1884

Ísafold, 16. jan. 1884, 11. árg., 3. tbl., bls. 11:

Um veginn yfir Svínahraun.
Þó að ritað hafi verið nokkuð og rætt allmikið um Svínahraunsveginn, mun þó ekki með öllu óþarft að bæta þar nokkru við.
Það sem fyrst og helst á að hafa fyrir augum, þegar lagður er nýr vegur, er, að stefnan sé tekin sem beinust að unnt til þess staðar, sem vegurinn á að liggja, enda var það þegar skipað með konungsbréfi um vegina á Íslandi 29. apríl 1776: “Þar sem verður gjörist þeir svo beinir, sem fært er, þar óþarfakrókar lýta þá bæði og lengja og gjöra mæðusamari.”
Þetta voru nú orð einvaldskonungsins í Danmörku 100 árum áður en byrjað var að leggja veginn yfir Svínahraun, sem er aðalþjóðleið og póstvegur yfir suður- og austurland til og frá Reykjavík og einhver hinn fjölfarnasti vegur á landinu. Það getur komið fyrir, að halla verði til vegi með stefnuna, þegar landslagi er svo háttað, að það er of bratt eða einhverjar torfærur eru á leiðinni, sem sneiða verður hjá; en til að varast alla óþarfa króka, sem ekki ættu að eiga sér stað, þarf að athuga alla leiðina fyrirfram vandlega af kunnugum og glöggskyggnum mönnum, bæði hvað snertir stefnu vegarins, efni til að gjöra hann í fyrstu og svo til að viðhalda honum. En hvernig hefir þessa verið gætt með Svínahraunsveginn? Það verður ekki séð, að annað hafi vakað fyrir þeim, sem réðu stefnunni, en að ná í gamla veginn fyrir neðan hraunið, þrátt fyrir það, þótt hann liggi allt annað en beina leið til Reykjavíkur, og svo er á þeirri leið víða ómögulegt að gjöra nokkra varanlega vegabót, t.d. frá Lækjarbotni allt niður fyrir Hólm.
Það mun ekki of harður dómur, þó sagt sé um þessa vegagjörð í heild sinni, að hún sé eitt fjarska stórt axarskaft, marghlykkjótt og maðksmogið, og þó sumt af þessu óhappaverki megi dálítið afsaka með vanþekking, þá verður stærsti hlykkurinn á axarskaftinu, þ.e. stefnan, varla afsakaður, með því það var komið inn í meðvitund þjóðarinnar fyrir löngu síðan, að gjöra vegina beinni en hestarnir okkar höfðu lagt þá í öndverðu. Vegurinn er hér um bil 650 föðmum lengri en hann þarf að vera yfir hraunið, og það er næsta sorglegt, þegar slík verk sem þetta mistakast algjörlega. Vegur þessi er á lengd 3045 faðmar og upphaflega kostaði hver faðmur í honum 4 kr. 52 a. eða alls 13.763 kr. 40 a. Síðan hefir verið eytt næstliðin sumur til viðgerðar á honum svo þúsundum króna skiptir; en hvað mörg þúsund krónur muni þurfa til slíks viðhalds um háfa eða heila öld, eins og vegurinn nú er, mun ekki auðvelt að segja.
Hvernig viðgerðin á næstliðnu sumri hefur verið af hendi leyst gagnvart samningi við yfirvöldin, getum við ekki sagt neitt um, með því að við höfum ekki séð samninginn; en það höfum við séð, að klyfjahestum, sem reka átti eftir veginum, var eigi unnt að halda á honum nokkrum dögum eftir að hætt var að gjöra við hann. En hvernig hann verður með aldrinum mun reynslan best sýna.
Við höfum gjört okkur nokkurt ómak fyrir með aðstoð þriðja manns, að leiða sem best í ljós aðal-vansmíðið á veginum, áður en meiru fé er í hann eytt í nokkurs konar blindni, ef ske mætti, að farið yrði að þreifa fyrir sér.
Eins og sjá má, einkum fyrir kunnuga, stefnir vegurinn fyrst vestur í hraunið, og er stefnan þá neðan til við Lyklafell, hér um bil á Reykjavík. En svo tekur hann bráður norðurslag, og stefnir þá hér um bil á Kollafjörð. Síðan slakar hann til með hægð – og er þá rúmlega hálfnaður vegurinn yfir hraunið – þar til hann hefir aftur náð stefnunni nálægt því á Rvk, og henni heldur hann yfir miðhraunið, þar til eftir eru 1144 faðmar; þá fer hann að stefna meir til suðvesturs og færist þá jafnþéttan úr leið, þar til hann stefnir nærfellt í hásuður fyrir austan Vífilfell, og heldur henni 47 faðma, svo að hvorki færist nær eða fjær Rvík, og ef þá er dregin bein lína eftir stefnum á Uppdrætti Íslands, og veginum haldið áfram, kemur hann til sjávar milli Selvogs og Herdísarvíkur. Í raun réttri nemur afvegaleiðslan 250 föðmum, að meðtöldum þessum 47. Minna hefði nú mátt gera að umtalsefni.
