Fréttir
  • Farsímavefur Vegagerðarinnar

Farsímavefur Vegagerðarinnar, góður ferðafélagi

um að gera að nýta sér þjónustuna á vegum úti þar sem farsímasamband næst

15.1.2014

Á vef Vegagerðarinnar er að finna mikið af upplýsingum um veður og færð á vegakerfinu. Mikilvægasta hluta þessara upplýsinga er að finna á farsímavef Vegagerðarinnar m.vegagerdin.is

Vegfarendur eru margir vopnaðir snjallsímum og því hægur vandinn að nálgast upplýsingar þar sem farsímasamband er gott. Farsímavefurinn er einsog nafnið bendir til vefur en ekki app sem vinsæl eru í dag. Farsímavefurinn gerir þó sama gagn og app myndi gera en er að öllu leiti mun einfaldari. 


Vegfarendur eru hvattir til að nýta sér farsímavefinn á ferðalögum en hann er á slóðinni m.vegagerdin.is eins er hægt að smella á litla mynd af síma efst á hinum hefðbundnari vef Vegagerðarinnar til að komast beint á farsímavefinn.

Á farsímavefnum er að finna nýjustu tilkynningu umferðarþjónustunnar um veður og færð. Yfirlit er yfir veður og færð, hvort hált sé, skafrenningur, þoka eða annað það sem merkt er á færðarkorti Vegagerðarinnar. Finna má út hvort hætta sé á hálku eða vindhviðum. Skoða má umferðarþungann, finna allar vefmyndavélar og sjá myndir úr þeim, finna út vegalengdir á milli staða og fá upplýsingar um þjónustusíma Vegagerðarinnar.

Þetta er þjónusta sem er handhæg á ferðalagi og um að gera að nýta til að auðvelda sér ferðalagið.