Fréttir
  • Herjólfur

Samið við Eimskip um siglingar Herjólfs

litið á tímabilið til 1. sept. 2011 sem reynslutímabil

25.2.2010

Vegagerðin hefur lagt grunn að samningi við Eimskip um siglingar á Landeyjahöfn frá og með 1. júlí næstkomandi. Eftir er að ganga frá smærri atriðum varðandi samninginn. Gildandi samningur við Eimskip sem tók gildi 1. janúar 2006 gildir út árið 2010. Hann er með ákvæði um möguleika á framlengingu um 2 ár. Nauðsynlegt er að gera nýjan samning en kostnaðarsamt hefði verið að segja upp núverandi samningi frá og með miðju sumri og fara í útboð til dæmis. Því var þessi leið fyrir valinu. Litið er á þetta sem reynslusamning meðan menn eru að átta sig á rekstrinum á gjörbreyttri leið en samningurinn við Eimskip gildir einungis til 1. september 2011.

Samningur verður um 1360 ferðir á ársgrundvelli með möguleika á að fjölga ferðum ef eftirspurn verður mikill og að fækka ferðum ef eftirspurn verður lítil í einhverjum ferðum.

Vestmannaeyjabær lagði til að miðað yrði við 1360 ferðir á ári samkvæmt auglýstri ferðaáætlun, og síðan yrðu 100 ferðir til viðbótar upp á að hlaupa utan áætlunar, eftir síðari ákvörðun. Ákveðið hefur verið að verða við þeirri ósk og setja upp áætlun miðað við þessar 1360 ferðir og óskað eftir aðkomu bæjaryfirvalda við að setja upp áætlunina. Jafnframt var þeim kynnt að yrði möguleiki væri á fjölgun ferða ef eftirspurn verður mikil.

Bæjaryfirvöld hafa lagt fram hugmyndir um gjaldskrá og er miðað við að fallist verði á þær. Óskað er eftir viðræðum milli Vestmannaeyjabæjar, Eimskips og Vegagerðarinnar um möguleg afsláttarkjör, sem einkum myndu nýtast heimamönnum.

Vegagerðin hefur óskað eftir því við Vestmannaeyjabæ að bærinn...

1.  Komi með tillögu að tímasettri ferðaáætlun sem miðist við 1360 ferðir á ári og rúmist innan 14 tíma, þ.a. hvíldarákvæði sjómanna verði virt.

2.  Komi með tillögur að einhvers konar afsláttarkjörum sem munu nýtast heimamönnum betur og/eða komi að umræðum um stefnumörkun í þessum málum með Eimskip og Vegagerðinni.

3.  Viðræður um hafnargjöld í Vestmannaeyjum.  Gert er ráð fyrir sömu hafnargjöldum og verið hefur og ef þau verða hækkuð mun gjaldskrá ferjunnar hækka.  Gjaldskrá 1.000 kr. fyrir fullborgandi og 1.500 kr. fyrir fólksbíl með fyrirvara um að hafnargjöld og laun hækki ekki 1. júlí.

4.  Komi að markaðssetningu með Eimskip með það að markmiði að fjölga farþegum með ferjunni og þar með gestum til Vestmannaeyja.