1881

Ísafold, 26. apríl 1881, 8. árg., 8. tbl., forsíða:

Mosfellsheiði, og nokkur orð um vegagjörð
Mosfellsheiði er einn hinn fjölfarnasti, ef eigi fjölfarnastur, fjallvegur á Íslandi. Yfir heiði þessa fara Upp-Árnesingar bæði verslunar- og skreiðarferðir sínar; þá fara og allmargir Borgfirðingar og jafnvel Hvítsíðingar um fjallveg þennan til Reykjavíkur, um heiði þessa liggur enn fremur alþjóðarleið allra Norðlinga til höfuðsstaðarins, og allra ferðamanna frá Reykjavík og úr sjávarsveitunum við Faxaflóa (t.d. kaupafólks), er fara norður í land. En ekki þar með búið, - nálega hver og einn útlendur maður, sem til Reykjavíkur kemur, fer yfir heiði þessa, ef hann annars ferðast eina dagleið á landi hér. Á öllum miðkafla heiðarinnar er vegurinn þannig, þegar þurrt er um, að stórgrýtissteinar – og sumsstaðar ærið þéttir – liggja ofan á leirmold, og ná eins og þétt breiða út fyrir alla hina mörgu götutroðninga; sumsstaðar er vegurinn ófær urð, og grjótið svo þétt, að varla er nægilegt bil handa hestfætinum á milli steinanna. Þegar aftur á móti rignir, þótt eigi sé lengur en einn dag eða tvo, blotnar leirmoldin og treðst upp; og myndast þá leirleðjupollar innan um stórgrýtið, má þá vegurinn teljast ófær, jafnvel fyrir lausríðandi mann. Þó er enn verri meðferðin á hestunum, þegar þeir eru reknir um slíkan veg með þyngsla-klyfjum, t.d. með borðviðardrögum á haustdegi oft í stormi og regni, þá er viðbjóðslegt að sjá skepnurnar hrekjast fyrir storminum til og frá um ófæru þessa; en þó erum vér, sem drögum að oss allar nauðsynjar vorar um þennan veg, neyddir til að beita þessari grimmdarlegu meðferð við hesta vora, og er það hart aðgöngu fyrir margan mann.
Ég hef vakið máls á vegi þessum, og lýst honum afdráttarlaust, til þess að vekja á honum athygli stjórnar þeirrar, sem hefir framkvæmd fjallvegabótanna á hendi, því ég er viss um, að þegar hin brýna þörf á því, að endurbæta veginn, er orðin fullkunnug, muni úr henni verða bætt svo fljótt sem unnt er.
En þegar um er að ræða vegabótina sjálfa, þá er auðvitað, að hún má ekkert kák vera. Að ryðja heiðina er ónýtt verk, - það hefir reynslan sýnt. Hún var vel rudd 1874, og þó er hún nú orðin illfær. Það þarf að leggja upphleyptan veg um allt miðbik heiðarinnar, að minnsta kosti austan frá Moldbrekkum og vestur undir Grímmannsfellsöxl. Grjótið til vegagjörðarinnar er nálega allsstaðar við höndina, og næga möl má fá í veginn við báða enda hans, og máske víðar, - en leiðin er svo slétt og hallalítil, að aka má hlöðnum vagni jafnt vestur sem austur eftir. Vera má og, að veginn megi nokkuð stytta, sé hann færður úr stað.
Ég hygg að upphleyptir vegir verði hinir hagkvæmustu og endingarbestu til að mæta áhrifum vatns, snjóbleytu og storma, enda eru þeir ómissandi á þeim heiðum sem farnar eru oft á vetrardegi, því að snjó festir lítt á upphleyptum vegum. En til þess að þeir endist vel, verður að vanda vel alla byggingu þeirra, og betur en gjört hefir veirð sumsstaðar hér sunnanlands til þessa, og þarf strangt eftirlit með veggjörðarmönnum ætíð. Það er illa gjört og endingarlaust verk, þegar steinum er raðað aðeins í hinar ystu hleðslur vegarins, og svo hrúgað grjóti innan í af handahófi, - síðan rutt þykku moldarlagi eða moldarhrygg á allt ofan, og þar ofan á stráð dálitlu af möl eða sandi. Þegar svona er unnið verkið, verður vegurinn betur laginn til þess, að líta snoturlega út í bráðina í augum úttektarmanna, en til þess að þola umferð hesta, og áhrif vatns og vinda. Leirmold sú, sem þannig er hrúgað í veginn, verður við troðninguna ógagnfærileg vatninu, sem rennur út af veginum, myndar farvegi í moldina, og ber nokkuð af henni burtu með sér, uns hún þverrar; brýst þá vatnið niður gegnum urðina, sem undir er moldinni, og þvær allar moldarleifarnar loksins í burtu; verður þá ber urðin eftir, og vegurinn ófær. Þegar