Fréttir
  • Helgarumferðin

Minni umferð um síðustu helgi

umferðin minni en helgina áður og líka minni en í fyrra

27.7.2010

Enn dregur heldur úr umferðinni um helgar í nágrenni höfuðborgarinnar. Umferðin var ríflega 9 prósentum minni um síðustu helgi en helgina þar áður. Umferðin var um prósenti minni um helgina en sömu helgi í fyrra en nákvæmlega jafnmikil og fyrir tveimur árum, árið 2008.

Þetta er í samræmi við það sem gerst hefur undanfarin ár en þá dregur úr helgarumferðinni þegar líður á sumarið einsog sjá má á meðfylgjandi lstöplariti.

Rúmlega 9 prósenta samdráttur varð á umferð milli síðustu tveggja helga í júlí, (samanber myndina með þessari frétt sem er stöplarit um helgarumferð sumarið 2010). Er þetta í samræmi við tilgátu Vegagerðarinnar um að líklega sé umferðarmesta helgin þetta sumarið liðin, þ.e.a.s. helgin 16. - 18. júlí. Sé tekið mið af helgarumferð síðustu ára má búast við því að smám saman fari að draga úr umferð milli helga.

Sé sama helgi árið 2009 notuð til samanburðar var 5,6 prósenta samdráttur á umferð austur um fjall, en aftur á móti 5,1 prósenta aukning norður um. Heildarniðurstaðan er sú, að um 1 prósents samdrátt er að ræða milli áranna 2009 og 2010. Um síðustu helgi var nánast sama umferð, upp á bíl, og sömu helgi árið 2008 eða einungis 46 bílum færra í ár.

Næsta helgi er verslunarmannahelgin og má því búast við meiri umferð en um þá helgi sem var að líða. Sé stöplaritið yfir allt sumarðið skoðað og haft í huga að helgarumferð sumarið 2010 hefur einungis einu sinni orðið meiri en árið 2009, má ekki búast við meira en 2,5 prósenta aukningu milli helga.


Rétt er að benda á að allar umferðartölur miðast við föstudaga, laugardaga og sunnudaga, samanber meðfylgjandi töflu yfir umferðina.

Athugið að tölurnar fyrir 2010 eru órýndar

Frekari upplýsingar gefur Friðleifur I Brynjarsson í síma 522-1817 eða í fib@vegagerdin.is