Fréttir
  • Helga Jóna Jónasdóttir

Helga Jóna Jónasdóttir nýr verkefnisstjóri Sundabrautar

26.4.2023

Helga Jóna Jónasdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri Sundabrautar hjá Vegagerðinni. Hún mun vinna fyrir verkefnisstjórn um undirbúning Sundabrautar sem skipuð var af innviðaráðherra á síðasta ári. Helga Jóna mun einnig vinna í nánu samstarfi við Höfuðborgarsvæði og þróunarsvið Vegagerðarinnar.

Helga Jóna kom fyrst til starfa hjá Vegagerðinni sem verkefnisstjóri við undirbúning verkefna á Samgönguáætlun og verkefna sem heyra undir Samgöngusáttmála. Áður var hún verkefnisstjóri hjá verktakafyrirtækjum, þar sem hún vann náið með innlendum og erlendum aðilum, meðal annars við vega- og jarðgangagerð, hafnarframkvæmdir, lagningu háspennustrengja og framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, ásamt því að stýra undirbúningi og uppsetningu malbikunarstöðvar. Þá var Helga Jóna kennari og verkefnastjóri í framhaldsskóla um nokkurra ára skeið. 

Helga Jóna er með MSc gráðu í hagnýtri og tæknilegri jarðfræði frá Háskóla Íslands og kennslufræði til kennsluréttinda frá sama skóla. Hún er einnig með IPMA D-vottun í verkefnastjórn.

Um Sundabraut:

Næstu skref undirbúnings Sundabrautar eru vinna við mat á umhverfisáhrifum, frekari útfærsla valkosta, samráð við hagsmunaaðila og undirbúningur nauðsynlegra breytinga á  skipulagsáætlunum með það að markmiði að hægt sé að hefja framkvæmdir við Sundabraut eigi síðar en árið 2026 og að þeim verði lokið árið 2031. Gert er ráð fyrir að Sundabraut verði fjármögnuð með gjaldtöku af umferð í samræmi við lög sem samþykkt voru á Alþingi árið 2020.