Fréttir
  • Herjólfur

Endanleg ákvörðun er skipstjórans

Að gefnu tilefni ítrekar Vegagerðin að endanleg ákvörðun um hvort siglt sé til Landeyjahafnar er alfarið í höndum skipstjóra Herjólfs.

21.1.2011

Vegagerðin, sem umsjónaraðili styrktra ferjusiglinga, hefur litið svo á að Landeyjahöfn sé aðalhöfn milli lands og Vestamannaeyja, þangað sé siglt sé þess nokkur kostur. Siglt sé til Þorlákshafnar ef ekki er fært í Landeyjahöfn þótt það feli í sér töluverðan aukakostnað fyrir Vegagerðina og það takmarkaða fé sem varið er til almannasamgangna.

Að gefnu tilefni ítrekar þó Vegagerðin að endanleg ákvörðun um hvort siglt sé til Landeyjahafnar eða Þorlákshafnar er alfarið í höndum skipstjóra Herjólfs hverju sinni. Skipstjórinn ber ábyrgð á skipi, farþegum, áhöfn og farmi og það er ekki raunhæft að farið sé fram á að tekin sé nokkur áhætta vegna siglinga milli lands og Eyja þar sem öryggi farþega og áhafnar er mikilvægast. Þá ber einnig að hafa í huga mikilvægi Herjólfs fyrir samgöngur til Vestmannaeyja og þau vandræði sem myndu skapast ef Herjólfur lenti í óhappi sem kæmi í veg fyrir siglingar ferjunnar.