upphleyptan veg skal hlaða, ætla ég, að þessi aðferð verði best og traustust: Úr hinu lengsta og stærsta grjótinu skal hlaða hleðslurnar, þær er út horfa beggja vegna og skal skorða þær hleðslur vel; þá skal jafnframt raða grjóti innan í og skorða það vel, en flóra efst svo vel sem auðið er, og berja steinklóður í allar holur, og er ekki vel flórað undir íburðinn, nema ríða megi veginn hiklaust, þegar skilið er við grjótverkið. Síðan skal aka eintómri möl í veginn, ef hún með nokkru móti getur fengist, og skal nú mölin, er fyrst er lögð ofan á grjótið, vera stórgjörðust, og svo smærri eftir því sem ofar kemur, og hin smæsta efst, og væri nokkuð leirblandinn sandur hentugur til að liggja allra efst fyrir sléttleika- og mýkindasakir. Með þessari aðferð hygg ég að mætti gjöra endingargóða vegi, og þótt þeir yrðu nokkru dýrari í fyrstu, en hinir með urðinni og moldarhaugnum, þá mundu þeir vegna endingarinnar í raun réttri verða miklu ódýrari. Svona gjörðir vegir mundu gleypa í sig rigningarvatnið, það mundi síga niður í hina holu möl og grjót, og svo útundan veginum, - þar sem aftur á móti hvert hófspor fyllist með vatni á moldarveginum, og allt treðst upp og verður að forarleðju, sem berst smám saman burtu með vatninu, eins og áður er vikið á.
Sú skoðun hefir verið látin í ljósi, að fjallvegir þeir, sem póstleiðir liggja um, skuli sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum vegum um vegabætur. Þessa skoðun get ég ekki aðhyllst undantekningarlaust. Það er án efa rétt, að þar sem fjallvegir að öðru leyti standa jafnt að vígi, - t.a.m. eru jafnfjölfarnir og jafnnauðsynlegir, - þá verði sá vegurinn fyrst bættur, sem einnig er póstvegur. En sé um tvo fjallvegi að ræða, og sé annar mjög fjölfarinn, en hinn sjaldfarinn, og þó póstvegur, þá greiðir það sjálfsagt betur samgöngurnar, frá almennu sjónarmiði skoðað, að bættur sé hinn tíðfarni alþjóðarvegur, en hinn sjaldfarni póstvegur. Að bæta samgöngur á landi voru, er síður fólgið í því, að flýta fyrir bréfum, blöðum og bögglasendingum einungis, heldur en í hinu, að greiða fyrir ferðum manna og flutningum almennt, svo að fé og tími sparist; - vér lifum hvort sem er ekki á einum saman bréfum og bögglasendingum, og virðist mér ekki rétt, að stofna of mjög lífi manna og gripa í háska um miðjan harðindatímann hér á landi og við land, - einungis til þess að seðja bréfasýki vora. Menn ættu að gæta að táknum tímanna í þessu efni, og athuga, að sannar framfarir Íslands eru alls eigi komnar undir neinni ofurkeppni í þessa átt.
Í “bréfkafla frá Árnesingi” í Þjóðólfi 25. bl. F. á. var sú tillaga borin fram, að fjallvegir ættu, þar sem því yrði við komið, að vera akvegir, og get ég vel fallist á þessa skoðun höfundarins, enda þótt bréfkafli þessi flytti að öðru leyti Þjóðólfi of mikið af ýkjum, og skökkum, og að sumu leyti miður góðgjörnum fréttum. Þar sem fjallvegir liggja um brattalítil heiðalönd, annaðhvort upp frá kaupstöðunum eða milli héraða, væri ágætt, að landssjóður vildi byrja á því, að kosta nokkra vagnvegakafla, ekki svo mjög vegna þess, að hugsandi sé til, að leggja vagnvegi um allt þetta sæbratta, fjöllótta og strjálbyggða land fyrst um sinn, - sem vegna hins, að landsbúar þurfa að venjast meðferð og notkun vagna, og þurfa að fá beinar eða óbeinar hvatir til að læra að nota vagna við ýmsan flutning og margs konar störf á heimilum sínum. Gætu nokkrir vagnvegarkaflar í hverjum landsfjórðungi orðið til þessa, mætti því fé, sem til þeirra gengi, heita vel varið. Upphleyptu vegirnir eru hinir bestu akvegir, ef þeir eru vel vandaðir og nokkru breiðari, en lögin ákveða um fjallvegina. Mosfellsheiði væri mjög hentug til að vera lögð vagnvegi, - en hvað sem því líður, er lífsnauðsynlegt að bæta sem fyrst veginn á heiði þessari, - “og fyr er gilt en valið sé”.
Þingvelli við Öxará, 15. febr. 1881.
Jens Pálsson.


