Fréttir
  • Framkvæmdin nær frá Böðvarsgötu að Egilsgötu.
  • Stór hluti af framkvæmdinni sneri að endurnýjun lagna í vegstæðinu.
  • Fyrsti áfangi verksins er tilbúinn.
  • Fyrsti áfangi verksins er tilbúinn.

Borgarbraut (531) Böðvarsgata – Egilsgata

Endurbætur á skilavegi

10.7.2023

Vegagerðin, í samstarfi við Veitur, Rarik og Borgarbyggð, vinnur nú að endurbótum og lagnagerð á um 550 m kafla Borgarbrautar í Borgarnesi. Framkvæmdir hófust í júlí 2022 og verklok eru áætluð í október á þessu ári.

„Vegurinn var orðinn mjög lélegur. Hann hafði verið steyptur á sínum tíma en var orðinn sprunginn og holóttur,“ segir Guðmundur S. Pétursson, umsjónarmaður verksins fyrir hönd Vegagerðarinnar. Þessi kafli Borgarbrautar, frá Böðvarsgötu að Egilsgötu, er svokallaður skilavegur, það er vegur sem hefur verið í umsjá Vegagerðarinnar en verður nú skilað til sveitarfélagsins Borgarbyggðar. „En þar sem vegurinn var svo illa farinn var ákveðið að fara í endurbætur á honum áður en honum yrði skilað. Samhliða var tekin ákvörðun um að endurnýja allar lagnir í veginum, sem er í raun stærsti þátturinn í framkvæmdinni. Þetta eru til dæmis lagnir fyrir heitt og kalt vatn, frárennsli, rafmagn og fleira.“ 

Guðmundur segir að í samtali við íbúa og verktaka hafi orðið breytingar á framkvæmd verksins. „Við fengum ábendingar frá íbúum á svæðinu sem töldu óráðlegt að hafa hjáleiðir um íbúagötur á borð við Böðvarsgötu, Ólafsgötu og Skúlagötu eins og lagt var upp með. Þá breyttum við hjáleiðinni þannig að hún sneiddi framhjá þessum íbúagötum. Samhliða var fyrsti áfanginn lengdur að Skallagrímsgötu.“  

Þróttur ehf. á Akranesi átti lægsta boð í verkið upp á rúmar 430 m.kr. og framkvæmdir hafa gengið framar vonum. Samkvæmt útboðinu átti að gera hlé á framkvæmdinni yfir veturinn en verktakinn óskaði eftir því að fá að vinna eins lengi og kostur væri. Því er verkið komið mun lengra nú en áætlað var og hugsanlega verða verklok eitthvað fyrr. „En það er aldrei að vita hvað kemur upp úr jarðveginum sem mun hugsanlega tefja verkið því þarna er mikið af gömlum lögnum,“ segir Guðmundur sem telur samstarfið við sveitarfélagið, Veitur og Rarik hafa verið mjög farsælt.

Helstu magntölur eru: 

  • Gröftur lagnaskurða 9.300 m3 
  • Fráveitulagnir 1.300 m 
  • Kaldavatnslagnir 650 m 
  • Hitaveitulagnir 950 m 
  • Malbikun 9.700 m2 
  • Hellulögn 1.400 m2

Verkinu skal að fullu lokið 15. október 2023

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 3. tbl. 2023, nr. 725 . Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is.