Fréttir
  • Vitinn fallinn - mynd Jón Guðbjörn Guðjónsson
  • Vitinn fallinn - mynd Jón Guðbjörn Guðjónsson
  • Gjögurviti

Framtíð vitans á Gjögri

ákvörðun um þörfina og næstu skref tekin fljótlega

19.12.2023

Þörf fyrir vita á Gjögri við Reykjafjörð syðri verður metin eftir að vitinn féll um helgina. Gjögurviti var byggður árið 1921 og síðustu ár hefur verið óvíst með þörf fyrir ljósvita á þessum stað. Ekki hefur verið talið hagkvæmt að viðhalda stálgrindarvitum af þessari gerð þar sem það er kostnaðarsamt. Talið betra þá að reisa nýjan ef þörf er á.

Búið er að aftengja vitann en unnið er að því að fjarlægja hann þar sem hann liggur á sama tíma og farið verður í vinnu við að meta þörfina fyrir vita og ákveða næstu skref, hvort og þá hvernig viti yrði reistur ef af yrði.

Gjögurviti var byggður árið 1921 úr stáli. Hann var aflfæddur frá rafveitu og rafgeymar notaðir til vara. Hlutverk hans er að merkja í hvítu ljósi öruggar og fullnægjandi siglingaleiðir, en rauð og græn ljóshorn vitans skulu merkja hættuljós yfir sker og boða. Vitinn var í reglubundnu viðhaldi á 5 ára fresti þar til fyrir þó nokkuð mörgum árum þegar tekin var ákvörðun um að hætta reglubundnu viðhaldi og nýta það fé sem sparaðist í viðhaldi til að reisa nýjan vita sem væri ódýrari í viðhaldskostnaði. 

Skipt hafði verið um þakjárn á tækjahúsinu við vitann árið 2014 en vitað var að stálgrindin var frekar illa farin af ryði og greinilega verr farin en talið var.  Búið var að taka neðstu þrepin úr stiganum til að tryggja að óviðkomandi færu ekki upp í vitann.