Matsáætlanir
  • Veglína í Mýrdal

Færsla Hringvegar (1) um Mýrdal - Matsáætlun

26.6.2023

Verið er að vinna að forhönnun veglínu um Mýrdal á grunni frumdraga frá árinu 2008 (Vegagerðin, 2008) og gildandi aðalskipulagi Mýrdalshrepps. Mat á umhverfisáhrifum verður unnið samhliða forhönnun veglínunnar til að tryggja að horft sé til umhverfissjónarmiða við útfærslu vegarins. Í matsáætlun er gerð grein fyrir hvernig áætlað er að staðið verði að mati á umhverfisáhrifum. Gerð er grein fyrir helstu framkvæmda- og áhrifaþáttum framkvæmdar, rannsóknaráætlun og fyrirhugaðri gagnaöflun. 
Vegagerðin auglýsti drög að matsáætlun 22. desember 2020, í samræmi við þágildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, og var auglýstur kynningartími til 1. febrúar 2021. Vegna samkomutakmarkana var haldinn opinn kynningarfundur um drögin á netinu þann 26. janúar 2021. Einnig var opið hús í Kötlusetri í Vík í Mýrdal þann 28. janúar, þar sem hægt var að nálgast fulltrúa Vegagerðarinnar og VSÓ Ráðgjafar og spyrjast fyrir um framkvæmdina og matsferlið og koma ábendingum og sjónarmiðum á framfæri. 
Í tengslum við matið hefur verið komið upp vefsjá þar sem hægt er að nálgast ýmsar landupplýsingar og senda inn ábendingar og athugasemdir. Í heild bárust 367 umsagnir og athugasemdir um drög að matsáætlun, þar af um 320 í gegnum vefsjá, sem brugðist hefur verið við í matsáætlun, sjá nánar í kafla 10.1.