Fréttir
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi
  • Tekið á móti nýjum Baldri í Stykkishólmi

Nýjum Baldri fagnað í Stykkishólmi

Fjöldi fólks kom að skoða ferjuna

17.11.2023

Tekið var formlega á móti nýrri Breiðafjarðarferju sem ber heitið Baldur við hátíðlega athöfn í Stykkishólmshöfn föstudaginn 17. nóvember. Fjöldi fólks lagði leið sína niður á höfn til að skoða ferjuna, sem var opin fyrir gesti og gangandi. Boðið var upp á kaffi og meðlæti um borð og gafst gestum tækifæri til að skoða farþegarými skipsins. Nýi Baldur tekur 250 farþega og rúmar fimm stóra flutningabíla. Sæferðir sjá um rekstur ferjunnar fyrir Vegagerðina. Íbúar norðan megin við Breiðafjörð gefst kostur á að skoða Baldur í Brjánslæk, sunnudaginn 19. nóvember milli klukkan 17-18.

Fjöldi manns kom saman við höfnina í Stykkishólmi til vera við athöfnina og ekki var annað að merkja en að mikil ánægja væri með nýjan Baldur.

Öryggi farþega í fyrirrúmi

Athöfnin hófst á því að Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, flutti ávarp þar sem hún sagði mikið gleðiefni að taka formlega á móti nýrri Breiðafjarðarferju, enda muni ferjan auka til muna öryggi farþega á siglingaleiðinni milli Stykkishólms, Flateyjar og Brjánslækjar.

„Eldri ferjan, sem gegnt hafði ferjusiglingum undanfarin ár, þótti ekki standast öryggiskröfur sem gerðar eru í dag, enda aðeins með eina aðalvél. Strax árið 2021 var farið að skoða hvort hægt væri að finna annað skip sem uppfyllti þær kröfur sem settar eru fyrir ferjusiglingar á Breiðafirði. Við vorum einstaklega heppin að ferjan Röst stóð okkur til boða. Ferjuna þekktum við af góðu einu enda hafði hún verið notuð sem afleysingaskip fyrir Herjólf nokkrum árum áður,“ sagði Bergþóra og minntist sérstaklega á að það hafi heldur betur reynt á skipið á leiðinni frá Noregi til Íslands í október síðastliðnum, vegna veðurhams og mikils öldugangs.

„Mér skilst á skipstjórnarmönnum að skipið hafi staðið sig með stakri prýði og sá afar gott sjóskip. Vel fari um farþega á siglingu og öll aðstaða fyrir þá er til mikilla bóta,“ sagði hún.

Ferjan Röst fékk nýtt nafn, Baldur, fljótlega eftir komuna til Íslands, enda á saga nafnsins sér langa sögu og hefur Baldur, í einhverju formi, siglt um Breiðafjörð í heila öld.

„Það var okkur ljúft og skylt að verða við óskum íbúa við Breiðafjörð og nefna nýju ferjuna Baldur,“ sagði Bergþóra.

Að loknu ávarpi forstjóra var klippt á borða við hátíðlega athöfn. Auk forstjóra Vegagerðarinnar klipptu þau Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, Þórdís Sif Sigurðardóttur, bæjarstjóri Vesturbyggðar, Stefán Vagn Stefánsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmisins og Jóhanna Ósk Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Sæferða á borða.

Ferjusiglingar um Breiðafjörðinn mikilvægar

Eftir borðaklippinguna var haldið í farþegarýmið, þar sem þau Jakob Björgvin, Þórdís Sif, Stefán Vagn og Jóhanna Ósk söguð nokkur orð. 

Í máli Jakobs Björgvins kom fram að það væri hátíðisdagur að taka nýjan Baldur í notkun um þá þjóðleið sem Breiðafjörðurinn er en á næsta ári verða 100 ár frá því að Breiðafjarðarferjan Baldur hóf fyrst siglingar um fjörðinn. „Við erum hér í dag að fagna fyrsta áfanganum af tveimur í því ferli að treysta til langtíma ferjusiglingar um Breiðafjörð en ég geri ráð fyrir því að annar áfanginn sé í vinnslu, en hann felst í þeirri framtíðarlausn í ferjusiglingum um Breiðafjörð að ríki hanni og smíði nýja ferju sem hönnuð verður með tilliti til orkuskipta framtíðarinnar og geti sinnt betur þörfum allra hagaðila, þ.m.t. íbúa og atvinnulífs við Breiðafjörðinn og þannig landinu öllu,“ sagði Jakob Björgvin.

Þórdís Sif tók í sama streng og talaði um mikilvægi þess að hafa möguleika á ferjusiglingum um Breiðafjörð, ekki síst vegna atvinnulífs á svæðinu. Auk þess væri sigling um Breiðafjörðinn mikil upplifun.

Stefán Vagn fór sérstaklega yfir mikilvægi þess að hafa traustar samgöngur um landið allt, samfélagi og atvinnulífi til heilla.

Jóhanna Ósk fór yfir sögu Sæferða og minntist á að skipstjórar Baldurs hefðu báðir hafið sinn ferli sem aðstoðarmenn í eldhúsinu í Baldri sínum tíma en síðar menntað sig til stýrimanns og væru nú orðnir skipstjórar á þessu góða skipi. „Gamli Baldur er farinn í siglingar um suðrænni slóðir en ef leiðin liggur í Karabíska hafið er aldrei að vita nema þið rekist á gamlan vin,“ sagði hún og þakkaði Vegagerðinni fyrir gott samstarf.

Lionsklúbburinn Harpa í Stykkishólmi sá um dýrindisveitingar við athöfnina.