Fréttir
  • Umferðin síðan 2005 með spá fyrir 2013
  • Umferðin í höfuðborginni eftir mánuðum

Mikil aukning í umferð á höfuðborgarsvæðinu í apríl

spáð er töluverðri aukningu í ár

6.5.2013

Umferðin í apríl, mæld í þremur mælisniðum á höfuðborgarsvæðinu, reyndist níu prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra. Þetta er öfugt við það gerðist á Hringveginu í apríl þar sem umferðin dróst saman. Hér getur tíðarfarið skipt máli og einnig hvenær ársins páskarnir eru.

Það sem af er ári hefur umferðin á höfðuborgarsvæðinu aukist um fjögur prósent og samkvæmt spá Vegagerðarinnar stefnir í að í ár nemi aukningin þremur prósentum.

Milli mánaða 2012 og 2013

Tæplega 9% aukning varð í akstri innan höfuðborgarsvæðisins í nýliðnum apríl mánuði miðað við sama mánuð árið 2012.

Það hefur sýnt sig að verið hefur ákveðið samband á milli samdráttar í akstri á Hringvegi og aukningar í akstri innan borgarmarka og svo öfugt. Því þarf það ekki að koma á óvart að vegna slæms tíðarfars í apríl má leiða líkur að því að höfuðborgarbúar hafi, í minna mæli, farið út á land/Hringveginn nú í apríl miðað við apríl á síðasta ári, enda eins og áður hefur komið fram bætist það einnig við að páskarnir voru í mars þetta árið en í apríl í fyrra.

Umferðin eykst mikið í öllum mælisniðum en þó mest um Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi en þar mælist rúmlega 10% aukning miðað við síðasta ár.

Frá áramótum milli áranna 2012 og 2013

Miðað við fjóra fyrstu mánuði ársins 2013 hefur akstur innan höfuðborgarsvæðisins aukist talsvert eða um 4% borið saman við sama tímabil í fyrra. Svona mikil aukning miðað við árstíma hefur ekki mælst síðan metárið 2008, innan höfuðborgarsvæðisins. 

Horfur út árið 2013

Nú stefnir í að umferðin verði meiri en árið 2009 en einungis árin 2007 og 2008 hafa mælst stærri, í þessum þremur mælisniðum. Búast má því við um 3% aukningu í akstri innan borgarmarkanna nú í ár miðað það sem af er ári.