1892

Austri, 20. júlí 1892, 2. árg., 19. tbl., forsíða:

Nokkur orð
um vegi og samgöngur.
Það er eigi tiltökumál þó mikið sé rætt og ritað um vegina og samgöngurnar á Íslandi, því hvað vegina snertir, þá eru þeir víða í því ásigkomulagi, að þeir eru lítt færir fyrir menn og skepnur á þeim tíma árs sem þeir eru bestir, auk heldur þá aðra tíma, svo sem haust og vor. En þar sem vegirnir eru fyrsta og seinasta skilyrðið fyrir greiðum og tíðum samgöngum, má fara nærri um, hversu mikið þeim muni ábótavant, þar sem hvergi eða nálega hvergi á landinu er um aðra vegi að ræða en um hestavegi, og þá svona ófullkomna. Hversu mikið vantar þá til að vér séum búnir að fá akvegi, og hvenær verðum vér búnir að fá þá? Ekki vantar okkur vegalögin. Nei, en okkur vantar fé og vinnukrafta til að leggja viðunanlega vegi. Það mun varla fært að auka skylduvinnu verkfærra manna til vegabótanna, því allflestir hafa ærið nóg með vinnu sína að gjöra á þeim tíma árs sem vegabætur verða unnar, eða svo er það hér norðanlands þar sem ég þekki til. Þeir landshlutar, sem hafa verið svo óheppnir, að náttúran sjálf hefir ekki búið þá út með færum vegum, verða því tilfinnanlega útundan með vegina í hreppunum, og sömuleiðis sér lítinn árangur af sýsluvegagjaldinu, því sýsluvegirnir eru þá tiltölulega eins vondir og hreppavegirnir, enda fylgir það alloftast þeim plássum, þar sem grýttur og blautur jarðvegur er, að þar er byggðin strjál og hrepparnir því stórir, svo það þyrfti mikið fé til að gjöra vegi um þá. Já! mikið meira fé en þeir geta í té látið eða unnist getur fyrir skyldugjald það sem nú er. En talsvert mætti bæta vegina fyrir þá peninga sem núna ganga eða eiga að ganga úr vasa bænda til vegabóta, ef þeim væri vel og hyggilega varið, og vegabótunum haldið fram með meiri hagsýni, kunnáttu og dugnaði en nú á sér stað. Það vantar flest skilyrði fyrir því að vegabæturnar getið roðið að verulegu liði, eða komið að tilætluðum notum með því að hver hreppur káki við þær útaf fyrir sig. Fyrst eru óvíða til menn sem hafa þekkingu á að leggja vegi svo sem best má fara, og verður því það, sem gjört er, hroðvirkniskák, sem orðið er ónýtt eftir fá ár. Í öðru lagi er fé það, sem unnið er fyrir árlega, svo lítið, að eigi er hægt að gjöra nema lítið fyrir það. Þar sem því eru stór vegstykki sem þurfa mikla aðgjörð, yrðu menn í fleiri ár að gjöra við þau, ef það ætti að vera vel og varanlega gjört; hættir mönnum þá við að gjöra litlar og óverulegar umbætur á því bráðófærasta, og er það svo aftur orðið eins bráðófært eða verra en það var áður eftir fá ár. Í þriðja lagi er hreppavegavinnunni vanalega skipt í 2-3 eða 4 staði árlega, svo það eru aðeins örfá dagsverk sem unnin eru á hverjum stað, sem, eins og áður er sagt, koma ekki að notum. Þessi skipting vinnunnar er mjög óheppileg fyrir vegabæturnar, því bæði er erfiðara að fá svo marga nýta verkstjóra, og á vondum vegi sér eigi mun með svo lítilli vinnu. En því eru menn þá að skipta vinnunni? spyrja menn. Svarið er, það er eigi hægt að koma öðru við. All-flestir bændur kjósa heldur að vinna eða láta vinna vegabótavinnuna fyrir heimili sín, en borga hana; en þá er aftur eðlilegt að hver og einn vilji láta vinna sem næst sér, eða svo að hjú hans þurfi eigi að ferðast langt til vinnunnar, því hvernig eða hverjum á að reikna þann tíma sem maðurinn ver til þess að ferðast til vinnunnar? Til þess getur þó gengið heill dagur bara aðra leiðina í sumum hreppum, fyrir þá sem lengst eiga til dráttar ef unnið er á öðrum hreppsenda. Líkt þessu gengur með sýsluvegavinnuna, henni er vanalega skipt í marga staði, oftast eins marga eins og hrepparnir í sýslunni eru, og svo koma fyrir sömu vandræðin með verkstjórana og í hreppunum, og alloftast verða þeir menn verkstjórar, sem ekki eru þeim vanda vaxnir, því þá vantar alla þekkingu á vegalagningu, sem von er, þar þeir aldrei hafa átt kost á að vera með vegfróðum mönnum, og kannske ekki einu sinni séð góða og rétt lagða vegi.
