Fréttir
  • Hér verður strætóstöð.

Nýjar strætóstöðvar við Hafnarfjarðarveg og færsla fráreinar í Suðurhlíð

23.8.2023

Tvær nýjar strætóstöðvar eru í undirbúningi við Hafnarfjarðarveg í Fossvogi og framkvæmdir eru þegar hafnar. Samhliða er unnið að gerð nýrra stíga sem tengja stöðvarnar inn á núverandi stígakerfi. Búast má við umferðartöfum við framkvæmdasvæðið á háannatímum. Verklok heildarverksins eru áætluð í lok október, en áætlað er að vinna við Hafnarfjarðarveg taki skemmri tíma.

Framkvæmdir vegna nýrra strætóstöðva við Hafnarfjarðarveg í Fossvogi, við göngubrúnna yfir Hafnarfjarðarveg hófust um miðjan ágúst. Jarðvegsvinna vegna strætóstöðvarinnar vestan megin við Hafnarfjarðarveg er vel á veg komin en stuttar tafir urðu þegar vatnslögn fór í sundur. Viðgerð á henni stendur yfir og vonast er til að tafir verði óverulegar. 

Í verkinu felst einnig færsla og lenging fráreinar af Hafnarfjarðarvegi (40-01) að Suðurhlíð. Gera á stíga að strætóstöðvunum, þvera stíg á Suðurhlíð og þrengja syðsta hluta Suðurhlíðar. Hljóðmön verður aðlöguð að þessum breytingum, niðurföll og ljósastaurar verða færðir til, auk þess sem nýir ljósastaurar verða settir upp.

Nýjar strætóstöðvar munu bæta til muna aðgengi íbúa í Fossvogi og Suðurhlíðum að þeim strætóleiðum sem fara þarna um, en kallað hefur verið eftir þessum úrbótum af hálfu íbúa. Jafnframt munu nýjar strætóstöðvar bæta tengingar við stóra vinnustaði á borð við Landspítalann í Fossvogi og Hrafnistu við Sléttuveg. Þá koma stöðvarnar og nýir stígar til með að tengja Fossvog og Suðurhlíðar betur við stíga sem liggja að Háskólanum í Reykjavík og stígum við Öskjuhlíð.

Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát við vinnusvæðið, sem er þröngt og starfsfólk og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Vegagerðin biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar framkvæmdir kunna að hafa í för með sér fyrir vegfarendur.