Fréttir
  • Umferðaröryggisráðstefna NVF á Íslandi
  • Umferðaröryggisráðstefna NVF á Íslandi
  • Umferðaröryggisráðstefna NVF á Íslandi
  • Umferðaröryggisráðstefna NVF á Íslandi
  • Umferðaröryggisráðstefna NVF á Íslandi

Mikill áhugi á norrænni ráðstefnu um umferðaröryggi

haldin á Íslandi á vegum Norræna vegasambandsins

4.6.2014

Umferðaröryggisnefnd Norræna vegasambandsins (NVF) heldur sína árlegu ráðstefnu á Íslandi 4. og 5. júní. Mikill áhugi er á ráðstefnunni en hana sækja ríflega 130 manns og þar af meira en 100 erlendis frá. Ekki hafa áður fleiri sótt ráðstefnuna, ekki svo elstu menn muni að minnsta kosti.


Umferðaröryggisnefndin er ein af 16 tækninefndum Norræna vegasambandsins en umferðaröryggi verður sífellt mikilvægara í starfi allra sem að umferð og vegagerð koma. Í hverju hinna norrænu ríkja er umferðaröryggisnefnd NVF sem hver á síðan fulltrúa í norrænu tækninefnd NVF sem heldur ráðstefnuna.

Auður Þóra Árnadóttir forstöðumaður umferðadeildar Vegagerðarinnar er formaður íslensku nefndarinnar og hún opnaði ráðstefnuna í dag. Þar fjallaði hún um slys í umferðinni á Íslandi og kom sérstaklega inná slys á hjólreiðafólki. Ljóst er að fjölgun hjólreiðafólks og hin mikla aukning hjólreiða, þýðir fleiri slys. Hin norrænu ríkin hafa mun meiri reynslu af hjólreiðum og hvað ber að varast, til dæmis við gerð hjólastíga. Því er mikilvægt fyrir Íslendinga að hafa aðgang að norrænum reynslubanka. Eða einsog einn norrænu gestanna sagði, þá er það afskaplega heilsusamlegt að hjóla en það getur verið hættulegt.

Lars Ekman frá sænsku Vegagerðinni sem stýrir sænsku tækninefndinni, fór yfir tölfræði banaslysa á Norðurlöndunum, en þróunin er ótrúlega svipuð og verður alltaf líkari og líkari. Hann lagði áherslu á að banaslys væru ekki einhver fasti heldur sýndi reynslan að það er hægt að hafa áhrif til að fækka banaslysunum. 

Svend Krarup Nielsen frá dönsku Vegagerðinni benti einmitt á mikilvægi áróðurs til að hafa áhrif það væri nauðsynlegt að upplýsa fólk hvað lægi að baki slysunum og segja frá ástæðu banaslysa. 

Einnig var fjallað um þjálfun þeirra sem rannsaka banaslys, skráningu sjálfsvíga í umferðinni, áreiðanleika upplýsinga frá lögreglu og sjúkrahúsum um slys og alvarleg slys og margt fleira. 

Þetta er dæmi þessa sem fjallað var um fyrri dag ráðstefnunnar en henni verður framhaldið fimmtudaginn 5. júní eða fyrir hádegi þann dag.