Fréttir
  • Umferðin um Bolungarvíkurgöng og Óshlíð

Fleiri um Bolungarvíkurgöng í ár en Óshlíð í fyrra

aukningin nemur tveimur prósentum

26.9.2011

Umferð um Bolungarvíkurgöng hefur aukist um 2 prósent, það sem af er ári, borin saman við sama tímabil um Óshlíð árið 2010.

Eins og staðan er nú á aukningin sér fyrst og fremst stað í umferð um helgar þ.e.a.s. aðeins dregur úr umferð á virkum dögum eða um 0,2% meðan umferðin um helgar eykst um 9%, sem er glöggt merki um að atvinnutengd umferð standi í stað og hafi ekki breyst meðan umferð ferðamanna og umferð fólks í einkaerindum eykst talsvert.

Það er því ekki úr vegi að álykta sem svo að umferð ferðamanna hafi aukist til og frá Bolungarvík, jafnframt því að heimamenn noti göngin meira í einkaerindum um helgar miðað við Óshlíðina árinu áður.  

 

Hér sjást niðurstöður miðað við það sem af er árinu 2011, borið saman við sama tímabil um Óshlíð árið 2010:

Meðalumferð

 

Eins og fyrr var sagt hefur umferðin um Bolungarvíkurgöng aðeins aukist um 2%, sé miðað við sama tímabil um Óshlíð árið 2010. Til samanburðar hefur umferð um Klettsháls aukist um 18% og Ögur um 21%.

ÁDU (árdagsumferð eða meðaltal umferðar á sólarhring á heilu ári) um Óshlíð reyndist 776 bílar/sólarhring eftir að leiðrétt hafði verið fyrir opnun ganganna, en áætlanir ganga út frá því að ÁDU árið 2011 um Bolungarvíkurgöng verði um 792 bílar/sólarhring.

Eins og sést á meðfylgjandi töflu, fyrir það sem liðið er af árinu 2011, var meðalumferð virka daga (mv) 4,0% yfir meðalumferðinni (mua) og meðalumferð um helgar (mh) er 9,7% undir undir (mua).

Fyrir sama tímabil um Óshlíð árið 2010 var (mv) 6,3% yfir (mua) og (mh) 16% undir (mua).

Þetta gæti gefið vísbendingar um að hlutfall ferðamanna, í umferðinni, um Bolungarvíkurgöng hafi aukist borið saman við Óshlíð árið 2010.