Fréttir
  • Kristján L Möller sprengir síðasta haftið í Héðinsfjarðargöngum

Sprengt í gegn í Héðinsfjarðargöngum

Ólafsfjarðarleggur ganganna líka búinn

9.4.2009

Kristján L. Möller samgönguráðherra sprengdi síðasta haftið í Héðinsfjarðargöngum kl. 10:00 á Skírdagsmorgun. Vel hefur gengið að sprengja að undanförnu þrátt fyrir að mikill vatnsagi í Ólafsfjarðaleggnum hafi tafið verkið á fyrri stigum.

Þá er búið að sprengja alla 10,6 kílómetrana en Héðinsfjarðargöng verða um 11 km með vegskálum.

Slegið var í gegn Siglufjarðarmegin fyrir ári síðan.

Haldið verður áfram að styrkja göngin, varna vatnsleka, leggja lagnir, malbika veginn og allt annað sem þarf til að gera göngin klár fyrir almenning en reiknað er með að því verki ljúki í júlí á næsta ári.

Göngin stóðust fullkomlega á því einungis munaði 11 cm á hlið ganganna og 6 cm á toppi þeirra. Og sé tekið mið af hversu óreglulegir veggirnir eru þá er þetta minna enginn munur.

Héðinsfjarðargöng er stærsta verkefni sem Vegagerðin hefur boðið út til þessa og var verksamningur milli Vegagerðarinnar og verktakans Metrostav a.s. og Háfell ehf. undirritaður á Siglufirði þann 20. maí 2006.

Framkvæmdin er liður í að bæta samgöngur, auka umferðaröryggi og tengja Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og styrkja þannig byggð á svæðinu.

Framkvæmdin mun stytta leiðina milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar úr 62 km í um 15 km miðað við leið um Lágheiði og úr 234 km í 15 km miðað við leið um Öxnadalsheiði.

Frekar má fræðast um framkvæmdina hér á vefnum.

Hedinn01

Hedinn03

Hedinn05

Hedinn09

Hedinn10