Fréttir
  • Jóhanna Ósk Halldórsdóttir og Bergþóra Þorkelsdóttir
  • Baldur
  • Jóhanna Ósk Halldórsdóttir og Bergþóra Þorkelsdóttir

Skrifað undir samning við Sæferðir um rekstur Baldurs

Vegagerðin og Sæferðir hafa komist að samkomulagi um rekstur á Breiðafjarðarferjunni Baldri

30.10.2023

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Jóhanna Ósk Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Sæferða, skrifuðu í dag undir samning um að Sæferðir taki að sér rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Áformað er að nýr Baldur hefji áætlunarsiglingar um Breiðafjörð upp úr miðjum nóvember. 

Baldur er í slipp hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. í Hafnarfirði en gera þurfti nokkrar breytingar til að skipið getið þjónað siglingum á Breiðafirði með viðkomu í Flatey.

Undanfarið hefur m.a. verið unnið að því að koma fyrir nýjum þilfarskrana, nýjum landfestuvindum, færa björgunarbáta, útbúa geymslusvæði á þilfari og mála skipið að utan svo það helsta sé nefnt.  Einnig hefur verið unnið að almennu viðhaldi véla og búnaðar.  

Vonast var til að þessari vinnu myndi ljúka fyrir lok október en vætutíð hefur seinkað allri vinnu við málun og þar með verkinu í heild.   

Sæferðir sem sinnt hafa þjónustu við Flatey á Breiðafirði gera það með skipinu Særúnu þangað til Baldur verður tilbúinn til reksturs á Breiðafirði. „Þetta er búið að vera langt og strangt ferli að endurnýja Baldur, sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, „En það hefur tekist mjög vel til. Við erum ánægð með nýja skipið og endurbæturnar sem gerðar hafa verið og væntum mikils af því. Við gerum okkur vonir um að siglingar Baldurs á Breiðafirði reynist farsælar.

„Ég get tekið heilshugar undir þetta, sagði Jóhanna Ósk og bætti við að hún væri ánægð með samningin við Vegagerðina og ánægð með nýjan Baldur. „Við trúum því að þetta verði farsælt samstarf og að þjónustan muni eflast með þessu nýja skipi.