En nú munu menn segja, að ekki sé nóg að setja út á þessa vegagjörð, heldur beri þeim, er mest að finna, að sýna, hvern veg hefði betur mátt fara, og einkum hvað nú sé til ráða í því óefni, sem í er komið með vegagjörðina yfir þetta annað Ódáðahraun á Íslandi. (Það verður að líkindum ekki síður sögulegt á ókomnum öldum fyrir gagnslausa peningaeyðslu en Ódáðahraun fyrir útilegumenn).
Upphaflega hefði það ekki átt að vera áhorfsmál, að leggja veginn að mestu fyrir norðan hraunið eða yfir Norðurvelli. Þar var víða sjálfgerður vegur og óþrjótandi efni í upphleyptan veg, þar sem þess hefði þurft; að vísu hefði hann ekki getað orðið beinn til Reykjavíkur, en ekki hefðu krókarnir þurft að vera margir, og aldrei hefði farið svo, að vegfarendur þokuðust hvorki fjær eða nær áfangastaðnum, þó þeir héldu áfram, eins og nú á sér stað á vissum kafla af veginum. En nú var þetta happaráð ekki tekið.
Setjum nú svo, að óumflýjanlegt hefði verið að leggja veginn yfir hraunið, sem þó ekki var, það verður eigi að síður óskiljanlegt, af hvaða ástæðum hann hefir verið þannig lagður, sem nú er sagt; fleiri króka mátti á honum hafa, en lengra var ekki hægt að þræða hraunið með hann. Af Bolavöllum átti að taka stefnuna, svo að hann hefði komið þétt að háhrauninu, þar sem það skerst til norðausturs, og svo beina stefnu vestanhalt á Lyklafell, eða rétt yfir taglið á því, og sem beinast til Reykjavíkur eða að norður-þjóðleiðinni yfir Elliðaárnar. Með þessari stefnu varð vegurinn hér um bið 650 föðmum styttri yfir hraunið en hann er nú, og þá auðvitað allur á annað þúsund faðma skemmri. Þá þarf yfir enga kvísl af Elliðaánum að fara, nema rásina hjá lyklafelli, sem ekki getur orðið að farartálma nema í stærstu leysingum á vetrardag, og mun þó sjaldnast ófær fyrir norðan fellið, enda er þetta sú eina leið, sem fær er undir hinum ýmsu kringumstæðum vetur og vor fyrir þá, er koma austan yfir Hellisheiði, og það er vonandi, að sú skoðun, sem þegar var til, þá er Svínahraunsvegurinn var lagður, að afleggja veginn fyrir sunnan vötnin, muni nú algjörlega ryðja sér til rúms, þegar búið er að leggja brýr yfir Elliðaárnar.
Það er því okkar skoðun, að snjallasta ráðið sé – úr því sem nú er komið – að halda við efri hlutanum af veginum, hér um bið 1900 föðmum, og taka svo stefnuna vestur úr hrauninu, sem er hin skemmsta er fengist getur, og eins og áður er sagt, beint á taglið á lyklafelli, og munu hér vera nálægt 500 föðmum, sem leggja þarf af nýjum vegi yfir hraunið, og eru þar melar við hraunið, er gefa mundu um langan aldur nægilegt ofaníburðarefni.
Það er vitaskuld, að þessi skoðun mun þykja hörð aðgöngu, að af leggja 1150 faðma af svo dýrkeyptum vegi; en hvað skal segja? Þegar maður hefir tekið ranga stefnu og er orðinn rammvilltur, þá versnar ástandið jafnan meir og meir, eftir því sem þannig er lengur áfram haldið, og er þá eina ráðið að snúa aftur, meðan afturkvæmt er, eftir að hafa staðið við og gáð til vegar.
En hvort haldið yrði meiru eða minna af þessum urðarstíg, mun þó eina ráðið að taka hann upp og flórleggja það sem brúka má af honum; að öðrum kosti ætlum við að jafnan muni annar kaflinn orðinn lítt fær, þegar búið er að bera ofan í hinn, með því að ofaníburðarefni mun þegar þrotið.
Við skulum svo ekki fleirum orðum hér um fara að sinni, en ætlum ekki óráðlegt, að þetta mál sé yfirvegað, og kæmi hér upp útlendur vegagjörðarmaður ætti það að vera hans fyrsta verk að skoða þennan ómaga landsins, sem þurft hefir mikið og þrifist illa.
Í desbr. 1883.
Þorlákur Guðmundsson. Guðm. Magnússon.


