Fréttir
  • Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Atli Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks handsala samninginn.

Skrifað undir verksamning um gerð vegfyllinga yfir Djúpafjörð og Gufufjörð

Samið við Borgarverk

4.12.2023

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Atli Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks skrifuðu undir verksamning fimmtudaginn 30. nóvember vegna verksins; Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Hallsteinsnes – Skálanes, fyllingar. Verkið er fyrsti áfangi í þverun fjarðanna tveggja en brúargerðin verður boðin út síðar.

Tilboð í verkið voru opnuð 12. október. Borgarverk var með lægsta boð upp á 838 milljónir króna, eða 74 prósent af áætluðum kostnaði. Borgarverk er vel kunnugt staðháttum enda var verktakinn að ljúka við framkvæmdir við veg um Teigsskóg sem opnaður var fyrir umferð 1. desember.

Nokkur tímamót hafa því orðið undanfarið við framkvæmdir Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Brúin yfir Þorskafjörð var opnuð í síðasta mánuði sem stytti veginn um tæpa tíu kílómetra. Nú getur fólk einnig ekið um Teigsskóg og inn austanverðan Djúpafjörð í stað þess að aka yfir Hjallaháls sem er 336 m hár.

Vegfarendur þurfa áfram að aka um Ódrjúgsháls, eða þar til framkvæmdum við þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar lýkur.

Borgarverk mun hefja framkvæmdir við fyllingar yfir firðina við fyrsta tækifæri. Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 3,6 km kafla en innifalið í verkinu er bygging um 119 m langrar bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð. Verklok þessa verks eru áætluð 30. september 2025. Ekki liggur fyrir hvenær næsti áfangi verður boðinn út en vonast til að það verði á nýju ári.