Ísafold, 26. apríl 1881, 8. árg., 8. tbl., forsíða:

Mosfellsheiði, og nokkur orð um vegagjörð
Mosfellsheiði er einn hinn fjölfarnasti, ef eigi fjölfarnastur, fjallvegur á Íslandi. Yfir heiði þessa fara Upp-Árnesingar bæði verslunar- og skreiðarferðir sínar; þá fara og allmargir Borgfirðingar og jafnvel Hvítsíðingar um fjallveg þennan til Reykjavíkur, um heiði þessa liggur enn fremur alþjóðarleið allra Norðlinga til höfuðsstaðarins, og allra ferðamanna frá Reykjavík og úr sjávarsveitunum við Faxaflóa (t.d. kaupafólks), er fara norður í land. En ekki þar með búið, - nálega hver og einn útlendur maður, sem til Reykjavíkur kemur, fer yfir heiði þessa, ef hann annars ferðast eina dagleið á landi hér. Á öllum miðkafla heiðarinnar er vegurinn þannig, þegar þurrt er um, að stórgrýtissteinar – og sumsstaðar ærið þéttir – liggja ofan á leirmold, og ná eins og þétt breiða út fyrir alla hina mörgu götutroðninga; sumsstaðar er vegurinn ófær urð, og grjótið svo þétt, að varla er nægilegt bil handa hestfætinum á milli steinanna. Þegar aftur á móti rignir, þótt eigi sé lengur en einn dag eða tvo, blotnar leirmoldin og treðst upp; og myndast þá leirleðjupollar innan um stórgrýtið, má þá vegurinn teljast ófær, jafnvel fyrir lausríðandi mann. Þó er enn verri meðferðin á hestunum, þegar þeir eru reknir um slíkan veg með þyngsla-klyfjum, t.d. með borðviðardrögum á haustdegi oft í stormi og regni, þá er viðbjóðslegt að sjá skepnurnar hrekjast fyrir storminum til og frá um ófæru þessa; en þó erum vér, sem drögum að oss allar nauðsynjar vorar um þennan veg, neyddir til að beita þessari grimmdarlegu meðferð við hesta vora, og er það hart aðgöngu fyrir margan mann.
Ég hef vakið máls á vegi þessum, og lýst honum afdráttarlaust, til þess að vekja á honum athygli stjórnar þeirrar, sem hefir framkvæmd fjallvegabótanna á hendi, því ég er viss um, að þegar hin brýna þörf á því, að endurbæta veginn, er orðin fullkunnug, muni úr henni verða bætt svo fljótt sem unnt er.
En þegar um er að ræða vegabótina sjálfa, þá er auðvitað, að hún má ekkert kák vera. Að ryðja heiðina er ónýtt verk, - það hefir reynslan sýnt. Hún var vel rudd 1874, og þó er hún nú orðin illfær. Það þarf að leggja upphleyptan veg um allt miðbik heiðarinnar, að minnsta kosti austan frá Moldbrekkum og vestur undir Grímmannsfellsöxl. Grjótið til vegagjörðarinnar er nálega allsstaðar við höndina, og næga möl má fá í veginn við báða enda hans, og máske víðar, - en leiðin er svo slétt og hallalítil, að aka má hlöðnum vagni jafnt vestur sem austur eftir. Vera má og, að veginn megi nokkuð stytta, sé hann færður úr stað.
Ég hygg að upphleyptir vegir verði hinir hagkvæmustu og endingarbestu til að mæta áhrifum vatns, snjóbleytu og storma, enda eru þeir ómissandi á þeim heiðum sem farnar eru oft á vetrardegi, því að snjó festir lítt á upphleyptum vegum. En til þess að þeir endist vel, verður að vanda vel alla byggingu þeirra, og betur en gjört hefir veirð sumsstaðar hér sunnanlands til þessa, og þarf strangt eftirlit með veggjörðarmönnum ætíð. Það er illa gjört og endingarlaust verk, þegar steinum er raðað aðeins í hinar ystu hleðslur vegarins, og svo hrúgað grjóti innan í af handahófi, - síðan rutt þykku moldarlagi eða moldarhrygg á allt ofan, og þar ofan á stráð dálitlu af möl eða sandi. Þegar svona er unnið verkið, verður vegurinn betur laginn til þess, að líta snoturlega út í bráðina í augum úttektarmanna, en til þess að þola umferð hesta, og áhrif vatns og vinda. Leirmold sú, sem þannig er hrúgað í veginn, verður við troðninguna ógagnfærileg vatninu, sem rennur út af veginum, myndar farvegi í moldina, og ber nokkuð af henni burtu með sér, uns hún þverrar; brýst þá vatnið niður gegnum urðina, sem undir er moldinni, og þvær allar moldarleifarnar loksins í burtu; verður þá ber urðin eftir, og vegurinn ófær. Þegar