Að það sé farið að vaka fyrir sumum mönnum að vegirnir hér í Norðurþingeyjars. komist seint á, með þessu gamla fylgi, og með sömu aðferð og brúkuð hefir verið við þá hingað til, virðist sú tilraun benda á, að fá aðalpóstleiðinni breytt eins og farið var fram á á sýslufundi Norðurþingeyjarsýslu 1888 og nefndaráliti neðri deildar Alþingis frá síðasta þingi, sem gjört var að þingsályktunartillögu deildarinnar. Breytingar þær á aðalpóstleiðinni sem neðri deild Alþingis hefir gjört frá uppástungu sýslufundarins 1888 álítum vér eigi sem heppilegastar, samanbornar við aðalástæðuna fyrir því að fá póstleiðinni breytt þannig eða frá því sem nú er.
Í ástæðum sýslufundarins 1888 er það tekið fram, að ef aðalpóstleiðin sé lögð, eins og ráðgjört er þar, þá liggi hún að mestu eftir byggðum sveitum, en ekki yfir fjöll og firnindi á bak við alla aðalbyggðina, eins og nú á sér stað. Þetta, að póstleiðin liggi eftir byggðinni, svo að sem flestir héraðsbúar hafi not af póstveginum, er sú eina sanngirnisástæða fyrir því að fá póstleiðinni breytt. En til grundvallar fyrir breytingunni liggur það, að ef aðalpóstleiðin fáist þannig lögð, fái menn áður en langir tímar líða góðan veg eftir sveitum þeim sem póstleiðin liggur um og yfir heiðar þær er liggja milli þeirra, því að þá komi landssjóðurinn til að kosta veginn og að þá verður þó heldur framkvæmd (ólæsilegur texti) verði bættur, heldur en annars, eða eins og nú er. Í nefndaráliti neðri deildar, þingskjal 285, er fyrsta ástæða fyrir breytingunni þannig orðuð: "Pósturinn gengur á þann hátt eftir allfjölbyggðum sveitum, en hingað til hefir pósturinn gengið að sveitabaki yfir Mývatnsöræfi og aðeins komið við á örfáum bæjum." Þarna kemur sama ástæðan fyrir aðalpóstvegarbreytingunni eins og hjá sýslunefndinni; nefnil. að það eru not þau er almenningur hefði af póstveginum sem er eina ástæðan fyrir breytingunni, enda getur ástæðan engin önnur verið, eða er ekki öllum sama hvort þeir fá bréf og sendingar með aukapósti fyrst þeir fá þau og þær eins fljótt og skilvíslega eins og með aðalpósti væri? Það liggur í augum uppi að breyting þessi á aðalpóstleiðinni hlyti að hafa töluverðan kostnaðarauka í för með sér, eins og líka allar beinar sendingar á millum Akureyrar og Austurlandsins yrðu lengur á leiðinni, því talsvert verður hún lengri þessi fyrirhugaða nýja aðalpóstleið. En svo er aftur að vega á móti þann mikla hagnað, sem almenningur mundi hafa af því, ef góður vegur fengist eftir þeirri fyrirhuguðu póstleið, því nú er vegur þessi afar illur yfirferðar. Og blandast mönnum líklega ekki hugur um það, að hagnaðurinn sem menn hefðu af góða veginum mundi verða ofaná; jafnvel þó sá góði vegur hlyti að kosta landssjóðinn mörg þúsund krónur.
