1900

Ísafold, 24. febrúar, 27. árg, 10. tbl., bls. 38:

Gæsla á Þjórsárbrúnni.
Þjórsárbrúarvörðurinn biður fyrir svohljóðandi athugasemd:
Út af grein einni í “Ísafold” 10. þ.m. leyfi ég mér að biðja herra ritstjórann um rúm fyrir eftirfarandi skýringar.
Verkfræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, skoðaði Þjórsárbrúna, er hann var hér á ferð síðastliðið sumar, og fann ekkert að hirðingu á brúnni, og verð ég að trúa honum til að kunna þar eins vel skyn á og “Ferðamaður”. Í sumar átti að bika brúna, en varð eigi af, sakir hinna miklu votviðra; brúin var aldrei þurr.
Nú, síðan frost komu, hefur fyllt skurð þann, sem veita átti aðrennsli frá eystri brúarsporðinum, og hefur vætlað ofan á trébrúna síðan. Áður hefur þetta eigi komið fyrir, og er eigi hægt að gera við því, fyrr en frost er úr jörðu.
Um ferðalög mín skal ég eigi fjölyrða, en læt mér nægja að benda á, að þegar ég hef þurft að fara að heiman, hef ég látið gæta brúarinnar í minn stað, og veit fyrir víst, að sömu reglu hefur brúarvörðurinn við Ölfusárbrúna fylgt hingað til átölulaust.
Brúarhúsi 16. febrúar 1900.
Einar Sigurðsson
Brúarvörður við Þjórsárbrúna
*
Þessi athugasemd brúarvarðarins gerir í raun réttri ekki annað en að staðfesta hér um bil allt, sem “Ferðamaður” ber. Hann ber ekki á móti því neinu, heldur játar allt, ýmist beinlínis eða þá óbeinlínis – með því að ganga þegjandi framhjá því í svari sínu. Hann játar þann veg, að brúin hafi ekki verið “skrúfuð upp” í mörg ár, að hún hafi ekki verið bikuð, að uppganga liggi á eystri brúarsporðinum, og að hann sé heiman að oft og mörgum sinnum og það á vissum tímum. Og eru þá upp talin öll aðfinnsluatriði “Ferðamanns”. Til meira getur hann (Ferðam.) ekki ætlast.

Hitt er annað mál hverjar málsbætur brúarvörður telur sig hafa.
Hann ber þá fyrst fyrir sig mannvirkjafræðing landsins, að hann hafi skoðað brúna í sumar sem leið og ekkert fundið að hirðingu á henni.
Réttara mundi að orða það svo, að hann (hr. S. Th.) hefði farið um brúna einu sinni í sumar og ekki haft orð á neinum annmörkum á hirðingu brúarinnar. Hann mun alls eigi hafa gert neina eiginlega skoðun á henni.
Um árennslið segir hann, að viðgerð á því verði að bíða þangað til frost er úr jörðu. Mun mega skilja það svo, að þá verði það gert og verði það, þá er það vitaskuld betra en ekki, en ekki nærri eins gott og hitt ef gert hefði verið við því áður – með því að gera í tæka tíð skurðinn nógu stóran. Betra að byrgja brunninn áður en eftir að barnið er dottið í hann.
Þá eru ferðalögin. Þau eru meðal annars fólgin í póstferðum, ýmist upp á Land eða austur Landeyjar, eða hvorutveggja. Það eru ferðalög á tilteknum tímum og er brúargæslan á meðan því aðeins nokkurs virði, eða þess virði sem til er ætlast, að jafngildur maður hafi hana þá á hendi, með ráði hluteigandi yfirvalds. Það getur verið einhver liðléttingur, sem ferðamenn bera ekki við að gegna, og auk þess svo fráskotull, að brúin sé alveg gæslulaus.
Það er vitanlega ekki við að búast, að verulega stöðug og óbilug brúargæsla fáist nema fyrir töluvert hærra kaup en nú er goldið. En hitt er vafamál, hvort nokkur fengur er samt í öðruvísi lagaðri brúargæslu, eða hvort ekki væri eins tiltækilegt að hafa þessar brýr á Ölfusá og Þjórsá alveg gæslulausar, eins og aðrar meiriháttar brýr bæði hér á landi og annarsstaðar, að öðru leyti en áreiðanlegu viðhaldseftirliti og lagaaðhaldi fyrir hlýðni við auglýstar umferðarreglur um brýrnar. Almenningi ætti og ekki að vera ofætlun orðið, að bera þá virðingu fyrir eign sinni, eða hafa þær mætur á henni, að hverjum manni væri jafnfjarri skapi að skemma hana eins og að fremja svívirðilegan stórglæp – fjarri skapi að skemma aðra eins eign, annan eins kjörgrip eins og góðar brýr yfir ófær vatnsföll.


