Fréttir
  • Teigsskógur
  • Veglínur til skoðunar

Kæruferli óhjákvæmilegt

óskynsamlegt að láta reyna á endurupptöku fyrr en að loknu kæruferli

18.9.2014

Vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um að hafna því að ný leið um Teigsskóg fari í umhverfismat, og komi þannig til greina ásamt fleiri leiðum, er nauðsynlegt að kæra til að fá  niðurstöðu um það hvort að um nýja framkvæmd er að ræða eða ekki. Verði niðurstaðan sú að ekki sé um nýja framkvæmd að ræða þá mun reyna á endurupptöku á forsendum umhverfismatsins frá 2006. Ef ekki yrði kært núna myndi kærufresturinn þar að auki renna út, 10. október n.k. og sú leið þá ófær. 

Vegagerðin fylgir í þessu málsmeðferðarreglum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, ákvæði 1. mgr. 14. gr. laganna um málskot. Kærufresturinn er stuttur og mun Vegagerðin flýta kæru og málsmeðferð svo sem kostur er.

Vegna umræðu um endurupptöku á úrskurði Skipulagsstofnunar frá árinu 2006 þar sem leiðinni um Teigsskóg var hafnað er rétt að benda á að það á einungis við ef að um sömu framkvæmd er að ræða en Vegagerðin lítur svo á að hin nýja veglína Þ-H þar sem hún liggur um Teigsskóg sé ný framkvæmd enda ný veglína og verktilhögun ólík fyrri leið að því marki að rask á skógi verður mun minna. En um það hefur málið frá upphafi snúist, þ.e.a.s. rask á Teigsskógi.

Ekki er ljóst hvort hægt er að byggja málsmeðferð á því að framkvæmdin sé sú sama en samt sem áður hafi grundvallarforsendur hennar breyst, en það er skilyrði endurupptöku. Það er mikilvægt að eyða allri lagalegri óvissu um það hvernig eigi að fara með málið og það er úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem hefur það hlutverk að leysa úr álitaefninu.

Þar sem það er álit Vegagerðarinnar að um nýja framkvæmd sé að ræða er nýtt matsferli samkvæmt gildandi lögum rétta leiðin og í samræmi við núgildandi lög. Vegagerðin telur sér skylt að fylgja ákvæðum laga í þessu efni.

Taki úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála undir sjónarmið Skipulagsstofnunar skapast grundvöllur til endurupptöku.

Þetta þýðir ekki að aðrar leiðir komi ekki til greina, í tillögu að matsáætlun eru margar leiðir lagðar fram til skoðunar og Vegagerðin vill tryggja að þessi leið um Teigsskóg komi til skoðunar einsog aðrar leiðir meðal annars um utanverðan Þorskafjörð, leiðir A og I. Þar er hinsvegar mikið verk óunnið í rannsóknum og öðrum undirbúningi sem tengist mati á umhverfisáhrifum, þannig að Vegagerðin lítur ekki svo á að það myndi flýta málinu í heild að hætta við að hafa leiðina um Teigsskóg með sem einn af valkostunum.

Tillaga að matsáætlun fyrir Vestfjarðaveg (60) milli Bjarkalundar og Melaness