Þegar nú að tilgangurinn með þessari breytingu á aðalpóstleiðinni, er enginn annar en sá, að fá góðan landssjóðsveg eftir leið þessari, eins og ég þykist hafa sýnt hér að framan. Þá hefði sjálfsagt verið heppilegast að leggja hann hvað Norðurþingeyjarsýslu snertir eingöngu eftir till. sýslunefndarinnar 1888 sem áður er getið um. Nefnil. að láta aðalpóstinn ganga frá Skinnastað sömu leið og aukapósturinn gengur nú til Raufarhafnar og þaðan í Svalbarð, en ekki eftir uppástungu neðri deildar Alþingis, nfl. frá Skinnastað yfir Axarfjarðarheiði að Svalbarði. Eftir uppástungu sýslunefndarinnar lægi aðalpóstvegurinn þá, að svo miklu leyti að því yrði viðkomið, eftir byggðinni, og hefðu allir þeir sem sækja þurfa til Raufarhafnar bæði úr Axarfirði og Þistilfirði og margir fleiri not af honum, en af Axarfjarðarveginum hafa sárfáir not í samanburði við hina leiðina. Aftur er það vitaskuld, að það lengir póstleiðina um eina dagleið áfram ef hún liggur út á Raufarhöfn, eða pósturinn yrði einum degi lengur að fara alla leið til Vopnafjarðar, ef hann færi Axarfjarðarheiði. En á móti þessu má meta fyrst almenningsgagnið, sem vegurinn til Raufarhafnar gjörir fram yfir hinn, annað sparnað á aukapósti frá Skinnastað til Raufarhafnar, og þriðja, að það mætti til með að byggja sæluhús á Axarfjarðarheiði, ef þar yrði aðalpóstleið. Önnur breyting sem neðri deildar nefndin hefir gjört frá uppástungu sýslunefndarinnar er sú, að aðalpósturinn gangi út í Sauðanes og þaðan að Skeggjastöðum. Sýslunefndin hafði stungið upp á því að aðalpóstleiðin lægi út í Þórshöfn og þaðan yfir Brekkuheiði, og svo náttúrlega eftir ströndinni að Skeggjastað. Eftir þessum vegi fara allir sem sækja austan af Strönd til Þórshafnar, og þar að auki liggur vegur þessi að kalla má beinast við fyrir alla þá sem þurfa að ferðast á milli Þingeyjarsýslu og Norðurmúlasýslu. En aftur á móti er það fyrst og fremst talsverður krókur fyrir póstinn að fara út í Sauðanes, og svo mundu engir nota veginn yfir Sauðaneshálsinn (sem pósturinn yrði náttúrlega að fara austur), nema pósturinn og þeir, sem beinlínis ætluðu í Sauðanes og kæmu að austan. Þessi breyting á póstleiðinni er því hreint óskiljanleg, því hún hefir sér ekki annað til ágætis, en bæði að lengja póstleiðina og búa til dýran veg þar sem sárfáir hafa hans not aðrir en pósturinn. Nær væri að kosta aukapóst frá Þórshöfn út í Sauðanes, eða jafnvel lengra út eftir Langanesi. Það er nú búið að leita álits sýslunefndarinnar í Norðurþingeyjarsýslu um þessa umgetnu þingsályktunartillögu neðri deildar alþingis, og var hún samþykkt af sýslunefndinni án breytinga, ekki af því að sýslunefndin væri allskostar ánægð með breytingar þær er ég hefi getið um hér að framan, að gjörðar hafi verið frá áliti hennar á fundi 1888, heldur af því, að hún mun hafa komist á þá skoðun, að ef hún vildi binda sig við það álit sitt, mundi engin breyting verða gjörð á aðalpóstleiðinni, og vildi hún þá heldur þessa breytingu en að allt sæti við það gamla, því það hefðu óneitanlega margir not af póstveginum svona lögðum, þó það yrðu færri en ef hann hefði verið lagður eftir uppástungu sýslunefndarinnar. Það er annars nokkuð merkilegt að þessi aðalpóstleiðarbreyting skuli þurfa að ganga á undan, til þess að fá viðunanlega vegi eftir byggðum sveitum. Það lítur svo út sem aðalspursmálið sé að fá góða vegi þar sem póstarnir fara um, nefnilega aðalpóstar. Aukapóstar geta brúkað vonda vegi og brotist yfir óbrúaðar ár. Það eru einungis aðalpóstarnir sem eru þessar æðri verur að þeir mega ekki steita fót sinn við steini. Handa þeim þarf landssjóðurinn endilega að kosta einn góðan veg, þó mjög fáir aðrir eigi þar leið um, en hvorki handa alþýðu manna eftir fjölbyggðum sveitum né handa aukapóstum, sem þó stundum hafa meiri flutning meðferðis en aðalpósturinn, eins og neðrideildarnefnd alþingis segir að eigi sér stað með aukapóstinn frá Grenjaðarstað til Vopnafjarðar. Óneitanlega væri heppilegra að landssjóðurinn kostaði góðan veg eftir byggðinni, eða þar sem byggðin væri mest kringum allt landið. Auðvitað getur sá vegur ekki orðið eftir beinum línum, eða sá stysti vegur sem hægt væri að fá fyrir langferðamenn, enda komi hann að bestum notum fyrir almenning með því móti að hann lægi sem mest eftir byggðum héruðum og á sem flest kauptún landsins. Það er mjög lítið bætt úr flutningsþörf þjóðarinnar með sem beinustum og stystum aðalpóstvegum, því það getur aldrei orðið hlutverk landpósta á Íslandi að flytja annað en bréf og smásendingar á milli manna. Og hitt heldur eigi líklegt að almenningur noti þá vegi til vöruflutninga að því er nokkru nemur. Sjórinn hlýtur að vera og verða aðalflutningsbraut Íslendinga, kringum landið á hin ýmsu kauptún þess, eins fyrir innlend vöruskipti og útlenda vöru, en þá ríður landsmönnum á að hafa sem greiðasta vegi að hverju kauptúni og sín á milli í hverju héraði. Á þetta ætti þing og þjóð að leggja meiri áherslu en á aðalpóstveginn. Það þurfa brýr á fleiri ár en þær sem aðalpóstur á leið yfir, og ætti landssjóður að brúa þær eftir því sem hægt er að koma því við án tillits til þess hvort brýrnar eru á aðalpóstleið eða ekki.
