Fréttir
  • Flutningar eru margvíslegir

Óánægja og ánægja

-- flutningaaðilar og verktakar

16.10.2007

Í viðhorfskönnun sem Lausnir hafa unnið fyrir Vegagerðina kemur fram að óánægja flutningsaðila með vegakerfið á Íslandi vex heldur frá síðustu könnun en hinsvegar eykst ánægja verktaka með samskiptin við starfsmenn Vegagerðarinnar í útboðsmálum.

Lausnir vinna slíka könnun árlega þar sem talað er við 50 aðila, 25 úr hópi verktaka og 25 úr hópi flutningsaðila. Nú í ár fór könnunin fram í september.

Flutningsaðilarnir eru spurðir um hvað þeim finnst um vegakerfið á Íslandi. Óánægjan með það eykst heldur frá því í ágúst í fyrra. Menn sögðu ýmislegt og til dæmis þetta:

Er eitthvert vegakerfi?

Of mjóir og ómögulegir vegir, hættulegir á löngum köflum

Kannski er allt í lagi hér í kringum Reykjavík en versnar strax og komið er út fyrir helstu þéttbýlisstaðina

Jú jú, það er mikið að lagast

Vegirnir eru alltof mjóir Þessi svör ríma við það sem allur almenningur segir sem vill helst af öllu sjá breiðari vegi.

sp1

Þá var meðal annarra spurninga spurt um reynslu manna af þjónustu Vegagerðarinnar á vegakerfinu (snjómokstri, hálkuvörnum, heflun, vinnustaðamerkingum á vinnusvæðium og málun) Slæm reynsla af þjónustunni minnkar heldur og fjölgar þeim sem segja að hún sé hvorki slæm né góð. Nokkur svör hljóma svona:

Heflun er ábótavant og stundum hálkuvörnum en annað er oftast í lagi.

Hérna er hún ekkert til að hrópa húrra fyrir

Fín þjónusta hjá þeim

Æi, ég veit það ekki

Þeir gera sitt besta

Þeir segja oft greiðfært þótt það sé næstum ófært

Þannig er greinilegt að upplifun flutningsaðilanna er mjög mismunandi.

sp4

Í samantekt Lausna kemur fram að ánægja flutningsaðila með vegakerfið hafi farið vaxandi í þeim könnunum sem gerðar hafa verið undanfarin ár. Því sé borið við að vegirnir þoli ekki sívaxandi álag og séu of mjóir fyrir sífellt stærri og þyngri bíla. Þá eru fleiri en áður ánægðir í sambandi við leyfisveitingar, en óánægja með merkingu á vegum hefur aukist lítillega frá síðustu könnun. Þá eru nokkuð fleiri flutningasaðilar nú en í fyrra ánægðir með viðbrögð Vegagerðarinnar við kvörtunum þeirra. Og þrír af hverjum fjórum eru ánægðir með símaþjónustuna sem er sama hlutfall og í fyrra. Verktakarnir eru spurðir um aðra hluti. Til dæmis hvernig reynsla þeirra sé af samskiptum við starfsmenn Vegagerðarinnar í útboðsverkum. Ánægja verktaka eykst nokkuð frá því í ágúst í fyrra. En nú segja 84 prósent að reynsla þeirra sé góð eða mjög góð. Nokkur svör:

Mér finnst samskiptin oftast stirð og erfitt að eiga við Vegagerðina

Stundum veit maður bara ekki hvaða ástæður eru fyrir því hverjir fá verk og hverjir ekki

Svona yfirleitt í lagi

Þeir eru fínir og gott að tala við þá

Alveg til fyrirmyndar

Ég er ánægður með Vegagerðarmenn

sp1B

Lausnir spurðu einnig hvernig verktökum þætti frammistaða Vegagerðarinnar í samanburði við aðra verkkaupa. Í þessu tilviki er árangurinn heldur betri er í fyrra því heldur fleiri segja nú að frammistaða Vegagerðarinnar sé betri en annarra en sögðu það sama í fyrra. Þeim fækkar sem segja frammistöðuna lakari. Þetta höfðu menn meðal annars að segja:

Þeir eru ágætir þótt þeir skari nú ekki framúr

Þeir eru yfirleitt betri

Oftast verra að eiga við þá hjá Vegagerðinni

Mjög óánægður með þá

Þeir óánægðu eru greinilega tilbúnari til að láta meira í sér heyra en hinir.

sp4B

Sem sagt, ánægja verktaka með samskiptin við starfsmenn Vegagerðarinnar í útboðsmálum hefur aukist frá síðustu könnun, en einnig hefur ánægja með útboðsgögnin aukist þótt fram komi athugasemdir um að gögnin megi vera nákvæmari og betur undirbúin. Spurt var um gæðakröfur og úttektir í sambandi við verkframkvæmdir og var niðurstaðan nú svipuð og í fyrra, í athguasemdum kom fram að fylga megi betur eftir gæðakröfunum og gæta þess að þær nái jafnt til allra en ekki bara hluta verktaka. Heldur færri lýsa nú yfir ánægju með símaþjónustuna en í fyrra en spurt var um reynslu verktakanna af sísvörun, hvernig mönnum hafi gengið að ná í þá sem þeir þurftu að ná í.