Fréttir
  • Fundur um veggjöld

Ekki framkvæmdir án veggjalda

ekki á meðan ríkissjóður er tómur segir innanríkisráðherra

7.1.2011

Skýrt kom fram hjá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra í gær að ekki er mögulegt að fara í tugmilljarða króna framkvæmdir við breikkanir vega út frá höfuðborginni meðan ekkert fé er til í ríkissjóði, nema með veggjöldum. Þetta kom fram á fundi með sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum vegna framkvæmda á suðvesturhorni landsins. 

Ráðherra benti á að í heild myndu framkvæmdirnar kosta langleiðina í 30 milljarða króna sem væri mikið fé miðað við að ekki væru nema 6 milljarðar króna ætlaðir í nýframkvæmdir í vegagerð á landinu öllu í ár. Almenn andstaða var á fundinum við veggjöld en menn hinsvegar áfram um að farið yrði í framkvæmdirnar sem fyrst.

Um er að ræða, eins og kom fram í kynningu Hreins Haraldssonar vegamálastjóra í upphafi fundarins, breikkun Suðurlandsvegar frá Reykjavík austur fyrir Selfoss, breikkun Vesturlandsvegar að Hvalfjarðargöngum og breikkun Reykjanesbrautarinnar í gegnum Hafnarfjörð og suður fyrir álverið í Straumsvík.

Hreinn fór yfir forsöguna og hvernig barist hefur verið fyrir tvöföldun sérstaklega Suðurlandsvegar á undanförnum árum og misserum. Vegagerðin hafði hannað 2+1 veg til Hveragerðis en ákvörðun var eigi að síður tekin um að vegurinn yrði 2+2 vegur alla leið. Þeirri ákvörðun var síðan breytt eftir efnahagshrunið og ákveðið að fara blandaða leið með bæði 2+1 og 2+2 vegum. Unnið er eftir þeirri áætlun nú. Miðað er við 2+2 veg á Reykjanesbrautinni en 2+1 veg á Vesturlandsvegi.

Hreinn gerði grein fyrir að Alþingi hefði með samgönguáætlun og sérstaklega með samþykkt frumvarps um stofnun opinbers hlutafélags um þessar vegaframkvæmdir markað þá braut að lán til að fjármagna þessar tilteknu framkvæmdir skuli greiða til baka með veggjöldum..

Langflestir sveitarstjórnarmenn og þingmenn sem tóku til máls á fundinum lýstu sig andvíga veggjöldum á mismunandi forsendum. Nokkrir tóku þó undir það að notendagjöld, sem kæmu í staða bensíngjalds og annarra gjalda sem renna til vegagerðar, væru framtíðarleið, en þau þyrftu þá að ná til landsins í heild. Ekki mætti mismuna landsmönnum né tvískatta suma þeirra.

Ögmundur Jónasson ítrekaði í máli sínu að hér væri um það val að ræða að fara þessa leið og greiða framkvæmdirnar með veggjöldum eða fara hana ekki. Hann vildi vera alveg hreinskilinn í þeim efnum og taka þá umræðu núna en ekki seinna. Hann væri einnig til viðræðu um að fara ódýrari leiðir ef þær næðu markmiðunum sérstaklega markmiðinu um stóraukið umferðaröryggi.

 

Fundur um veggjöld í innanríkisráðuneytinu

 

Fundur um veggjöld í innanríkisráðuneytinu

 

Fundur um veggjöld í innanríkisráðuneytinu

 

Fundur um veggjöld í innanríkisráðuneytinu