Fréttir
  • Frá blaðmannafundi um sameiningu samgöngustofnana
  • Frá blaðmannafundi um sameiningu samgöngustofnana
  • Frá blaðmannafundi um sameiningu samgöngustofnana
  • Frá blaðmannafundi um sameiningu samgöngustofnana
  • Frá blaðmannafundi um sameiningu samgöngustofnana
  • Frá blaðmannafundi um sameiningu samgöngustofnana
  • Frá blaðmannafundi um sameiningu samgöngustofnana

Sameining samgöngustofnana

Tvær stofnanir taka við hlutverki fjögurra

1.7.2013

Í dag, 1. júlí, tóku til starfa tvær opinberar stofnanir á sviði samgöngumála. Annars vegar er um að ræða Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun á sviði samgöngumála, og hins vegar Vegagerðina, framkvæmdastofnun á sviði samgöngumála.

Með stofnun Samgöngustofu sameinast stjórnsýsla og eftirlit samgöngumála og færðust þangað öll verkefni Flugmálastjórnar Íslands og Umferðarstofu, auk stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar. Framkvæmdasvið og framkvæmdaeftirlit Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar starfa undir nafni Vegagerðarinnar.

Stofnunum er ætlað að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Báðar stofnanirnar heyra undir innanríkisráðuneytið og starfa samkvæmt lögum um samgöngustofnanir nr.119/2012, 120/2012 og 59/2013. Forstjóri Samgöngustofu er Hermann Guðjónsson en forstjóri Vegagerðarinnar er Hreinn Haraldsson.

Vegagerðin annast uppbyggingu, viðhald og rekstur samgöngukerfis ríkisins að flugvöllum undanskildum og sinnir stofnunin framkvæmdaeftirliti með uppbyggingu vega og hafna auk þess að hafa eftirlit með umferð, færð og ástandi vega. Enn fremur sinnir stofnunin rekstri og viðhaldi vita, sjómerkja og eftirlitskerfa sem og rekstri Landeyjarhafnar og ferjubryggja. Starfstöðvar Vegagerðarinnar eru 19 talsins og munu um 280 manns starfa hjá stofnuninni víðs vegar um landið. 

Samgöngustofa fer skv. lögunum með stjórnsýslu samgöngumála og annast þau og eftirlit er lýtur að flugmálum, hafnamálum og málum er varða sjóvarnir, siglingamál, umferðarmál og vegamál. Markmið stofnunarinnar er að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum.   Meðal helstu verkefna Samgöngustofu er skráning skipa, flugvéla og bifreiða, leyfisveitingar og eftirlit á sviði siglinga, flugs og umferðar, menntunarmál áhafna og einstaklinga er varða samgöngur, skírteinisútgáfa, öryggisáætlanir er varða loft, láð og lög, rannsóknir, skráning og greining slysa og fræðslumál. Stofnunin ákveður kröfur til samgöngumannvirkja og hefur eftirlit með að þeim sé fylgt. Þá annast stofnunin samskipti við alþjóðastofnanir á sviði samgangna og gætir þar íslenskra hagsmuna. Hjá Samgöngustofu munu starfa um  160 manns.

Stofnanirnar munu fyrst um sinn starfa í sama húsnæði og áður og hefur öllum starfsmönnum verið boðið áframhaldandi starf hjá nýju stofnunum.

Sameining af þessum toga felur vissulega í sér miklar og verkfrekar breytingar en allt kapp verður lagt á að þjónusta við almenning verði áfram eins og best verður á kosið.  Starfsfólk Samgöngustofu og Vegagerðarinnar hlakkar til þess að sameina krafta sína og takast á við verkefni sem miða að auknum lífsgæðum í gegnum bætt öryggi í samgöngum í lofti, láði og legi.   

Meðfylgjandi myndir voru teknar á blaðamannafundi þar sem sameining var kynnt, nokkur fjöldi starfsmanna hinna nýju stofnana sótti fundinn.