Ísafold, 16. jan. 1884, 11. árg., 3. tbl., bls. 11:

Um veginn yfir Svínahraun.
Þó að ritað hafi verið nokkuð og rætt allmikið um Svínahraunsveginn, mun þó ekki með öllu óþarft að bæta þar nokkru við.
Það sem fyrst og helst á að hafa fyrir augum, þegar lagður er nýr vegur, er, að stefnan sé tekin sem beinust að unnt til þess staðar, sem vegurinn á að liggja, enda var það þegar skipað með konungsbréfi um vegina á Íslandi 29. apríl 1776: “Þar sem verður gjörist þeir svo beinir, sem fært er, þar óþarfakrókar lýta þá bæði og lengja og gjöra mæðusamari.”
Þetta voru nú orð einvaldskonungsins í Danmörku 100 árum áður en byrjað var að leggja veginn yfir Svínahraun, sem er aðalþjóðleið og póstvegur yfir suður- og austurland til og frá Reykjavík og einhver hinn fjölfarnasti vegur á landinu. Það getur komið fyrir, að halla verði til vegi með stefnuna, þegar landslagi er svo háttað, að það er of bratt eða einhverjar torfærur eru á leiðinni, sem sneiða verður hjá; en til að varast alla óþarfa króka, sem ekki ættu að eiga sér stað, þarf að athuga alla leiðina fyrirfram vandlega af kunnugum og glöggskyggnum mönnum, bæði hvað snertir stefnu vegarins, efni til að gjöra hann í fyrstu og svo til að viðhalda honum. En hvernig hefir þessa verið gætt með Svínahraunsveginn? Það verður ekki séð, að annað hafi vakað fyrir þeim, sem réðu stefnunni, en að ná í gamla veginn fyrir neðan hraunið, þrátt fyrir það, þótt hann liggi allt annað en beina leið til Reykjavíkur, og svo er á þeirri leið víða ómögulegt að gjöra nokkra varanlega vegabót, t.d. frá Lækjarbotni allt niður fyrir Hólm.
Það mun ekki of harður dómur, þó sagt sé um þessa vegagjörð í heild sinni, að hún sé eitt fjarska stórt axarskaft, marghlykkjótt og maðksmogið, og þó sumt af þessu óhappaverki megi dálítið afsaka með vanþekking, þá verður stærsti hlykkurinn á axarskaftinu, þ.e. stefnan, varla afsakaður, með því það var komið inn í meðvitund þjóðarinnar fyrir löngu síðan, að gjöra vegina beinni en hestarnir okkar höfðu lagt þá í öndverðu. Vegurinn er hér um bil 650 föðmum lengri en hann þarf að vera yfir hraunið, og það er næsta sorglegt, þegar slík verk sem þetta mistakast algjörlega. Vegur þessi er á lengd 3045 faðmar og upphaflega kostaði hver faðmur í honum 4 kr. 52 a. eða alls 13.763 kr. 40 a. Síðan hefir verið eytt næstliðin sumur til viðgerðar á honum svo þúsundum króna skiptir; en hvað mörg þúsund krónur muni þurfa til slíks viðhalds um háfa eða heila öld, eins og vegurinn nú er, mun ekki auðvelt að segja.
Hvernig viðgerðin á næstliðnu sumri hefur verið af hendi leyst gagnvart samningi við yfirvöldin, getum við ekki sagt neitt um, með því að við höfum ekki séð samninginn; en það höfum við séð, að klyfjahestum, sem reka átti eftir veginum, var eigi unnt að halda á honum nokkrum dögum eftir að hætt var að gjöra við hann. En hvernig hann verður með aldrinum mun reynslan best sýna.
Við höfum gjört okkur nokkurt ómak fyrir með aðstoð þriðja manns, að leiða sem best í ljós aðal-vansmíðið á veginum, áður en meiru fé er í hann eytt í nokkurs konar blindni, ef ske mætti, að farið yrði að þreifa fyrir sér.
Eins og sjá má, einkum fyrir kunnuga, stefnir vegurinn fyrst vestur í hraunið, og er stefnan þá neðan til við Lyklafell, hér um bil á Reykjavík. En svo tekur hann bráður norðurslag, og stefnir þá hér um bil á Kollafjörð. Síðan slakar hann til með hægð – og er þá rúmlega hálfnaður vegurinn yfir hraunið – þar til hann hefir aftur náð stefnunni nálægt því á Rvk, og henni heldur hann yfir miðhraunið, þar til eftir eru 1144 faðmar; þá fer hann að stefna meir til suðvesturs og færist þá jafnþéttan úr leið, þar til hann stefnir nærfellt í hásuður fyrir austan Vífilfell, og heldur henni 47 faðma, svo að hvorki færist nær eða fjær Rvík, og ef þá er dregin bein lína eftir stefnum á Uppdrætti Íslands, og veginum haldið áfram, kemur hann til sjávar milli Selvogs og Herdísarvíkur. Í raun réttri nemur afvegaleiðslan 250 föðmum, að meðtöldum þessum 47. Minna hefði nú mátt gera að umtalsefni.
