningarfundunum verður væntanleg framkvæmd kynnt, ásamt áherslum í mati á umhverfisáhrifum og vinnu við breytingar á aðalskipulagi. Til skoðunar eru valkostir á legu Sundabrautar, tengingar við núverandi byggð, framtíðarbyggð og atvinnustarfsemi, auk útfærslu gatnamóta.

Nánari tímasetning fyrirhugaðra kynningarfunda verður auglýst á næstu dögum á vef Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar og víðar.

Matsáætlun liggur nú frammi til kynningar hjá Skipulagsstofnun og er aðgengileg á Skipulagsgátt þar sem hægt er að senda inn umsagnir.

Sjá einnig fundargerð borgarráðs