Fréttir
  • Búist er við mikilli umferð um helgina.
  • Vegfarendur eru hvattir til að virða hámarkshraða.
  • Umferðartölur frá verslunarmannahelginni 2022.

Virðum hámarkshraða og höldum bili

Búast má við mikilli umferð á vegum landsins um helgina

3.8.2023

Ein mesta ferðahelgi ársins er framundan og búast má við að fólk verði á faraldsfæti um land allt. Viðbúið er að mikil umferð verði á Hringvegi (1) alla helgina, ekki síst í kringum höfuðborgarsvæðið. 

Á umferdin.is, upplýsingavef Vegagerðarinnar, eru rauntímaupplýsingar um færð og veður, tilkynningar um lokanir og opnanir á vegum og jarðgöngum. Þar eru einnig upplýsingar um framkvæmdir á vegum og áhrif þeirra á hraða eða takmarkanir á umferð. Einnig er hægt að hafa samband við 1777, þjónustusíma Vegagerðarinnar, sem er opinn frá klukkan 06.30-20:00 alla daga. 

Vegagerðin hvetur vegfarendur til að fara varlega í umferðinni um verslunarmannahelgina, stilla hraða í hóf og gera ráð fyrir að það tekur lengri tíma að fara á milli staða en vanalega. 

Pössum bilið í jarðgöngum

Vegfarendur sem eiga leið um Hvalfjarðargöng sem og önnur jarðgöng um landið eru beðnir um að vera vel á verði og passa að halda góðu bili á milli ökutækja, eða 50 metrum eins og kemur fram á umferðarskiltum við göng. 

Umferðaróhöpp í jarðgöngum geta valdið miklum umferðartöfum, en loka þarf göngum þegar óhöpp verða til að tryggja öryggi á vettvangi.

Mikil umferð um síðustu verslunarmannahelgi

Umferð var mikil um síðustu verslunarmannahelgi. Hér að ofan má sjá umferðartölur frá fimmtudegi til mánudags verslunarmannahelgina 2022, við Geitháls, Þingborg, austan Selfoss, við Úlfarsfell og Hvalfjarðargöng. 

Verum vel vakandi og komum heil á áfangastað.