Fréttir
  • Umferðin um verslunarmannahelgina

Meiri umferð um verslunarmannahelgina en í fyrra

mikil aukning á umferð um Vesturlandsveg

3.8.2010

Umferðin um verslunarmannahelgina var nærri sjö prósentum meiri en síðustu helgina í júlí í ár og rúmum þremur prósentum meiri en um verslunarmannahelgina í fyrra.  

Umferðin um verslunarmannahelgina reyndist þó ekki sú mesta í sumar því meiri umferð var á sex talningarstöðum í nágrenni höfuðborgarinnar helgina 16. - 18. júlí.

Til þess að nýliðin helgi sé samanburðarhæf við aðrar helgar sumarsins er henni skipt upp í tvö samanburðartímabil hér á eftir, þ.e.a.s. 1) föstudagur-sunnudagur og 2) föstudagur-mánudagur.

1) 6,8% aukning varð á milli helgarinnar sem var að líða og næstsíðustu helgar. Er þessi aukning nokkuð meiri en Vegagerðin hafði spáð fyrir um, þar sem helgarumferð sumarið 2010 hafði einungis einu sinni áður orðið meiri en helgarumferð árið 2009 þar til nú, samanber fyrri frétt af helgarumferð.

Nýliðin helgi er 3,1% stærri en sambærileg helgi árið 2009. Aukningin er fyrst og fremst borin uppi af gríðarlegri aukningu, sem varð um Vesturlandsveg eða um 13%, borin saman við sama tímabil árið 2009. Þessu til stuðnings má geta þess að á sama tíma varð 4,6% samdráttur um Suðurlandsveg, þrátt fyrir þá umferð sem reikna mætti með að bættist við vegna nýju Landeyjahafnarinnar.

Nýliðin þriggja daga, helgi náði þó ekki að fara upp fyrir helgina 16-18 júlí. sem verður afar líklega stærsta þriggja daga umferðarhelgi þessa sumars, sjá stöplarit.

2) Sé tekið tillit til mánudagsumferðar og sú fjögurra daga helgi borin saman við sömu helgi árið 2009, verður útkoman eftirfarandi:

13,0% aukning um Vesturlandsveg en 5,7% samdráttur um Suðurlandsveg eða í heildina 2,4% aukning miðað við sömu helgi árið 2009, sjá meðfylgjandi talnaefni.

Aukningu um Vesturlandsveg telur Vegagerðin að megi fyrst og fremst rekja til landsmóts UMFÍ í Borgarnesi. Landsmót UMFÍ var haldið á Sauðárkróki árið 2009, því mætti í fyrstu ætla að um svipaða umferð yrði um að ræða nú í ár. En þá ber að líta til nálægðar Borgarness við höfuðborgarsvæðið og ljóst þykir að margir íbúar þess hafa valið að keyra á milli höfuðborgarinnar og Borgarness alla dagana í stað þess að gista yfir nótt, af því leiðir þessi mikla aukning nú.