Fréttir
  • Samgönguáætlanir kynntar á blaðamannafundi
  • Samgönguáætlanir kynntar á blaðamannafundi
  • Samgönguáætlanir kynntar á blaðamannafundi

Tólf ára og fjögurra ára samgönguáætlanir

innanríkisráðherra lagði þær fram á Alþingi 14. desmeber

15.12.2011

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi þann 14. desember þingsályktunartillögur um bæði fjögurra ára og tólf ára samgönguáætlun. Sú lengri hefur að geyma stefnumótum en styttri áætlunin er verkefnaáætlun.

Áherslur innanríkisráðherra við gerð samgönguáætlananna voru félagshagfræðileg greining við forgangsröðun verkefna, efling almenningssamgangna, mælanleg markmið, núllsýn í umferðaröryggismálum, loftslagsmál, hlutverk samgangna við tengingu landsvæða og landsins alls, samþætting við aðrar áætlanir ríkisins, samgöngukostnaður heimilanna, greiðfærni og áreiðanleiki samgangna og jákvæð byggðaþróun.

Áætlanirnar eru unnar samkvæmt lögum um samgönguráð. Vegagerðin gerir tillögu um vegamál til samgönguráðs sem síðan vinnur áfram með þær. Í samgönguráði sitja vegamálastjóri, siglingastjóri, flugmálastjóri, forstjóri Umferðarstofu og formaður skipaður af ráðherra sem er Dagur B. Eggertsson. Ráðherra fær samgönguáætlanir samgönguráðs og leggur sínar áherslur og gerir breytingar, hann leggur þær síðan fram sem þingsályktunartillögur á Alþingi.

Tekjur og framlög til verkefna tólf ára samgönguáætlunar eru alls 296 milljarðar króna. Stærsta hluta þess fjármagns á að verja til vegamála eða 240 milljörðum.

Meðal verkefna sem lokið verður á gildistíma 12 ára samgönguáætlunar og kosta yfir einn milljarð króna er ný brú yfir Hornafjarðarfljót ásamt vegagerð, ný brú yfir Ölfusá norðan Selfoss og breikkun vegar milli Selfoss og Hveragerðis og um Hellisheiði, vegarkafli á sunnanverðum Vestfjörðum og fjölmörg verkefni á Suðvesturlandi sem tengjast bættu umferðarflæði. Þá verður gert átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi um land allt fyrir tæpa 6 milljarða króna á áætlunartímabilinu.

Meðal verkefna sem hefja á má nefna breikkun Vesturlandsvegar, nýjan veg um Dynjandisheiði, Suðurfjarðarveg og Axarveg.

Gert er ráð fyrir að lokið verði við gerð Norðfjarðarganga árið 2018, Dýrafjarðargöng árið 2022 og Hjallahálsgöng einnig 2022 (ef láglendisleið verður ekki fyrir valinu).

Sjá frétt á vef innanríkisráðherra

Fréttatilkynning

Kynningarglærur

Samgönguáætlun 2011-2022 þingsályktunartillaga

Fjögurra ára samgönguáætlun þingsályktunartillaga