Fréttir
  • Markarfljót 16. apríl

Búið að fylla í varnargarð og loka rofi í vegi

framkvæmdir við Hringveg við Markarfljót ganga vel

17.4.2010

Fyrir hádegi í dag 17. apríl var búið að fylla upp í varnargarð austan við nýju brúna yfir Markarfljót á Hringvegi. Einnig er búið að fylla upp í veginn þar sem hann var rofinn næst brúnni. Þannig er búið að veita öllu vatni Markarfljóts undir brúna og því unnt að hefjast handa við lagfæringar á veginum við brúna yfir Seljalandsá austan Markarfljótsbrúarinnar.

Nauðsynlegt er að grjótverja varnargarðinn og hugsanlega líka veginn næst Markarfljótsbrúnni til þess að ágangurinn og hugsanleg flóð eyðileggi ekki það verk sem þegar er unnið. Óvíst er hvenær vegurinn verður opnaður, náttúran ræður þar miklu um, auk þess er vegurinn hvort eð er lokaður fyrir austan undir Eyjafjöllum vegna öskufalls.

Unnið var fram í myrkur í gær en nú um hádegi á laugardegi er meðal annars unnið við að ýta efni í leiðigarðinn, grjótverja varnargarðinn og síðan þarf að grjótverja leiðigarðinn einnig. Grjótið er sótt í námu upp á Seljalandsheiði, námunni sem nýtt var til að ná í efni í grjótvörn hafnargarða Landeyjahafnar.

Á myndinni hér fyrir neðan sem Þórdís Högnadóttir, jarðvísindastofnun Háskólans tók um borð í flugvél Landhelgisgæslunnar 14. apríl sjást hluti skemmdanna og þær viðgerðir sem þarf að fara í til að unnt verði að opna fyrir umferð:

Loftmynd Markarfljót 14. apríl

Hér að neðan sést að leiðigarðurinn við Markarfljótsbrúna nýju er skemmdur og hann þarf að lagfæra til vatnið fari rétta leið og skemmi ekki veginn sem hefur verið lagaður:


Markarfljót 16. apríl

Hér að neðan sést hvar flóðin sem komu að kvöldi hins 15. april og um nóttina brutu niður veginn fyrir austan Markarfljótsbrúna, vinna við lagfæringar þarna hefjast núna þegar búið er að ná að veita fljótinu undir brúna og frá veginum:

Markarfljót 16. apríl

 

Léttur Mjólkurbíll, selflytur mjólk yfir gömlu Markarfljótsbrúna, í gær 16. apríl. Brúarsérfræðingar Vegagerðarinnar höfðu þá tekið brúna út og metið það svo að ökutæki allt að 12 tonnum gætu farið yfir brúna. Í kjölfarið voru þessi flutningar heimilaðir. Sjá má á stöplinum við framhjól mjólkurbílsins að þar hefur hann sigið, en það gerðist eftir að nýja brúin var tekin í notkun. Brúin stendur sig annars mjög vel miðað við aldur en hún var tekin í notkun árið 1933:

Markarfljót 16. apríl