Fréttir
  • Unnið er að byggingu bráðabirgðabrúar yfir Ferjukotssíki á Hvítárfallavegi (510) í Borgarfirði.

Bráðabirgðabrú yfir Ferjukotssíki tilbúin í lok júní

Vatnavextir valda töfum

9.6.2023

Vegna mikilla vatnavaxta í vor hafa orðið tafir á byggingu bráðabirgðabrúar yfir Ferjukotssíki í Borgarfirði. Brúin verður að öllum líkindum opnuð fyrir umferð síðustu vikuna í júní. Meðan á framkvæmdum stendur er Hvítárvallavegur (510) við Ferjukotssíki lokaður.

Forsagan er sú að styttri brúin á Ferjukotssíki í Borgarfirði skemmdist í vatnavöxtunum í Hvítá í mars á þessu ári. Hún var talin hættuleg og því ákveðið að rífa hana og fylla í skarðið. Lengri brúin, á öðrum ál Ferjukotssíkis, var einnig illa farin og því ákveðið að rífa hana einnig og byggja bráðabirgðabrú.

Síkisbrýrnar eru á gamla þjóðveginum um Hvítá og Ferjukot sem haldist hefur nánast óbreyttur frá því um 1950 en umferð um veginn minnkaði mikið eftir tilkomu Borgarfjarðarbrúarinnar. Þó er mikilvægt að halda þessari leið opinni þar sem hún er tenging innan sveitar og að gömlu fallegu bogabrúnni yfir Hvítá.

Síkisbrýrnar hafa lengi verið erfiðar í viðhaldi þar sem vegurinn að brúnum og milli þeirra hefur sigið töluvert. Í raun er nauðsynlegt að byggja nýja brú á þessum stað en ekki er til fjárveiting fyrir því enn.

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar vinnur nú að því að byggja bráðabirgðabrú. Brúin verður einbreið úr stáli með timburgólfi og situr á timburstaurum.