Nöfnin fjallvegir, póstvegir, sýsluvegir og hreppavegir ættu öll að renna saman í eitt orð, veg. Veg, sem landssjóður, sýslusjóður og hreppavegasjóður kostuðu allir í sameiningu þannig,; að sýslumenn innheimtu vegabótagjaldið óskipt á manntalsþingum ár hvert, eitt dagsverk fyrir hvern verkfæran mann, og landssjóðurinn leggi svo til jafn mikið fé í hverja sýslu á landinu eins og vegabótagjaldið úr allir sýslunni er mikið. Sýslunefndin ákveður hvar mest nauðsyn er á vegabótunum og sér um framkvæmd á þeim. En til þess að nokkur mynd verði á vegabótunum hjá okkur þurfum við að ala upp vegfræðinga. Vér þurfum fyrst að fá stöðuga vegfræðinga frá útlöndum og svo þurfum vér að senda 2-4 menn úr hverju sýslufélagi til að læra vinnu og vegagjörð af þessum mönnum, til þess að fá vegfróða menn í hvert sýslufélag. Vegfræðingar hjá okkur eru eins ómissandi og búfræðingar. Þegar vér svo værum búnir að fá nóga vegfræðinga í hvert sýslufélag er auðsætt að engum nema vegfróðum mönnum yrði trúað fyrir vegabótunum.
Ég veit, að margt má finna að þessari uppástungu; svo sem að þar sem fólkið er fæst og strjálbyggðast er, en vegir eru oftast verstir þar verði minnst unnið og minnst fé lagt til vegabótanna. En aftur þar sem fjölbyggðast er og vegir eru góðir, enda vegabætur komnar töluvert á veg, þar sé mest lagt til þeirra. En hér vakti fyrir mér jafnréttishugsun, að því leyti, að þeir sem mest leggja til, yrðu líka að bera mest úr býtum. En ef eitthvert byggðarlag kemst svo langt, að það þarf eigi framar að bæta vegi hjá sér, þá ættu þeir hinir sömu að losast við vegabótagjaldið; en landssjóðsgjaldið helst samt við til hinna og borga því allir nokkuð til vegabóta, eins þeir er lausir eru við vegabótagjaldgreiðslu á manntalsþingum, því þeir borga í landssjóðinn eins og aðrir. En það mun seint koma fyrir, því þeir hinir sömu byrja þá á járnbrautum og telefónum þegar annað er eigi hægt að bæta.
Ég fæ eigi betur séð, en það væri heppilegra fyrir þingið að breyta vegalögunum í líka stefnu og hér er gjört ráð fyrir, og að það væri drengilegra að koma með uppástungu í þá átt, heldur en að reyna að teygja aðalpóstleiðina á milli sín eins og hrátt skinn, einungis í þeim tilgangi að fá landssjóðsveg.
Hvað okkur snertir Norðurþingeyinga, þá fengjum vér ekki í neinu tilliti betri póstgöngur, þó aðalpóstleiðin yrði lögð hér eftir sveitunum en vér höfum nú. Enda eru póstgöngur nú orðnar hér svo góðar, hvað landpóstana snertir, að menn munu ekki almennt finna þörf fyrir þær tíðari né betri.
Norðurþingeyingur.


