Fréttir
  • Norðfjarðargöng

Opið hús um frummatsskýrslu Norðfjarðarganga

Vel sóttir fundir

15.1.2009

Vegagerðin og Fjarðarbyggð stóðu fyrir kynningu á mati á umhverfisáhrifum Norðfjarðarganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar með opnu húsi í Egilsbúð í Neskaupsstað og í Valhöll á Eskifirði 7. og 8. janúar.

Vel á annað hundrað manns sóttu fundina. Fram komu áhyggjur yfir því að framkvæmdinni yrði frestað en um það hefur engin ákvörðun verið tekið. Það kemur í ljós við endurskoðun vegáætlunar á næstu vikum.

Frestur til að gera athugasemdir við frummatsskýrsluna er til 22. janúar og fundirnir eru liður í því að kynna skýrsluna og auðvelda fólki að gera athugasemdir.

Ýmsar athugasemdir komu fram á fundunum:

Neskaupsstað 7. janúar:

Kom fram að Austfirðingar eru búnir að bíða nógu lengi eftir þessari framkvæmd.

Áætlanir um framkvæmdina voru ein af forsendum þess að sveitarfélagið Fjarðabyggð varð til.

Framkvæmdin er nauðsynleg fyrir starfsemi Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað.

Fólk á Austurlandi þarf líka vinnu, ekki bara fólk á suðvesturhorni landsins.

Skorað á fundarmenn að senda samgönguráðherra tölvupóst og biðja um að framkvæmdum verði ekki frestað.

Kvartað yfir að í frummatsskýrslunni væri ekki sýnt áframhaldið með jarðgöngum til Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar. Það virðist þó sem göngin séu staðsett þannig að það verði nokkuð auðvelt að leggja göng áfram. Gangamunni verði þó að vera utan vatnsverndarsvæðisins í Fannardal og því þurfi veg meðfram strönd Mjóafjarðar.

Guðröður Hákonarson, landeigandi Fannardals gerði athugasemd við fyrirhugaða efnistöku úr áreyrum Norðfjarðarár. Hann sagði að efnistökusvæðið væri afmarkað of stórt á teikningu með frummatsskýrslu. Það væri hægt að taka allt að 2,5 m þykkt lag af góðu efni úr áreyrunum og því hægt að hafa svæðið minna. Guðmundur Heiðreksson sagði að ákveðið hefði verið að sýna mun stærra svæði fyrir mögulega efnistöku en þörf er á vegna vegagerðarinnar til að hafa tækifæri til að velja efnistökustað, staðsetja hann og afmarka í samræmi við leiðarval. Efnistaka á svæðinu yrði skoðuð betur við gerð útboðsgagna. Haft yrði samráð við hagsmunaaðila við undirbúning efnistökunnar.

Fram kom að skoða þyrfti þann möguleika að leggja veginn í Norðfirði á áreyrunum sunnan Norðfjarðarár. Var bent á nýja veginn í Norðurárdal í Skagafirði sem dæmi um vel heppnaðan veg sem lægi eftir áreyrum.

Eskifirði 8. janúar:

Fulltrúi frá golfklúbbi Eskfirðinga (Jón Steingrímur Baldursson) gerði athugasemdir um legu vegarins yfir golfvöllinn og ætlar að senda þær skriflega. Hann sagðist telja að golffélagið ætti rétt á bótum. Guðmundur Heiðreksson sagði að málið yrði skoðað þegar samningar við landeigendur hæfust.

Svæðisstjóri Eimskips og Flytjanda á Austurlandi (Karl Gunnarsson) sagði að göngin væru mjög mikilvæg fyrir þungaflutninga til og frá Norðfirði. Nú þarf að nota sérstaka bíla við gámaflutninga í gegnum göngin og í sumum tilfellum verða flutningar að fara sjóleiðina eða yfir gamla fjallveginn yfir Oddskarð.

Kvartað var yfir að í frummatsskýrslunni væri ekki sýnt áframhaldið með jarðgöngum til Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar.

Fara hefði átt með jarðgöngin ofan í jörðina við hlið sundlaugarinnar á Eskifirði, undir kirkjuna og Bleiksána.

Nokkrar ábendingar komu um örnefni. Borgir væru ekki rétt staðsettar í Eskifirði. Einnig væri þar örnefnið Borgarmýrar. Í Norðfirði vildu sumir meina að örnefnið Staðarháls væri ekki til, hálsinn nefndist Seldalsháls. Starfsmenn Vegagerðarinnar munu skoða örnefnin betur og lagfæra í samræmi við það sem kemur í ljós.

Að Borgum er hesthús fyrir 12 hesta. Eigandi hesthúsanna hafði litlar athugasemdir við legu Norðfjarðarvegar og bjóst ekki við að vandræði yrðu fyrir hestamenn vegna framkvæmda. Búið er að tilkynna hestamönnum sem eru með aðstöðu á Eskifjarðarbænum að þeir verði að flytja sig á Símonartún, nýtt svæði utan við bæinn fyrir næsta vetur 2009-2010. Við hönnun tengingar að golfvelli og inn Eskifjörð að sunnanverðu þarf að hafa samráð við eigendur hesthúsanna að Borgum, þannig að umhverfi þeirra verði raskað sem minnst. Kom fram að beitarlönd hestamanna í Eskifirði hafa verið skert mikið á undanförnum árum, bæði vegna skógræktar í áður skilgreindum beitarhólfum og vegna stækkunar golfvallarins, sem hófst sumarið 2007 án samráðs við hestamenn og án undangenginna skipulagsbreytinga.

Frá fundinum í Neskaupsstað:

Nordfjg1

Skeggrætt á Eskifirði:

nordfjg2