Fréttir

Suðurlandsvegur - tvöföldun frá Hólmsá að Hveragerði

Drög að tillögu að matsáætlun

18.4.2008

Vegagerðin áformar að tvöfalda Suðurlandsveg frá Hólmsá ofan Reykjavíkur að vegamótum við Hveragerði. Byggður verður 2 + 2 vegur með mislægum vegamótum á allt að 7 stöðum. Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi, lækka slysatíðni og tryggja greiðari umferð um Suðurlandsveg.

Tvöföldun Suðurlandsvegar og gerð mislægra vegamóta er matsskyld skv. tl. 10. ii. í 1. viðauka laga nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum.

Í matsáætlun er gerð grein fyrir framkvæmdinni og jafnframt lýst hvernig staðið verður að rannsóknum og hvaða umhverfisþætti verður lögð áhersla á að fjalla um í frummatsskýrslu.

Gert er ráð fyrir tvöfölduninni í aðalskipulagi Ölfus en ekki í aðalskipulagi sveitarfélaganna Kópavogs, Mosfellsbæjar og Hveragerðis.

Vegagerðin hefur falið Línuhönnun hf. verkfræðistofu að annast mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Tengiliður við mat á umhverfisáhrifum er Svanur G. Bjarnason hjá Vegagerðinni og Árni Bragason náttúrufræðingur og Baldvin Einarsson yfirverkfræðingur frá verkfræðistofunni Línuhönnun.

Drög að tillögu að matsáætlun vegna Suðurlandsvegar er nú kynnt almenningi, hagsmunaaðilum og lögbundnum umsagnaraðilum um tveggja vikna skeið, frá 20. apríl til 7. maí 2008, í samræmi við 14. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum.