Fréttir
  • Umferðin á jóladag 2014 til 2016
  • Umferðin á aðfangadag 2014 til 2016
  • Við Reynisfjall um jól
  • Við Reynisfjall um jól
  • Við Reynisfjall um jól
  • Við Reynisfjall um jól
  • Við Reynisfjall um jól

Aukin umferð á hátíðum

Umferðin eykst alla daga

28.12.2016

Umferð ferðamanna á hátíðisdögum eykst ár frá ári. Umferðin á aðfangadag og jóladag við Gullfoss, um Lyngdalsheiði og Reynisfjall hefur tvö- til þrefaldast frá árinu 2014 svo dæmi sé tekið. Gera má ráð fyrir að stærstu hluti aukningarinnar sé tilkominn vegna ferðamanna.

Það má ljóst vera af þessum tölum að umferðarmynstrið um hátíðar svo sem um jól og áramót breytist hratt með auknum fjölda ferðamanna. Það fylgir því líka að ferðamenn ferðast í auknum mæli á eigin vegum, og þá mest á bílaleigubílum. Margir þeirra eru óvanir því að ferðast í snjó og hálku. Þeir eru heldur ekki vanir íslensku veðurfari sem á það til að breytast snögglega auk þess sem vindur og ofankoma getur verið gríðarmikil.

Vegagerðin reynir að ná til allra vegfarenda með skilaboðum um ástandið á vegakerfinu á heimasíðu sinni og í gegnum upplýsingaþjónustu Vegagerðarinnar í síma 1777. Upplýsingar um færð og veður á færðarkorti er að finna á ensku vefsíðunni www.road.is.

Mikilvægt er að allir þeir sem sinna ferðaþjónustu upplýsi, svo sem kostur er, ferðamenn um hvað þarf að varast á íslenskum vegum, hvernig veður getur skipast skjótt í lofti og einnig um þjónustustigið hjá Vegagerðinni, til dæmis um hátíðir.

Þá er víða að finna upplýsingaskjái Safe Travel þar sem er að finna viðvaranir. Þær eru einnig sendar á ákveðin svæði í gegnum sms skilaboð. Eigi að síður fara ferðamenn af stað í tvísýnu veðri, misvel búnir og misvel að sér um akstur við vetraraðstæður. Þakklátt væri ef allir sem það geta ráðleggi vegfarendum sem virðast í vafa um hvernig best sé að haga ferðum sínum. Benda má á heimasíðu Vegagerðarinnar og á upplýsingasímann um færð og veður 1777.

Athugið að umferðartölur fyrir árið 2016 eru órýndar.