Austri, 20. júlí 1892, 2. árg., 19. tbl., forsíða:

Nokkur orð
um vegi og samgöngur.
Það er eigi tiltökumál þó mikið sé rætt og ritað um vegina og samgöngurnar á Íslandi, því hvað vegina snertir, þá eru þeir víða í því ásigkomulagi, að þeir eru lítt færir fyrir menn og skepnur á þeim tíma árs sem þeir eru bestir, auk heldur þá aðra tíma, svo sem haust og vor. En þar sem vegirnir eru fyrsta og seinasta skilyrðið fyrir greiðum og tíðum samgöngum, má fara nærri um, hversu mikið þeim muni ábótavant, þar sem hvergi eða nálega hvergi á landinu er um aðra vegi að ræða en um hestavegi, og þá svona ófullkomna. Hversu mikið vantar þá til að vér séum búnir að fá akvegi, og hvenær verðum vér búnir að fá þá? Ekki vantar okkur vegalögin. Nei, en okkur vantar fé og vinnukrafta til að leggja viðunanlega vegi. Það mun varla fært að auka skylduvinnu verkfærra manna til vegabótanna, því allflestir hafa ærið nóg með vinnu sína að gjöra á þeim tíma árs sem vegabætur verða unnar, eða svo er það hér norðanlands þar sem ég þekki til. Þeir landshlutar, sem hafa verið svo óheppnir, að náttúran sjálf hefir ekki búið þá út með færum vegum, verða því tilfinnanlega útundan með vegina í hreppunum, og sömuleiðis sér lítinn árangur af sýsluvegagjaldinu, því sýsluvegirnir eru þá tiltölulega eins vondir og hreppavegirnir, enda fylgir það alloftast þeim plássum, þar sem grýttur og blautur jarðvegur er, að þar er byggðin strjál og hrepparnir því stórir, svo það þyrfti mikið fé til að gjöra vegi um þá. Já! mikið meira fé en þeir geta í té látið eða unnist getur fyrir skyldugjald það sem nú er. En talsvert mætti bæta vegina fyrir þá peninga sem núna ganga eða eiga að ganga úr vasa bænda til vegabóta, ef þeim væri vel og hyggilega varið, og vegabótunum haldið fram með meiri hagsýni, kunnáttu og dugnaði en nú á sér stað. Það vantar flest skilyrði fyrir því að vegabæturnar getið roðið að verulegu liði, eða komið að tilætluðum notum með því að hver hreppur káki við þær útaf fyrir sig. Fyrst eru óvíða til menn sem hafa þekkingu á að leggja vegi svo sem best má fara, og verður því það, sem gjört er, hroðvirkniskák, sem orðið er ónýtt eftir fá ár. Í öðru lagi er fé það, sem unnið er fyrir árlega, svo lítið, að eigi er hægt að gjöra nema lítið fyrir það. Þar sem því eru stór vegstykki sem þurfa mikla aðgjörð, yrðu menn í fleiri ár að gjöra við þau, ef það ætti að vera vel og varanlega gjört; hættir mönnum þá við að gjöra litlar og óverulegar umbætur á því bráðófærasta, og er það svo aftur orðið eins bráðófært eða verra en það var áður eftir fá ár. Í þriðja lagi er hreppavegavinnunni vanalega skipt í 2-3 eða 4 staði árlega, svo það eru aðeins örfá dagsverk sem unnin eru á hverjum stað, sem, eins og áður er sagt, koma ekki að notum. Þessi skipting vinnunnar er mjög óheppileg fyrir vegabæturnar, því bæði er erfiðara að fá svo marga nýta verkstjóra, og á vondum vegi sér eigi mun með svo lítilli vinnu. En því eru menn þá að skipta vinnunni? spyrja menn. Svarið er, það er eigi hægt að koma öðru við. All-flestir bændur kjósa heldur að vinna eða láta vinna vegabótavinnuna fyrir heimili sín, en borga hana; en þá er aftur eðlilegt að hver og einn vilji láta vinna sem næst sér, eða svo að hjú hans þurfi eigi að ferðast langt til vinnunnar, því hvernig eða hverjum á að reikna þann tíma sem maðurinn ver til þess að ferðast til vinnunnar? Til þess getur þó gengið heill dagur bara aðra leiðina í sumum hreppum, fyrir þá sem lengst eiga til dráttar ef unnið er á öðrum hreppsenda. Líkt þessu gengur með sýsluvegavinnuna, henni er vanalega skipt í marga staði, oftast eins marga eins og hrepparnir í sýslunni eru, og svo koma fyrir sömu vandræðin með verkstjórana og í hreppunum, og alloftast verða þeir menn verkstjórar, sem ekki eru þeim vanda vaxnir, því þá vantar alla þekkingu á vegalagningu, sem von er, þar þeir aldrei hafa átt kost á að vera með vegfróðum mönnum, og kannske ekki einu sinni séð góða og rétt lagða vegi.
