Fréttir

Tilkynning vegna óveðurs

28. - 29. desember 2012

28.12.2012

Vegna óvenju slæmrar veðurspár laugardaginn 29. des. og mikils fannfergis víðast á vestur- og norðanverðu landinu vill Vegagerðin taka eftirfarandi  fram um færð og þjónustu á vegum ef veðurspá gengur eftir:

Á láglendi verður hiti víðast ofan frostmarks í dag og rigning eða slydda með köflum í flestum landshlutum, en heldur vaxandi snjókoma á fjallvegum ofan 250-300 metra annars staðar en norðaustanlands. Á Vestfjörðum er vaxandi NA-átt, skafrenningur og hríð á heiðum. Gengur þar í 20-25 m/s síðdegis með stórhríð.

Spáð er síðan NNA stormi og ofsaveðri með ofankomu frá Snæfellsnesi og Dölum, norður um Vestfirði og áfram austur í Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur.

Gert er ráð fyrir að ófært verði á flestum fjallvegum á þessum svæðum og verður að telja afar líklegt að snjóhreinsun verði tilgangslítil er líður á kvöldið og á morgun laugardag. Á svæðinu um Vesturland, Vestfirði og Norðurland verður því mjög takmörkuð vetrarþjónusta á föstudagskvöld og á laugardag vegna veðurs og er fólki eindregið ráðlagt að halda sig heima við á meðan veðrið gengur yfir.

Vegna snjóflóðahættu  verður vegum á  Vestfjörðum um Súðavíkur- og Kirkjubólshlíð  lokað um miðjan föstudag og mun lögreglan á Vestfjörðum gefa út yfirlýsingu um aðra hættulega snjóflóðakafla, t.d. Flateyrarveg, Eyrarhlíð í Skutulsfirði, Botnsdal í Súgandafirði og Bjarnardal í Önundarfirði. Á laugardag má búast við að á Norðurlandi verði Ólafsfjarðarvegi norðan Dalvíkur lokað og búast má við lokun á Siglufjarðarvegi í Mánárskriðum og á veginum um Dalsmynni í Fnjóskadal. 

Víða má búast við snörpum vindhviðum, m.a. 40-60 m/s á sunnanverðu Snæfellsnesi og 30-40 m/s á Kjalarnesi á laugardag.