Fréttir
  • Umferðin samanlögð
  • Umferðin hlutfallsleg aukning
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir vikudögum

Líka met í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu

Umferðarmesti janúar til þessa

2.2.2024

Meiri umferð hefur ekki áður mælst á höfuðborgarsvæðinu í janúarmánuði líkt og í þeim sem nú er nýliðinni. Umferðin jókst um tæp fjögur prósent. Fyrra met var slegið í janúar fyrir ári.

Milli mánaða
Umferðin á þremur völdum stöðum, á stofnvegakerfi Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, reyndist 3,7% meiri en í sama mánuði á síðasta ári.  Með þessari aukningu var slegið nýtt met í janúarumferð á höfuðborgarsvæðinu þar sem janúarumferð síðasta árs var gamla metið.

Umferð jókst í öllum mælisniðum en mest yfir mælisnið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku, eða um 4,3% en minnst jókst umferð á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi, eða um 2,9%.

Umferð eftir vikudögum
Í nýliðnum mánuði var mest ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum.

Athygli vekur að umferðaraukning eftir vikudögum er mjög misjöfn eða frá 0,7% samdrætti í miðvikudagsumferð yfir í 17,8% aukningu á sunnudagsumferð. Gera má ráð fyrir meiri sveiflum í umferðarhegðun, yfir vetrartímann, en þetta er óvenju stór sveifla í sunnudagsumferð og sker sig úr miðað við aðra vikudaga.

Horfur út árið
Á Hringvegi er alla jafna ekki birt spá eftir aðeins einn mánuð, en um höfuðborgarsvæðið gilda önnur viðmið þar sem einkenni umferðar á því svæði eru mun stöðugri, en úti á Hringvegi. 

Meðalumferðaraukning áranna 2005 til 2023, á höfuðborgarsvæðinu, er 2,33% og eins prósentustiga sveiflur í kringum meðaltalið teljast ekki miklar sveiflur, í sögulegu samhengi.

Ef umferðin, hér eftir, hegðar sér samræmi við meðalár, má eiga von á 3% umferðaraukningu nú í ár.