Fréttir
  • Umferð á höfuðborgarsvæðinu
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum

Mikill umferðarþungi á höfuðborgarsvæðinu í september

umferðarmesti mánuður ársins

7.10.2014

Umferðin í september sl. var mjög mikil, jókst um 5,8 prósent frá september í fyrra. Þetta var umferðarmesti mánuður ársins og annar umferðarmesti mánuður frá upphafi en ríflega 140 þúsund bílar fóru um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar.

Milli mánaða 2013 og 2014
Áætlað er að umferðin hafi aukist um 5,8% á milli september mánaða 2013 og 2014. Þetta er önnur mesta aukning á milli mánaða, það sem af er ári, en þó í samræmi við það sem búist var við. Áætlað er að umferðin hafi dregist saman á Hafnarfjarðarvegi en aukist mikið um Reykjanesbraut og Vesturlandsveg. Samanlögð meðalumferð um mælisniðin þrjú var tæplega 140.200 bílar á sólarhring en sá fjöldi gerir þennan mánuð að þeim stærsta á þessu ári. Nýliðinn mánuður er einnig næst umferðarmesti mánuður frá upphafi. Apríl 2008, heldur enn metinu, en þá fóru rúmlega 140.800 bílar á sólarhring yfir sniðin. Þessi bílafjöldi, samsvarar því að næstum hver einasti íbúi á höfuðborgarsvæðinu, á aldursbilinu 17  - 80 ára, hafi ekið einu sinni á dag, yfir sniðin þrjú.

Milli áranna 2013 og 2014 m.v. árstíma
Nú er áætlað að umferðin hafi aukist um 3,3% frá áramótum og hefur slík staða ekki verið uppi síðan árið 2007. Þess ber þó að geta að staðan árið 2007 var talsvert önnur þ.e.a.s. umferðin hafði þá aukist um 8,8% á sama tíma.

Horfur út árið
Eftir að talnasafn hefur verið endurrýnt er staðan svipuð því sem áður hefur verið spáð þ.e.a.s. nú er gert ráð fyrir 3,3% aukningu.  Ætla má að mikið þurfi að gerast, það sem eftir lifir árs, til þess að þetta hlutfall raskist verulega.