Fréttir
  • Fráfarandi vegamálastjóri Jón Rögnvaldsson og Hreinn Haraldsson

Hreinn Haraldsson settur vegamálastjóri

Kristján L. Möller setti í dag 23. apríl Hrein til eins árs frá 1. maí

23.4.2008

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, hefur sett Hrein Haraldsson í embætti vegamálastjóra til eins árs, frá 1.maí.

Hreinn hefur lokið doktorsnámi í jarðfræði frá Háskólanum í Uppsölum í Svíþjóð, með áherslu á mannvirkjajarðfræði og jarðverkfræði. Hreinn kom til starfa hjá Vegagerðinni árið 1981 og hefur undanfarið gegnt þar starfi framkvæmdastjóra þróunarsviðs.

Í rökstuðningi sínum fyrir ráðningunni bendir ráðherra m.a. á að í auglýsingu um stöðu vegamálastjóra hafi verið gerðar eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur:

· Háskólamenntun í verkfræði eða sambærileg menntun.

· Víðtæk reynsla af stjórnunarstörfum og áætlanagerð.

· Frumkvæði og leiðtogahæfni.

· Reynsla og hæfileiki til að miðla upplýsingum ásamt hæfni í samskiptum.

Umsækjendur um starf vegamálastjóra voru tíu.

“Eftir ítarlega og málefnalega skoðun á umsóknum og atriðum sem fram komu í viðtölum við umsækjendur, er það mitt mat að Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar sé hæfasti umsækjandinn til þess að gegna stöðu vegamálastjóra,” segir Kristján.

Hreinn hafði rannsókna- og kennsluaðstöðu í jarðfræði, jarðeðlisfræði og jarðverkfræði við Háskólann í Uppsölum árin 1977 til 1981. Hreinn hefur birt fjölda vísinda- og tæknigreina, einn eða í samvinnu við aðra. Greinar þessar hafa fjallað um samgöngur og umhverfismál, fjármögnunaraðferðir í vegagerð, vega- og samgöngurannsóknir, jarðgangnagerð, jarðfræði og fleira. Hann hefur jafnframt flutt fjölmarga fyrirlestra hér á landi og erlendis um sama efni.

Eins og áður segir kom Hreinn til starfa hjá Vegagerðinni 1981, sem yfirjarðfræðingur. Hann hefur víðtæka stjórnunarreynslu: hefur gegnt starfi forstöðumanns jarðfræði- og jarðtæknideildar, starfi framkvæmdastjóra rannsókna og þróunar og er nú framkvæmdastjóri þróunarsviðs, sem komið var á laggirnar 1999 af þáverandi vegamálastjóra.

Undir þróunarsvið heyra áætlana- og umhverfisdeild, umferðardeild, rannsóknadeild og upplýsingatæknideild.

“Hreinn hefur því leitt og haft umsjón með rannsókna- og þróunarstarfi Vegagerðarinnar um langa hríð og m.a. kynnt sér nýjar leiðir í fjármögnun framkvæmda,” segir ráðherra. “Á þessu sviði hefur verið byggt upp öflugt rannsóknar- og þróunarstarf í samgöngu- og vegarannsóknum í tengslum við háskóla, ráðgjafastofur og atvinnulífið. Þessar rannsóknir hafa verið kynntar af Hreini og samstarfsmönnum hans í nefndum og ráðum á vegum evrópskra samgönguyfirvalda. Hreinn hefur í þessum störfum sínum sýnt mikið frumkvæði, leiðtogahæfni, getu til að miðla upplýsingum og hæfni í mannlegum samskiptum.”

“Hreinn hefur auk þess sterka framtíðarsýn fyrir Vegagerðina og er líklegri en aðrir umsækjendur til þess að stuðla að nýbreytni og þróun í starfsemi hennar þannig að hún verði burðarás í rannsókna- og þróunarvinnu í samgöngumálum og mótun samgöngustefnu í samráði við stjórnvöld líkt og gert er ráð fyrir í vegalögum,” segir ráðherra jafnframt í rökstuðningi sínum. Niðurstaða Capacent ráðninga, sem veitti ráðgjöf við skoðun umsókna og framkvæmd viðtala, er sú að Hreinn Haraldsson sé hæfastur umsækjenda.