Fréttir
  • Verkefni í gangi 2008

Framkvæmdir á árinu 2009

miklar framkvæmdir áfram í gangi, ákvörðun um nýjar framkvæmdir teknar fljótlega

7.1.2009

Vegna fréttaflutnings um niðurskurð hjá Vegagerðinni er rétt að árétta að framlög til nýframkvæmda á næsta ári lækka um u.þ.b. 5 milljarða króna frá því sem fyrirhugað var á fjárlögum þegar þau voru fyrst lögð fram í haust.

Hvaða framkvæmdum verður frestað og í hverjar verður farið á árinu 2009 kemur endanlega í ljós við endurgerð vegáætlunar sem nú er unnið að. Samgönguráðherra stefnir að því að leggja fram vegáætlun fyrir árið 2009 fljótlega eftir að Alþingi kemur saman.

Ekki stendur til að slá neinar framkvæmdir af heldur verður þeim frestað þar til fjármagn til þeirra fæst.

Framkvæmdum sem hafnar eru verður haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það á líka við um áfangaskipt verkefni eins og Dettifossveg og Suðurstrandaveg. Í báðum tilvikum verður fyrri áfanga verkanna haldið áfram í samræmi við útboð, þótt óljóst sé um seinni áfanga eins og er.