Að það sé farið að vaka fyrir sumum mönnum að vegirnir hér í Norðurþingeyjars. komist seint á, með þessu gamla fylgi, og með sömu aðferð og brúkuð hefir verið við þá hingað til, virðist sú tilraun benda á, að fá aðalpóstleiðinni breytt eins og farið var fram á á sýslufundi Norðurþingeyjarsýslu 1888 og nefndaráliti neðri deildar Alþingis frá síðasta þingi, sem gjört var að þingsályktunartillögu deildarinnar. Breytingar þær á aðalpóstleiðinni sem neðri deild Alþingis hefir gjört frá uppástungu sýslufundarins 1888 álítum vér eigi sem heppilegastar, samanbornar við aðalástæðuna fyrir því að fá póstleiðinni breytt þannig eða frá því sem nú er.
Í ástæðum sýslufundarins 1888 er það tekið fram, að ef aðalpóstleiðin sé lögð, eins og ráðgjört er þar, þá liggi hún að mestu eftir byggðum sveitum, en ekki yfir fjöll og firnindi á bak við alla aðalbyggðina, eins og nú á sér stað. Þetta, að póstleiðin liggi eftir byggðinni, svo að sem flestir héraðsbúar hafi not af póstveginum, er sú eina sanngirnisástæða fyrir því að fá póstleiðinni breytt. En til grundvallar fyrir breytingunni liggur það, að ef aðalpóstleiðin fáist þannig lögð, fái menn áður en langir tímar líða góðan veg eftir sveitum þeim sem póstleiðin liggur um og yfir heiðar þær er liggja milli þeirra, því að þá komi landssjóðurinn til að kosta veginn og að þá verður þó heldur framkvæmd (ólæsilegur texti) verði bættur, heldur en annars, eða eins og nú er. Í nefndaráliti neðri deildar, þingskjal 285, er fyrsta ástæða fyrir breytingunni þannig orðuð: "Pósturinn gengur á þann hátt eftir allfjölbyggðum sveitum, en hingað til hefir pósturinn gengið að sveitabaki yfir Mývatnsöræfi og aðeins komið við á örfáum bæjum." Þarna kemur sama ástæðan fyrir aðalpóstvegarbreytingunni eins og hjá sýslunefndinni; nefnil. að það eru not þau er almenningur hefði af póstveginum sem er eina ástæðan fyrir breytingunni, enda getur ástæðan engin önnur verið, eða er ekki öllum sama hvort þeir fá bréf og sendingar með aukapósti fyrst þeir fá þau og þær eins fljótt og skilvíslega eins og með aðalpósti væri? Það liggur í augum uppi að breyting þessi á aðalpóstleiðinni hlyti að hafa töluverðan kostnaðarauka í för með sér, eins og líka allar beinar sendingar á millum Akureyrar og Austurlandsins yrðu lengur á leiðinni, því talsvert verður hún lengri þessi fyrirhugaða nýja aðalpóstleið. En svo er aftur að vega á móti þann mikla hagnað, sem almenningur mundi hafa af því, ef góður vegur fengist eftir þeirri fyrirhuguðu póstleið, því nú er vegur þessi afar illur yfirferðar. Og blandast mönnum líklega ekki hugur um það, að hagnaðurinn sem menn hefðu af góða veginum mundi verða ofaná; jafnvel þó sá góði vegur hlyti að kosta landssjóðinn mörg þúsund krónur.
