Fréttir
  • Malbikun á Hellisheiði 2005

Bráðabirgðaákvæði um verðbætur í útboðum Vegagerðarinnar

Vegna þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á olíuverði og verðþróunar það sem af er árinu

28.5.2008

Vegna þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á olíuverði og verðþróunar það sem af er árinu 2008 hefur Vegagerðin ákveðið að tímabundið verði öll jarðvinnu- og byggingarverk verðbætt eftir sömu reglum og hafa gilt fyrir verk sem unnin hafa verið á lengri tíma en 12 mánuðum, þ.e.a.s. breytingar á vísitölum umfram 3% á ári (0,24663% á mánuði).

Ákvörðunin gildir fyrir öll útboðsverk sem opnuð verða eftir 3. júní 2008. Grunnvísitölur þeirra verka skulu vera vísitölur reiknaðar í útboðsmánuði og gilda fyrir mánuðinn á eftir.

Í verkum þar sem verktaki á að útvega asfalt skal það verðbætt sérstaklega í samræmi við gildandi leiðbeiningar og reglur um gerð útboðslýsinga.

Sama á við um almenningssamgöngurnar:

Vegna þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á olíuverði og verðþróunar það sem af er árinu 2008 hefur Vegagerðin ákveðið að verðbæta tímabundið alla þjónustusamninga sína í almenningssamgöngum, þ.á m. vegna sérleyfisaksturs, reksturs ferja og styrkts áætlunarflugs.

Þjónustusamningar til lengri tíma sem reiknaðar hafa verið verðbætur á einu sinni á ári verða verðbættir mánaðarlega frá 1. mars 2008 til ársloka.

Nýir þjónustusamningar til lengri tíma skulu verðbættir í samræmi við ákvæði í útboðsgögnum en ofangreint bráðabirgðaákvæði mun gilda um þá þar til ákvörðun þessi hefur verið endurskoðuð.

Ákvörðun þessi gildir út árið 2008 og verður endurskoðuð fyrir árslok.

Svipuð leið var farin árið 2001 af sömu ástæðum.