Fréttir
  • Ágjöf norðan á Skarðseyrinni 10. febrúar 2020. Mynd/Indriði Þ. Einarsson
  • Mat á útbreiðslu sjávarflóðs 13. og 14. janúar 2020 af starfsfólki sveitarfélagsins.

Hækka þarf sjóvarnir á Sauðárkróki

Ný skýrsla Vegagerðarinnar

15.5.2020

Samkvæmt skýrslu hafnadeildar Vegagerðarinnar þarf að gera töluverðar breytingar á sjóvörnum við höfnina á Sauðárkróki til að minnka líkur á því að sjór flæði yfir Skarðseyrina og við Strandveg líkt og gerðist í þrígang í óveðrum vetrarins.

Á nýliðnum vetri hafa sjávarflóð á norðanverðu landinu verið óvenju tíð og há. Í þrígang hefur flætt yfir Skarðseyrina á Sauðárkróki á jafn mörgum mánuðum og flætt inn í fyrirtæki. Sömuleiðis flæddi yfir sjóvörn við Strandveg auk þess sem sjóvarnargarður á norðanverðri eyrinni skemmdist að hluta í desemberveðrinu. Vegna þessa var ákveðið að Vegagerðin myndi greina atburðina sem áttu sér stað dagana 10. til 12. desember 2019, 11. til 13. janúar 2020 og 10. febrúar 2020, og meta endurkomutíma þeirra, það er hversu líklegt er að atburðirnir  gerist aftur. Þetta þótti nauðsynlegt til að geta í framhaldinu metið hver hæð á varnargörðum þurfi að vera til að standast svipaða áraun í framtíðinni þannig að ágjöf yfir varnargarðana verði innan marka.

Skýrslan ber heitið  Sauðárkrókur – Sjávarflóð, Mat á sjóvörnum og hættu á sjávarflóðum. Hún er unnin af Bryndísi Tryggvadóttur, Helga G. Gunnarssyni, Sigurði Sigurðarsyni, Ingunni Ernu Jónsdóttur og Fannari Gíslasyni.

Þar segir meðal annars að sjór hafi flætt yfir um 2,5 hektara svæði í þessum atburðum. Að meðaltali hafi gengið um 800 rúmmetrar af sjó á land í veðrunum og vatnsdýpi orðið mest um 0,75 metrar á eyrinni. Ástæður sjávarflóðanna má rekja til samspils vonsku veðurs, hárrar úthafsöldu, vinds, lágs loftþrýstings og hárra sjávarfalla.

Til að meta endurkomutíma sjávarflóðanna var myndað stórt gagnasafn af aftakaatburðum sem byggist á fjörutíu ára sögulegri tímaröð spágagna evrópsku veðurstofunnar (ECMWF) um öldu- og veðurfar af hafsvæðinu utan Skagafjarðar.  Gögnin voru notuð bæði fyrir greiningu sjávarhæðar á tímabilinu og sem inntak í hermilíkan sem færir öldugögn af hafi, inn Skagafjörðinn og upp að sjóvörnum við Sauðárkrók. Líkanið gefur möguleika á að meta endurkomutíma umræddra atburða með þeim hætti  að yfirfæra þá yfir í reiknaða ágjöf.   Að lokum var aðferðarfræðinni beitt til að leggja mat á það hve mikið þarf að hækka sjóvarnir þannig að ágjöf yfir þær verði innan ákveðinna viðmiðunarmarka.

Ljóst er að sjóvarnir norðan á Skarseyrinni og við Strandveg eru of lágar og að í aftökum gengur of mikill sjór yfir þær. Norðan á eyrinni þar sem sjór safnast fyrir á landi og afrennsli á ekki greiðan aðgang út í sjó, þurfa kröfur um ágjöf að vera strangari. Þar er miðað við að flóð verði stærðargráðunni minni en í dag eða um einn tíundi hluti. Við Strandveg eru kröfur um ágjöf hins vegar miðaðar við að ágjöfin verði ekki meiri en um fjórðungur þess sem hún er í dag.

Niðurstaða skýrslunnar er að til að meðalágjöf í atburðum svipuðum þeim sem orðið hafa í vetur verði einn tíundi hluti þess sem í raun varð þá þurfi að hækka sjóvörnina norðan á Skarðseyrinni um tæpan meter í  +4,9 metra. Þannig breytist tíðni atburða sem nú koma að jafnaði á árs fresti, yfir í það að koma á 10 til 30 ára fresti.

Þá þarf að hækka sjóvarnir við Strandveg  um 40 til 60 cm þannig að hæð þeirra verður á bilinu 4,2 til 4,3 metrar, lægst vestast næst höfninni en hærri austar til að uppfylla kröfur um ágjöf.

Skýrslan í heild.