Þegar nú að tilgangurinn með þessari breytingu á aðalpóstleiðinni, er enginn annar en sá, að fá góðan landssjóðsveg eftir leið þessari, eins og ég þykist hafa sýnt hér að framan. Þá hefði sjálfsagt verið heppilegast að leggja hann hvað Norðurþingeyjarsýslu snertir eingöngu eftir till. sýslunefndarinnar 1888 sem áður er getið um. Nefnil. að láta aðalpóstinn ganga frá Skinnastað sömu leið og aukapósturinn gengur nú til Raufarhafnar og þaðan í Svalbarð, en ekki eftir uppástungu neðri deildar Alþingis, nfl. frá Skinnastað yfir Axarfjarðarheiði að Svalbarði. Eftir uppástungu sýslunefndarinnar lægi aðalpóstvegurinn þá, að svo miklu leyti að því yrði viðkomið, eftir byggðinni, og hefðu allir þeir sem sækja þurfa til Raufarhafnar bæði úr Axarfirði og Þistilfirði og margir fleiri not af honum, en af Axarfjarðarveginum hafa sárfáir not í samanburði við hina leiðina. Aftur er það vitaskuld, að það lengir póstleiðina um eina dagleið áfram ef hún liggur út á Raufarhöfn, eða pósturinn yrði einum degi lengur að fara alla leið til Vopnafjarðar, ef hann færi Axarfjarðarheiði. En á móti þessu má meta fyrst almenningsgagnið, sem vegurinn til Raufarhafnar gjörir fram yfir hinn, annað sparnað á aukapósti frá Skinnastað til Raufarhafnar, og þriðja, að það mætti til með að byggja sæluhús á Axarfjarðarheiði, ef þar yrði aðalpóstleið. Önnur breyting sem neðri deildar nefndin hefir gjört frá uppástungu sýslunefndarinnar er sú, að aðalpósturinn gangi út í Sauðanes og þaðan að Skeggjastöðum. Sýslunefndin hafði stungið upp á því að aðalpóstleiðin lægi út í Þórshöfn og þaðan yfir Brekkuheiði, og svo náttúrlega eftir ströndinni að Skeggjastað. Eftir þessum vegi fara allir sem sækja austan af Strönd til Þórshafnar, og þar að auki liggur vegur þessi að kalla má beinast við fyrir alla þá sem þurfa að ferðast á milli Þingeyjarsýslu og Norðurmúlasýslu. En aftur á móti er það fyrst og fremst talsverður krókur fyrir póstinn að fara út í Sauðanes, og svo mundu engir nota veginn yfir Sauðaneshálsinn (sem pósturinn yrði náttúrlega að fara austur), nema pósturinn og þeir, sem beinlínis ætluðu í Sauðanes og kæmu að austan. Þessi breyting á póstleiðinni er því hreint óskiljanleg, því hún hefir sér ekki annað til ágætis, en bæði að lengja póstleiðina og búa til dýran veg þar sem sárfáir hafa hans not aðrir en pósturinn. Nær væri að kosta aukapóst frá Þórshöfn út í Sauðanes, eða jafnvel lengra út eftir Langanesi. Það er nú búið að leita álits sýslunefndarinnar í Norðurþingeyjarsýslu um þessa umgetnu þingsályktunartillögu neðri deildar alþingis, og var hún samþykkt af sýslunefndinni án breytinga, ekki af því að sýslunefndin væri allskostar ánægð með breytingar þær er ég hefi getið um hér að framan, að gjörðar hafi verið frá áliti hennar á fundi 1888, heldur af því, að hún mun hafa komist á þá skoðun, að ef hún vildi binda sig við það álit sitt, mundi engin breyting verða gjörð á aðalpóstleiðinni, og vildi hún þá heldur þessa breytingu en að allt sæti við það gamla, því það hefðu óneitanlega margir not af póstveginum svona lögðum, þó það yrðu færri en ef hann hefði verið lagður eftir uppástungu sýslunefndarinnar. Það er annars nokkuð merkilegt að þessi aðalpóstleiðarbreyting skuli þurfa að ganga á undan, til þess að fá viðunanlega vegi eftir byggðum sveitum. Það lítur svo út sem aðalspursmálið sé að fá góða vegi þar sem póstarnir fara um, nefnilega aðalpóstar. Aukapóstar geta brúkað vonda vegi og brotist yfir óbrúaðar ár. Það eru einungis aðalpóstarnir sem eru þessar æðri verur að þeir mega ekki steita fót sinn við steini. Handa þeim þarf landssjóðurinn endilega að kosta einn góðan veg, þó mjög fáir aðrir eigi þar leið um, en hvorki handa alþýðu manna eftir fjölbyggðum sveitum né handa aukapóstum, sem þó stundum hafa meiri flutning meðferðis en aðalpósturinn, eins og neðrideildarnefnd alþingis segir að eigi sér stað með aukapóstinn frá Grenjaðarstað til Vopnafjarðar. Óneitanlega væri heppilegra að landssjóðurinn kostaði góðan veg eftir byggðinni, eða þar sem byggðin væri mest kringum allt landið. Auðvitað getur sá vegur ekki orðið eftir beinum línum, eða sá stysti vegur sem hægt væri að fá fyrir langferðamenn, enda komi hann að bestum notum fyrir almenning með því móti að hann lægi sem mest eftir byggðum héruðum og á sem flest kauptún landsins. Það er mjög lítið bætt úr flutningsþörf þjóðarinnar með sem beinustum og stystum aðalpóstvegum, því það getur aldrei orðið hlutverk landpósta á Íslandi að flytja annað en bréf og smásendingar á milli manna. Og hitt heldur eigi líklegt að almenningur noti þá vegi til vöruflutninga að því er nokkru nemur. Sjórinn hlýtur að vera og verða aðalflutningsbraut Íslendinga, kringum landið á hin ýmsu kauptún þess, eins fyrir innlend vöruskipti og útlenda vöru, en þá ríður landsmönnum á að hafa sem greiðasta vegi að hverju kauptúni og sín á milli í hverju héraði. Á þetta ætti þing og þjóð að leggja meiri áherslu en á aðalpóstveginn. Það þurfa brýr á fleiri ár en þær sem aðalpóstur á leið yfir, og ætti landssjóður að brúa þær eftir því sem hægt er að koma því við án tillits til þess hvort brýrnar eru á aðalpóstleið eða ekki.