Ísafold, 24. febrúar, 27. árg, 10. tbl., bls. 38:

Gæsla á Þjórsárbrúnni.
Þjórsárbrúarvörðurinn biður fyrir svohljóðandi athugasemd:
Út af grein einni í “Ísafold” 10. þ.m. leyfi ég mér að biðja herra ritstjórann um rúm fyrir eftirfarandi skýringar.
Verkfræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, skoðaði Þjórsárbrúna, er hann var hér á ferð síðastliðið sumar, og fann ekkert að hirðingu á brúnni, og verð ég að trúa honum til að kunna þar eins vel skyn á og “Ferðamaður”. Í sumar átti að bika brúna, en varð eigi af, sakir hinna miklu votviðra; brúin var aldrei þurr.
Nú, síðan frost komu, hefur fyllt skurð þann, sem veita átti aðrennsli frá eystri brúarsporðinum, og hefur vætlað ofan á trébrúna síðan. Áður hefur þetta eigi komið fyrir, og er eigi hægt að gera við því, fyrr en frost er úr jörðu.
Um ferðalög mín skal ég eigi fjölyrða, en læt mér nægja að benda á, að þegar ég hef þurft að fara að heiman, hef ég látið gæta brúarinnar í minn stað, og veit fyrir víst, að sömu reglu hefur brúarvörðurinn við Ölfusárbrúna fylgt hingað til átölulaust.
Brúarhúsi 16. febrúar 1900.
Einar Sigurðsson
Brúarvörður við Þjórsárbrúna
*
Þessi athugasemd brúarvarðarins gerir í raun réttri ekki annað en að staðfesta hér um bil allt, sem “Ferðamaður” ber. Hann ber ekki á móti því neinu, heldur játar allt, ýmist beinlínis eða þá óbeinlínis – með því að ganga þegjandi framhjá því í svari sínu. Hann játar þann veg, að brúin hafi ekki verið “skrúfuð upp” í mörg ár, að hún hafi ekki verið bikuð, að uppganga liggi á eystri brúarsporðinum, og að hann sé heiman að oft og mörgum sinnum og það á vissum tímum. Og eru þá upp talin öll aðfinnsluatriði “Ferðamanns”. Til meira getur hann (Ferðam.) ekki ætlast.

Hitt er annað mál hverjar málsbætur brúarvörður telur sig hafa.
Hann ber þá fyrst fyrir sig mannvirkjafræðing landsins, að hann hafi skoðað brúna í sumar sem leið og ekkert fundið að hirðingu á henni.
Réttara mundi að orða það svo, að hann (hr. S. Th.) hefði farið um brúna einu sinni í sumar og ekki haft orð á neinum annmörkum á hirðingu brúarinnar. Hann mun alls eigi hafa gert neina eiginlega skoðun á henni.
Um árennslið segir hann, að viðgerð á því verði að bíða þangað til frost er úr jörðu. Mun mega skilja það svo, að þá verði það gert og verði það, þá er það vitaskuld betra en ekki, en ekki nærri eins gott og hitt ef gert hefði verið við því áður – með því að gera í tæka tíð skurðinn nógu stóran. Betra að byrgja brunninn áður en eftir að barnið er dottið í hann.
Þá eru ferðalögin. Þau eru meðal annars fólgin í póstferðum, ýmist upp á Land eða austur Landeyjar, eða hvorutveggja. Það eru ferðalög á tilteknum tímum og er brúargæslan á meðan því aðeins nokkurs virði, eða þess virði sem til er ætlast, að jafngildur maður hafi hana þá á hendi, með ráði hluteigandi yfirvalds. Það getur verið einhver liðléttingur, sem ferðamenn bera ekki við að gegna, og auk þess svo fráskotull, að brúin sé alveg gæslulaus.
Það er vitanlega ekki við að búast, að verulega stöðug og óbilug brúargæsla fáist nema fyrir töluvert hærra kaup en nú er goldið. En hitt er vafamál, hvort nokkur fengur er samt í öðruvísi lagaðri brúargæslu, eða hvort ekki væri eins tiltækilegt að hafa þessar brýr á Ölfusá og Þjórsá alveg gæslulausar, eins og aðrar meiriháttar brýr bæði hér á landi og annarsstaðar, að öðru leyti en áreiðanlegu viðhaldseftirliti og lagaaðhaldi fyrir hlýðni við auglýstar umferðarreglur um brýrnar. Almenningi ætti og ekki að vera ofætlun orðið, að bera þá virðingu fyrir eign sinni, eða hafa þær mætur á henni, að hverjum manni væri jafnfjarri skapi að skemma hana eins og að fremja svívirðilegan stórglæp – fjarri skapi að skemma aðra eins eign, annan eins kjörgrip eins og góðar brýr yfir ófær vatnsföll.