Fréttir
  • Kynning Reykjadalur

Endurbætur á Hringvegi í Reykjadal í Þingeyjarsveit. Laugar - Reykjadalsá

Kynning á verkinu

14.5.2014

Vegagerðin kynnir hér með framkvæmdir við öryggisaðgerðir á Hringvegi  í Reykjadal (1-q8) á kaflanum milli Lauga og Reykjadalsár í Þingeyjarsveit í Suður-Þingeyjarsýslu. Burðarþol núverandi vegar er orðið lélegt og vegurinn mishæðóttur. Margir ökumenn virða ekki þær hraðatakmarkanir sem eru á Hringveginum þar sem hann liggur í gegnum þéttbýlið á Laugum. Á þeim kafla eru margar vegtengingar sem sumar hverjar eru illa afmarkaðar og engin gangbraut. 


Vegarkaflinn sem á að lagfæra, styrkja og breikka er 6,3 km langur. Hann nær frá norðurenda þéttbýlisins á Laugum langleiðina að Reykjadalsá. Fyrirhugað er að gera úrbætur á öryggi vegfarenda. Vegfláar verða gerðir meira aflíðandi en í þéttbýlinu felast aðgerðirnar líka í uppsetningu á tveimur þéttbýlishliðum, afmörkun tveggja gangbrauta yfir Hringveginn, biðstöð fyrir almenningsvagna á lóð Dalakofans, skýrari afmörkun vegtenginga með kantsteinum og lokun tengingar að Iðnbæ.

Áætluð efnisþörf í framkvæmdina er um 78.000 m3. Fyrirhugað er að efni verði sótt skeringar og í þrjár námur sem allar eru opnar. Þær eru við Brúargerði, Hólkot og á Fljótsheiði. Námurnar eru allar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022. 

Fyrirhugað er að framkvæmdir hefjist sumarið 2014 en að þeim verði skipt í a.m.k. tvo áfanga. Áætlanir eru um að fyrri áfanga ljúki haustið 2015 en framkvæmdatími síðari áfanga ræðst af fjárveitingum.

Vegagerðin hefur sótt um framkvæmdaleyfi hjá sveitarstjórn Þingeyjarsveitar vegna fyrri áfangans sem felst í endurbótum á 2,9 km kafla sem hefst um 0,3 km norðan Lauga liggur í gegnum þéttbýlið og endar við Daðastaði.