En nú munu menn segja, að ekki sé nóg að setja út á þessa vegagjörð, heldur beri þeim, er mest að finna, að sýna, hvern veg hefði betur mátt fara, og einkum hvað nú sé til ráða í því óefni, sem í er komið með vegagjörðina yfir þetta annað Ódáðahraun á Íslandi. (Það verður að líkindum ekki síður sögulegt á ókomnum öldum fyrir gagnslausa peningaeyðslu en Ódáðahraun fyrir útilegumenn).
Upphaflega hefði það ekki átt að vera áhorfsmál, að leggja veginn að mestu fyrir norðan hraunið eða yfir Norðurvelli. Þar var víða sjálfgerður vegur og óþrjótandi efni í upphleyptan veg, þar sem þess hefði þurft; að vísu hefði hann ekki getað orðið beinn til Reykjavíkur, en ekki hefðu krókarnir þurft að vera margir, og aldrei hefði farið svo, að vegfarendur þokuðust hvorki fjær eða nær áfangastaðnum, þó þeir héldu áfram, eins og nú á sér stað á vissum kafla af veginum. En nú var þetta happaráð ekki tekið.
Setjum nú svo, að óumflýjanlegt hefði verið að leggja veginn yfir hraunið, sem þó ekki var, það verður eigi að síður óskiljanlegt, af hvaða ástæðum hann hefir verið þannig lagður, sem nú er sagt; fleiri króka mátti á honum hafa, en lengra var ekki hægt að þræða hraunið með hann. Af Bolavöllum átti að taka stefnuna, svo að hann hefði komið þétt að háhrauninu, þar sem það skerst til norðausturs, og svo beina stefnu vestanhalt á Lyklafell, eða rétt yfir taglið á því, og sem beinast til Reykjavíkur eða að norður-þjóðleiðinni yfir Elliðaárnar. Með þessari stefnu varð vegurinn hér um bið 650 föðmum styttri yfir hraunið en hann er nú, og þá auðvitað allur á annað þúsund faðma skemmri. Þá þarf yfir enga kvísl af Elliðaánum að fara, nema rásina hjá lyklafelli, sem ekki getur orðið að farartálma nema í stærstu leysingum á vetrardag, og mun þó sjaldnast ófær fyrir norðan fellið, enda er þetta sú eina leið, sem fær er undir hinum ýmsu kringumstæðum vetur og vor fyrir þá, er koma austan yfir Hellisheiði, og það er vonandi, að sú skoðun, sem þegar var til, þá er Svínahraunsvegurinn var lagður, að afleggja veginn fyrir sunnan vötnin, muni nú algjörlega ryðja sér til rúms, þegar búið er að leggja brýr yfir Elliðaárnar.
Það er því okkar skoðun, að snjallasta ráðið sé – úr því sem nú er komið – að halda við efri hlutanum af veginum, hér um bið 1900 föðmum, og taka svo stefnuna vestur úr hrauninu, sem er hin skemmsta er fengist getur, og eins og áður er sagt, beint á taglið á lyklafelli, og munu hér vera nálægt 500 föðmum, sem leggja þarf af nýjum vegi yfir hraunið, og eru þar melar við hraunið, er gefa mundu um langan aldur nægilegt ofaníburðarefni.
Það er vitaskuld, að þessi skoðun mun þykja hörð aðgöngu, að af leggja 1150 faðma af svo dýrkeyptum vegi; en hvað skal segja? Þegar maður hefir tekið ranga stefnu og er orðinn rammvilltur, þá versnar ástandið jafnan meir og meir, eftir því sem þannig er lengur áfram haldið, og er þá eina ráðið að snúa aftur, meðan afturkvæmt er, eftir að hafa staðið við og gáð til vegar.
En hvort haldið yrði meiru eða minna af þessum urðarstíg, mun þó eina ráðið að taka hann upp og flórleggja það sem brúka má af honum; að öðrum kosti ætlum við að jafnan muni annar kaflinn orðinn lítt fær, þegar búið er að bera ofan í hinn, með því að ofaníburðarefni mun þegar þrotið.
Við skulum svo ekki fleirum orðum hér um fara að sinni, en ætlum ekki óráðlegt, að þetta mál sé yfirvegað, og kæmi hér upp útlendur vegagjörðarmaður ætti það að vera hans fyrsta verk að skoða þennan ómaga landsins, sem þurft hefir mikið og þrifist illa.
Í desbr. 1883.
Þorlákur Guðmundsson. Guðm. Magnússon.