upphleyptan veg skal hlaða, ætla ég, að þessi aðferð verði best og traustust: Úr hinu lengsta og stærsta grjótinu skal hlaða hleðslurnar, þær er út horfa beggja vegna og skal skorða þær hleðslur vel; þá skal jafnframt raða grjóti innan í og skorða það vel, en flóra efst svo vel sem auðið er, og berja steinklóður í allar holur, og er ekki vel flórað undir íburðinn, nema ríða megi veginn hiklaust, þegar skilið er við grjótverkið. Síðan skal aka eintómri möl í veginn, ef hún með nokkru móti getur fengist, og skal nú mölin, er fyrst er lögð ofan á grjótið, vera stórgjörðust, og svo smærri eftir því sem ofar kemur, og hin smæsta efst, og væri nokkuð leirblandinn sandur hentugur til að liggja allra efst fyrir sléttleika- og mýkindasakir. Með þessari aðferð hygg ég að mætti gjöra endingargóða vegi, og þótt þeir yrðu nokkru dýrari í fyrstu, en hinir með urðinni og moldarhaugnum, þá mundu þeir vegna endingarinnar í raun réttri verða miklu ódýrari. Svona gjörðir vegir mundu gleypa í sig rigningarvatnið, það mundi síga niður í hina holu möl og grjót, og svo útundan veginum, - þar sem aftur á móti hvert hófspor fyllist með vatni á moldarveginum, og allt treðst upp og verður að forarleðju, sem berst smám saman burtu með vatninu, eins og áður er vikið á.
Sú skoðun hefir verið látin í ljósi, að fjallvegir þeir, sem póstleiðir liggja um, skuli sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum vegum um vegabætur. Þessa skoðun get ég ekki aðhyllst undantekningarlaust. Það er án efa rétt, að þar sem fjallvegir að öðru leyti standa jafnt að vígi, - t.a.m. eru jafnfjölfarnir og jafnnauðsynlegir, - þá verði sá vegurinn fyrst bættur, sem einnig er póstvegur. En sé um tvo fjallvegi að ræða, og sé annar mjög fjölfarinn, en hinn sjaldfarinn, og þó póstvegur, þá greiðir það sjálfsagt betur samgöngurnar, frá almennu sjónarmiði skoðað, að bættur sé hinn tíðfarni alþjóðarvegur, en hinn sjaldfarni póstvegur. Að bæta samgöngur á landi voru, er síður fólgið í því, að flýta fyrir bréfum, blöðum og bögglasendingum einungis, heldur en í hinu, að greiða fyrir ferðum manna og flutningum almennt, svo að fé og tími sparist; - vér lifum hvort sem er ekki á einum saman bréfum og bögglasendingum, og virðist mér ekki rétt, að stofna of mjög lífi manna og gripa í háska um miðjan harðindatímann hér á landi og við land, - einungis til þess að seðja bréfasýki vora. Menn ættu að gæta að táknum tímanna í þessu efni, og athuga, að sannar framfarir Íslands eru alls eigi komnar undir neinni ofurkeppni í þessa átt.
Í “bréfkafla frá Árnesingi” í Þjóðólfi 25. bl. F. á. var sú tillaga borin fram, að fjallvegir ættu, þar sem því yrði við komið, að vera akvegir, og get ég vel fallist á þessa skoðun höfundarins, enda þótt bréfkafli þessi flytti að öðru leyti Þjóðólfi of mikið af ýkjum, og skökkum, og að sumu leyti miður góðgjörnum fréttum. Þar sem fjallvegir liggja um brattalítil heiðalönd, annaðhvort upp frá kaupstöðunum eða milli héraða, væri ágætt, að landssjóður vildi byrja á því, að kosta nokkra vagnvegakafla, ekki svo mjög vegna þess, að hugsandi sé til, að leggja vagnvegi um allt þetta sæbratta, fjöllótta og strjálbyggða land fyrst um sinn, - sem vegna hins, að landsbúar þurfa að venjast meðferð og notkun vagna, og þurfa að fá beinar eða óbeinar hvatir til að læra að nota vagna við ýmsan flutning og margs konar störf á heimilum sínum. Gætu nokkrir vagnvegarkaflar í hverjum landsfjórðungi orðið til þessa, mætti því fé, sem til þeirra gengi, heita vel varið. Upphleyptu vegirnir eru hinir bestu akvegir, ef þeir eru vel vandaðir og nokkru breiðari, en lögin ákveða um fjallvegina. Mosfellsheiði væri mjög hentug til að vera lögð vagnvegi, - en hvað sem því líður, er lífsnauðsynlegt að bæta sem fyrst veginn á heiði þessari, - “og fyr er gilt en valið sé”.
Þingvelli við Öxará, 15. febr. 1881.
Jens Pálsson.