Fréttir
  • Frá fundi Sniglanna og Vegagerðarinnar

Vegagerðin og Sniglarnir eiga mörg sameiginleg hagsmunamál

sameiginlegur fundur um umferðaröryggi

27.5.2009

Sniglarnir, Bifhjólasamtök lýðveldisins og Vegagerðin eiga mörg sameiginleg hagsmunamál. Þessi mál voru rædd á fundi nú í maí að frumkvæði umferðarnefndar Sniglanna sem lætur sig varða umferðaröryggi og forvarnir sem og önnur hagsmunamál bifhjólamanna. Umferðaröryggi er einnig efst á lista Vegagerðarinnar. Til að fækka slysum eru menn sammála um að sameina kraftana til að ná sem bestum árangri.

Fundurinn var haldinn að frumkvæði Sniglanna en samtökin eru 25 ára á þessu ári og hafa efnt til ýmissa uppákoma af því tilefni, s.s. hópaksturs, kynninga á samtökunum ásamt átaki í fræðslu og upplýsingagjöf.

Í dag eru um 9000 hjól í notkun á landinu en þau voru um 2000 fyrir tíu árum. Slysum á bifhjólum hefur einnig fjölgað en þó ekki í samræmi við fjölgun bifhjóla. Fyrir 10 árum voru alvarleg slys á bifhjólum 16 en þau voru 36 í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu er allt að því fimm sinnum meiri hætta á að lenda í bifhjólaslysi en bílslysi. Er þetta hlutfall sambærilegt við það sem gengur og gerist í öðrum vestrænum löndum.

Fall af hjóli er ein algengasta ástæða bifhjólaslysa og má leiða líkur að því að þjálfun bifhjólamanna, ásamt ástandi slitlags sé aðalorsakavaldur slíkra slysa. Er því mikilvægt að þessir tveir þættir séu skoðaðir vandlega og leitað úrbóta.

Á fundinum benti umferðarnefnd Sniglanna á að víða eru hættulegir kaflar á vegakerfinu og þá einkum fyrir bifhjólafólk.

Þá bentu Sniglarnir á að spor og samskeyti á bundu slitlagi, lausamöl í beygjum og við vegamót, lausamöl vegna blettaviðgerða á slitlagi væru mjög varhugaverð fyrir bifhjólafólk.  Þá var einnig rætt um hættu sem getur stafað af hálum yfirborðsmerkingum, lágum skiltamerkingum (vegvísum) sem skyggja á bifhjól við gatnamót, hættulegir sviptivindar við brúaenda, yfirborð brúargólfa, sandskaflamyndun og fleiri þætti sem geta skapað hættu fyrir bifhjólafólk og fleiri vegfarendur.

Þá var einnig rætt um hvernig boðleiðir milli Vegagerðarinnar og vegfarenda virkuðu best, hvernig best væri að koma ábendingum til Vegfarenda og hvernig Vegagerðin gæti á sem bestan hátt komið boðum til bifhjólafólks, t.d. um framkvæmdir við yfirlagnir, hættulega vegkafla o.s.frv. Var m.a. rætt um að nýta heimasíður Vegagerðarinnar og Sniglanna sem og aðra möguleika internetsins og annarra miðla.