Fréttir
  • Frá framkvæmdastjórnarfundi CEDR

Vel heppnaður CEDR fundur

framkvæmdastjórnin hittist á Íslandi

9.12.2008

Þann 4. og 5. des. sl. var haldinn fundur í framkvæmdastjórn CEDR. Ísland var gestgjafi að þessu sinni og fundurinn haldinn á Hilton hóteli í Reykjavík. CEDR (Conference of European Directors of Roads) eru samtök vegamálastjóra og aðstoðarvegamálastjóra 26 Evrópuríkja.

Vegamálastjórarnir sitja í svokölluðu stjórnarráði (Governing Board) en aðstoðarvegamálastjórarnir í framkvæmdastjórn (Executive Board).

Auk þess starfa á vegum samtakanna margir hópar sérfræðinga að tilteknum verkefnum, sem ákveðin eru til fjögurra ára í senn. Samtökin hafa skrifstofu í París. Fundinn í Reykjavík sátu alls 33, þar með taldir starfsmenn CEDR og túlkar.

Auk Gunnars Gunnarssonar aðstoðarvegamálastjóra sátu fundinn Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs, og G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi. G. Pétur aðstoðaði við skipulagningu og framkvæmd fundarins en Kristín er formaður í vinnuhópi, sem hefur á sinni könnu fjögur verkefni. Var tveimur þeirra gerð skil á fundinum og sá Kristín um kynningu á öðru verkefninu (Road Pricing). Auk Kristínar eru Auður Þóra Árnadóttir og Baldur Grétarsson í verkefnahópum hjá CEDR af hálfu Íslands. Í upphafi fundarins kynnti Hreinn Haraldsson vegamálastjóri Vegagerðina fyrir fundarmönnum og stöðu mála á Íslandi.