Nöfnin fjallvegir, póstvegir, sýsluvegir og hreppavegir ættu öll að renna saman í eitt orð, veg. Veg, sem landssjóður, sýslusjóður og hreppavegasjóður kostuðu allir í sameiningu þannig,; að sýslumenn innheimtu vegabótagjaldið óskipt á manntalsþingum ár hvert, eitt dagsverk fyrir hvern verkfæran mann, og landssjóðurinn leggi svo til jafn mikið fé í hverja sýslu á landinu eins og vegabótagjaldið úr allir sýslunni er mikið. Sýslunefndin ákveður hvar mest nauðsyn er á vegabótunum og sér um framkvæmd á þeim. En til þess að nokkur mynd verði á vegabótunum hjá okkur þurfum við að ala upp vegfræðinga. Vér þurfum fyrst að fá stöðuga vegfræðinga frá útlöndum og svo þurfum vér að senda 2-4 menn úr hverju sýslufélagi til að læra vinnu og vegagjörð af þessum mönnum, til þess að fá vegfróða menn í hvert sýslufélag. Vegfræðingar hjá okkur eru eins ómissandi og búfræðingar. Þegar vér svo værum búnir að fá nóga vegfræðinga í hvert sýslufélag er auðsætt að engum nema vegfróðum mönnum yrði trúað fyrir vegabótunum.
Ég veit, að margt má finna að þessari uppástungu; svo sem að þar sem fólkið er fæst og strjálbyggðast er, en vegir eru oftast verstir þar verði minnst unnið og minnst fé lagt til vegabótanna. En aftur þar sem fjölbyggðast er og vegir eru góðir, enda vegabætur komnar töluvert á veg, þar sé mest lagt til þeirra. En hér vakti fyrir mér jafnréttishugsun, að því leyti, að þeir sem mest leggja til, yrðu líka að bera mest úr býtum. En ef eitthvert byggðarlag kemst svo langt, að það þarf eigi framar að bæta vegi hjá sér, þá ættu þeir hinir sömu að losast við vegabótagjaldið; en landssjóðsgjaldið helst samt við til hinna og borga því allir nokkuð til vegabóta, eins þeir er lausir eru við vegabótagjaldgreiðslu á manntalsþingum, því þeir borga í landssjóðinn eins og aðrir. En það mun seint koma fyrir, því þeir hinir sömu byrja þá á járnbrautum og telefónum þegar annað er eigi hægt að bæta.
Ég fæ eigi betur séð, en það væri heppilegra fyrir þingið að breyta vegalögunum í líka stefnu og hér er gjört ráð fyrir, og að það væri drengilegra að koma með uppástungu í þá átt, heldur en að reyna að teygja aðalpóstleiðina á milli sín eins og hrátt skinn, einungis í þeim tilgangi að fá landssjóðsveg.
Hvað okkur snertir Norðurþingeyinga, þá fengjum vér ekki í neinu tilliti betri póstgöngur, þó aðalpóstleiðin yrði lögð hér eftir sveitunum en vér höfum nú. Enda eru póstgöngur nú orðnar hér svo góðar, hvað landpóstana snertir, að menn munu ekki almennt finna þörf fyrir þær tíðari né betri.
Norðurþingeyingur.