Fréttir
  • Héðinsfjörður

Vegagerðin sýknuð af kröfu ÍAV vegna útboðs Héðinsfjarðarganga

ÍAV sýndi ekki fram á tjón

29.6.2011

Vegagerðin (Íslenska ríkið) var 29. júní sýknuð af kröfu Íslenskra aðalverktaka hf og NCC International as um skaðbætur vegna þess að hætt var við útboð Héðinsfjarðaganga, fyrra útboð sem opnað var í lok maí 2003. Hæstiréttur hafði kveðið upp dóm um að skaðbótaskylda væri fyrir hendi. 

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að ÍAV og NCC hefðu ekki sýnt fram á að um tjón hefði verið að ræða. Dómurinn hafnaði útreikningum þess efnis og einnig lægri útreikningum matsnefndar þar sem þeir útreikningar hefðu byggst á sömu forsendum og upplýsingum og útreikningar ÍAV. Kröfunni var því hafnað. 

 

Niðurlag dómsins:

Fallast má á það með stefnendum að örðugt er að færa sönnur á raunverulegt tjón þeirra vegna ákvörðunar stefnda um að hafna tilboði þeirra í gerð Héðinsfjarðarganga. Þrátt fyrir yfirlýsingu þeirra um að ekki sé unnt að afla frekari gagna og að kröfum þeirra verði ekki hagað á annan hátt en að framan greinir, telur dómurinn engu að síður að stefnendur búi báðir yfir ýmsum upplýsingum og gögnum um rekstur, verkefni og afkomu fyrirtækjanna á þeim tíma sem hér skiptir máli, þ.á m. úr bókhaldi þeirra, sem ætla má að hefðu betur verið fallin til að styðja við kröfur þeirra og málatilbúnað að öðru leyti. Ekki er þá síst til þess horft að engra upplýsinga nýtur við um verkefni NCC International AS á umræddum tíma, né um reynslu fyrirtækisins af jarðgangagerð eða sambærilegu verkefni og hér er fjallað um, hvað þá um afkomu þess af slíkum verkefnum. Var stefnendum í lófa lagið að afla þeirra gagna og leggja þau fram. Það gerðu þeir þó ekki, en kusu þess í stað að reisa kröfur sínar á fyrirliggjandi gögnum, sem dómurinn telur allsendis ófullnægjandi. Af því leiðir að telja verður ósannað að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni vegna ákvörðunar stefnda um að hafna tilboði þeirra í gerð Héðinsfjarðarganga. Af sömu ástæðu brestur forsendur til þess að ákveða stefnendum bætur að álitum. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda.

Eins og mál þetta er vaxið, svo og með hliðsjón af 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

 

Dómurinn í held sinni á vef Héraðsdóms Reykjavíkur.