Fréttir
  • Fiskidagurinn mikli 2012
  • Fiskidagurinn mikli 2012
  • Fiskidagurinn mikli 2008 - 2012

Margir á Fiskideginum mikla

Sé tekið mið af umferðarteljurum Vegagerðarinnar

14.8.2012

Með mjög grófum útreikningum og öllum fyrirvörum má gefa sér að allt að 25 þúsund manns hafi heimsótt Dalvík á Fiskideginum mikla í ár. Vegagerðin er með umferðarteljara á Hámundarstaðarhálsi austan Dalvíkur og annan teljara hinu megin bæjarins.

Um fyrri teljarann fóru tæplega 15000 bílar dagana 10. - 12. ágúst. Og um hinn teljarann fóru nokkuð innan við 6000 bílar þessa daga. Ef tekið er meðaltal á fjölda í bíl og reynt að draga frá aðra umferð þá má áætla að allt að 25 þúsund manns hafi komið á Fiskidaginn mikla þessa daga.

 

Vegagerðin hefur haft umferðarteljara við Hámundastaðaháls, rétt austan Dalvíkur frá því sumarið 2008 og annar teljari hefur verið staðsettur norðan við Dalvík, rétt sunnan Múlaganga a.m.k. frá 1998. Það er því talið í báðar áttir sitt hvoru megin Dalvíkur frá árinu 2008.

Vegagerðin hefur stundað rannsóknir á umferðarvenjum Íslendinga til fjölda ára með umferðarkönnunum og hafa niðurstöður þeirra kannana bent til þess að meðal fjöldi persóna í hverjum bíl sé u.þ.b. 2,6 http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/Kannanirl/umferdarkannanir/

Með þetta í huga er hægt að skoða talningar frá áður nefndum talningastöðum og reikna út fjölda bíla sem þar fara um frá föstudegi til sunnudags og helminga þann fjölda þ.e. teljarar telja í báðar áttir. Það er því reynt að komast hjá tvítalningu þótt ekki sé hægt að útiloka slíkt. En að mati Vegagerðar virka aðrar óþekktar breytur, svo sem umferð fram hjá mæli, umferð í gegnum Dalvík og svo umferð Dalvíkinga sjálfra bæði til tekna og til frádráttar, þær teljast því vega hverja aðra upp.

Niðurstöður þessara athugana leiða í ljós að dagana 10. til 12. ágúst sl. fóru 19 þús. persónur aðra leiðina um Hámundastaðaháls og 7 þús. um Múlann. Samanlagður fjöldi persóna er því um 26 þús. manns. Þessi fjöldi kemur heim og saman við það sem Dalvíkingar halda fram eða að um 25 þús. manns hafi heimsótt staðinn um helgina.

Niðurstaðan er því sú að þessari aðferð má e.t.v. beita á heimsóknarfjölda til Dalvíkur á Fiskidaginn mikla í fortíð og framtíð.

Sé fortíð skoðuð eins langt og mælingar ná, sjá meðfylgjandi línurit, sýnir það að mestur fjöldi hafi heimsótt Dalvík um þessa helgi árin 2009 og 2010 eða um 30 þús. manns hvort ár.

 

Fiskidagurinn mikli 2008 - 2012